Gunnar Ingi er maðurinn á bak við átakið Lífið á biðlista sem hefur vakið mikla athygli undanfarna mánuði. Átakið er herferð gegn löngum biðlistum í meðferð og afvötnun. Hann hefur tekið viðtöl við sex einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að annað hvort hafa verið á biðlista eða vera á biðlista. Nokkrir aðilar mættu í viðtalið undir áhrifum fíkniefna eða áfengis, einn mætti skjálfandi með rauðvínsbelju og drakk á meðan viðtalinu stóð.
Gunnar Ingi varð sjálfur edrú fyrir tíu mánuðum og segir það að fá virka fíkla í viðtal hafi ekki verið triggerandi, heldur hafi hann fundið til með þeim. Hann var þarna sjálfur fyrir stuttu og skilur hvað þau eru að ganga í gegnum.
„Eins og þessi maður sem kom með rauðvínsbeljuna. Saga hans er rosaleg. Hann fór inn á Vog í geðrofi og kvíðakasti og höndlaði ekki breytinguna. Búinn að vera í mjög harðri neyslu í langan tíma. Hann hljóp út af Vogi og sá eftir því strax. Hann hringdi í SÁÁ í von um að fá að koma aftur, og það var pláss inni á Vogi til að taka við honum aftur. En eina sem hann fékk var: Þú getur fengið ráðgjafaviðtal eftir þrjár vikur. Það er það eina,“ segir Gunnar Ingi.
Sjá einnig: Mætti skjálfandi í viðtal með rauðvínsbelju
„Hann þarf aftur að bíða í níu mánuði til að komast inn. Hann fór í gistiskýlið þar sem ungur drengur lést úr ofneyslu í fanginu hans. Það var engin hjálp. Hann var í áfalli, það var svo erfitt að horfa upp á þetta. Ég þekkti hann aðeins fyrir og tók hann heim til mín. Hann var í virkri neyslu þar en hafði allavega stað til að ná sér aðeins. Hann var heima hjá mér í tvo daga bara grátandi en var samt gífurlega þakklátur að fá einhvern stað til að anda, því eina sem beið hans eftir þetta áfall var að bíða á götunni eftir að komast aftur inn á gistiskýlið þar sem fólk er í virkri neyslu og enginn til að tala við.“
Brotið hér að ofan er hluti af viðtali við Gunnar Inga, smelltu hér til að horfa á þáttinn í heild sinni.
Horfðu á þættina frá Lífið á biðlista á YouTube, TikTok eða Instagram.