fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Naglinn um Svartan föstudag – „Vinnum yfirvinnu til að eignast meiri aur til að kaupa meira drasl“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 24. nóvember 2023 19:30

Ragga Nagli Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, fjallar í sínum nýjasta pistli á Facebook um Svartan föstudag (e. Black Friday) sem er í dag. Reyndar er það nú þannig að margir kaupmenn hafa teygt verulega úr deginum, og þjófstarta margir á miðvikudegi meðan aðrir teygja daginn alla helgina. Mætti því segja að dagurinn verði að dökkri viku.

„Svartur föstudagur og við erum rennandi blaut eins og túristi í mars undir steypiregni af tilboðum um útsölur, afslætti og tilboð.

Og afmissisóttinn (FOMO) hríslast niður hryggjarsúluna. Eins og rollur í hjörð rekumst við niður í Skeifu og sjoppum.

Undirliggjandi skilaboðin eru að lykillinn að eilífu Nirvana í endalausri alsælu sé að eignast meira dót.

Vinnum yfirvinnu til að eignast meiri aur til að kaupa meira drasl.

Meira af dóti sem svo endar úldið í skápnum, rykfallið í bílskúrnum, í bláu tunnunni eða í Góða hirðinum.“

Sjá einnig: Segja Svartan föstudag myrkan dag fyrir umhverfið

Ragga nagli segir okkur tengja hamingju og velgengni við alls konar sem í raun færir okkur ekki bofs meira af hamingju heldur þvert á móti veldur oft meiri streitu og kvíða.

„Nýtt 150 herza 80 tommu QLED sjónvarp

Nýjar brækur, skyrtur

Nýtt 12 feta fellihýsi með galvaníseraðri grind.

Nýtt fjögurra brennara Weber grill.

Rafmagnsrúm með kælidýnum og þyngdarteppi.

Klassísk ljósakróna eftir frægan danskan hönnuð.

Ný sprautulökkuð eldhúsinnrétting“

Er á meðal hluta sem Ragga nagli telur upp.

Hvað gerir okkur hamingjusöm?

Ragga nagli segir kaldhæðni fólgna í því að strögglið eftir þessum hlutum geri okkur í raun ekki hamingjusöm.

Hamagangur eins og hamstur í hlaupahjóli til að eignast meiri pening og kaupa meira drasl gerir okkur heldur ekki hamingjusöm

Í allri þessari yfirvinnu höfum við minni tíma aflögu fyrir börnin, makann, vinina, fjölskylduna.

En samvera og nánd er það sem gerir okkur raunverulega hamingjusöm.“

Ragga nagli tekur dæmisögur máli sínu til stuðnings:

„Fólkið sem býr á Bláu svæðunum eru með hæsta hlutfall íbúa sem ná hundrað ára aldri eiga tvennt sameiginlegt.

Eiga djúp og náin félagsleg tengsl og hreyfa sig mikið í daglegum göngum.

Þau vita ekki hvað svartur Fössari er.

Landlæknir Bandaríkjanna, Vivek Murthy, hefur beint sjónum sínum að einmanaleika og áhrifum þess á heilsuna.

Í bók sinni Together tekur hann dæmi um mann sem leitaði til hans vegna heilsubrests en sjúklingurinn vann stóra upphæð í Lottó og sagði að það hefði verið það versta sem kom fyrir hann í lífinu.

Áður fyrr bjó hann í millistéttarhverfi og átti góða nágranna sem hann umgekkst mikið. Hann fór í vinnuna og eyddi tíma eftir vinnu með samstarfsfélögum sínum.

Hann átti marga vini sem hann treysti og átti góðar stundir með.

Eftir að hann varð moldríkur keypti hann sér risastórt hús með sundlaug í hverfi sem var víggirt eins og fangelsi.

Hann hætti að vinna. Keypti sér allskonar dót og drasl. Nýjan bíl. Fór til útlanda.

Þekkti engan í hverfinu. Missti öll tengsl við gömlu vinina og samstarfsfélagana. Treysti ekki nýju fólki því hann vissi ekki hvort það væri bara að notfæra sér hann fyrir aurinn.

Í fyrsta skipti á ævinni var hann ömurlega einmana. Og byrjaði að upplifa heilsubrest með háum blóðþrýstingi og sykursýki.

Samkvæmt Vivek Murthy aukast líkur á hjartasjúkdómum um 29%, elliglöpum um 50% og hjartaáfalli um 32% þegar félagsleg tengsl eru í núlli.

Niðurstöður fjölmargra rannsókna sýna að það sem gerir okkur hamingjusöm eru félagsleg tengsl og samvera með fólki af holdi og blóði í kjötheimum.

Ekki pikk á lyklaborð og emojis í Messenger.“

Eftirfarandi eykur hamingjuna samkvæmt rannsóknum: 

„Rannsóknir sýna jafnframt að eftirfarandi hlutir gera okkur hamingjusöm:

Þéna nægilegan mikinn aur fyrir áhyggjulaust líf. Hærri innistæða hækkar ekki hamingjustuðulinn.

Gera hluti sem hafa tilgang og merkingu fyrir okkur.

Hjálpa öðrum og vera til staðar.

Leyfa öðrum að hjálpa þér.

Byggja upp traust sambönd.

Hugleiðsla og slökun.

Valhoppa úti í náttúrunni.

Fagna hversdagslegum augnablikum, og þakklæti fyrir það sem við eigum.

Hafa tíma og yfirsýn fyrir verkefnin okkar.

Upplifa hluti frekar en að sjoppa allskonar dót. Því nýjabrumið fer fljótt af veraldlegum hlutum, á meðan upplifun lifir í minningunni.

Hreyfa skrokkinn.

Fóðra líkamann með hágæðanæringu.

Njóta tíma með vinum og fjölskyldu.

Ef þú vilt hafa hamingjutunnuna þína stútfulla hefurðu tvo kosti:

1) Fylla á hana reglulega með gæðastundum með vinum, góðum svefni, núvitundaræfingum, öndunaræfingum, öflugu félagslífi, hollum og næringarríkum mat og hvíld frá amstri dagsins.

2) Hamast í hamstrahjólinu þar til þú lyppast niður örmagna, og neyðist til að stimpla þig út úr samfélaginu, mergsoginn af þreytu og streitu.

En hey, þú átt allavega fullt af dóti til að leika þér með aleinn í veikindaleyfinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set