Hljómsveitin Fjöll gefur út nýtt lag í dag sem ber heitið „Lengi lifir“. Einnig er hafinn undirbúningur að tónleikum ásamt hljómsveitinni Soma í Ölveri á föstudaginn 8. desember.
Fjöll og Soma eru nátengd bönd því þrír meðlimir eru í báðum böndum. Það eru Guðmundur Annas Árnason söngvari, Snorri Gunnarsson gítarleikari og Kristinn Jón Arnarson bassaleikari. Sveitin kom saman árið 2021 eftir tuttugu ára hlé.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður verkalýðsfélagsins VR, er trymbillinn í Fjöll en hann spilaði áður með sveitunum Guði gleymdir og Los á tíunda áratug síðustu aldar.
Nýr gítarleikari er Guðmundur Freyr Jónasson sem kemur úr annarri átt því hann lék um hríð með harðkjarnasveitinni Vígspá.
„Lengi lifir“ var tekið upp í Hljóðrita af Kristni Sturlusyni upptökumanni. Hægt er að nálgast lagið á Spotify.