fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Segir kynferðisofbeldi reglu frekar en undantekningu – „Mjög margt ofbeldisfólk skilur ekki skaðann sem það veldur”

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 22. nóvember 2023 09:50

Bjarni Karlsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að væri svo mikil regla, ekki undantekning. Ákveðið mynstur, til dæmis hjá fjölskyldum þar sem barnaníð hefur haft sína farvegi eða í samfélagi þar sem aðgangur að líkama kvenna er eitthvað sem bara gerist,” 

segir Bjarni Karlsson sálgætir, prestur og siðfræðingur, en hann gaf á dögunum út bókina Bati frá tilgangsleysi. Bjarni er gestur Einars Bárðarsonar í hlaðvarpinu Einmitt. Þar ræða þeir ofbeldismenningu mannkyns, mikilvægi nándar og tengsla í bata og hversu miklu máli skiptir að lifa af alefli. 

„Það að vera þolandi kynferðisofbeldis er rosaleg árás á heilsu fólks. Eins og með kjarnorkusprengju. Geislunaráhrif ætla aldrei að hætta.”

Mesti heilsuvandi kvenna er ofbeldi í nánum samböndum

„Þetta er verra en annað ofbeldi. Það er kjarninn í mennskunni að stíga út fyrir sjálfan sig og mynda kynferðissamband við aðra manneskju. Þarna er ráðist að kjarna persónunnar,“ segir Bjarni sem leggur í þessu sambandi sérstaka áherslu á að ekki ætti að tala um sálarmorð eða að vera rænd æskunni. „Ljáum ofbeldi ekki þann stað sem það getur ekki haft.“

Bjarni gerir metoo átakið að umræðuefni í bók sinni og segir að þolendum líði oft inn við beinið eins og að þeir hafi átt ofbeldið skilið. „Það er hugtak til í kynjafræðum sem heitir „rapeable“ og líkamar hafa í tímans rás verið flokkaðir þannig. Við höfum kynjaðar hugmyndir um svo margt. Mesti heilsuvandi kvenna í heiminum er ofbeldi í nánum samböndum.“

Karlmenn að stíga fram

„Núna eru að koma fram eldri karlmenn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku. Búnir að bera djúpa skömm og sjálfsfyrirlitningu og aldrei orðað það við neinn. Við það að opna sig og vinna með ofbeldi hef ég séð karlmenn yngjast fyrir framan nefið á mér,“ segir Bjarni.

Höfum gríðarlega mikla tilhneigingu til að valda tjóni

Í viðtalinu er Bjarna og Einari tíðrætt um lífið og mennskuna og hvernig við erum öll sífellt að takast á við samfélagið og okkur sjálf. „Ef við getum ekki stungið upp höfðinu, hvað erum við þá að gera hérna? Við verðum að una þeirri staðreynd að lífið er háskalegt og enginn kemst undan því. Það er flókið að vera manneskja en við sem tegund á þessari jörð höfum gríðarlega mikla tilhneigingu til að valda tjóni. Og hver fjárinn er það?“ segir Bjarni á mjög einlægum nótum.

Hann nefnir í þessu samhengi mannlegt markaleysi og hvernig það endurspeglast í muninum á hörmungunum í Grindavík og á Gaza. Annars vegar af völdum náttúrunnar, sem við höfum enga stjórn á og hins vegar mannvonsku. „Allt í einu skapast tilgangur; vakandi innviðir eins og björgunarsveitir og íslenskt samfélag. Við kunnum að standa saman þegar í harðbakkann slær og leggjum til hliðar allan ágreining. Kunnum að vera manneskjur.“

Allt gott gerist í nánd og tengslum

Bjarni segir að tilgangur liggi alltaf í því að manneskjan skapi hann sjálf með því að taka virka afstöðu, gera eitthvað af viti og missa aldrei augnsamband við lífið og hvert annað. „Þegar fólk er framandi hvert öðru og fólk þorir ekki að gera mistök því það verði dæmt harkalega. Túlkunarvandi er svo víða í gangi. Ef ég vil skána, er í djúpum skít og vil ná bata, þá gerist það allt í nándinni og tengslum. Þess vegna þurfum við hvert á öðru að halda,“ segir Bjarni með þungri áherslu.

Ráðist að kjarna persónunnar

Í sinni prestlegu sálgæslu, eins og hann orðar það sjálfur, hefur hann mikið unnið með þolendum kynferðislegs ofbeldis. Allt frá því að Sigrún Pálína Ingvarsdóttir steig fram fyrir næstum 30 árum. Bjarni segist hafa lært ótrúlega margt um kynferðisofbeldi.

Meðal verkefna sem Bjarna hefur verið falið er að taka á móti mögulegum þolendum séra Friðriks Friðrikssonar og hann segir að það sé svo mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að skilja ofbeldi, eðli þess og afleiðingar. Slíkt gerist í nándinni. „Mjög margt ofbeldisfólk skilur ekki skaðann sem það veldur. Leyfum batanum að halda áfram. Verum samtaka um það að una veruleikanum eins og skilja hann eins og hann er og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að börnin okkar lifi í samfélagi þar sem er minna slagrými og ólíklegra að fólk verði fyrir kynferðislegu eða öðru ofbeldi. Til þess þarf viðhorfsbreytingu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“