fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Jóhanna fór í opna hjartaaðgerð – Greind með hjartagalla á meðgöngu – „Dóttir mín hélt mér frá að hugsa allar þessar vondu hugsanir“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 18. nóvember 2023 09:00

Örið eftir aðgerðina er áberandi. Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tæpar þrjár vikur eru liðnar síðan Jóhanna Brynja Kristbjargardóttir, sem er 21 árs, var í opinni hjartaaðgerð í Lundi í Svíþjóð. Sex mánaða gömul fór hún í hjartaaðgerð í Boston í Bandaríkjunum vegna meðfædds hjartagalla. Gengin 30 vikur með sitt fyrsta barn kom í ljós að hjartað í Jóhönnu var undir miklu álagi sem þurfti að fylgjast vel með og nokkrum vikum eftir fæðingu kom í ljós að Jóhanna þurfti að fara í aðgerð. Móðir hennar segir meðgönguna hafa bjargað dóttur sinni, mögulega hefði hjartagallinn ekki greinst annars.

„Þegar ég gekk með Jóhönnu þá varð einhver stökkbreyting sem olli því að hún fékk stökkbreytt gen sem veldur alls konar veikindum meðal annars þessum hjartagalla. Hún tók sem dæmi þátt í einhverri erfðarannsókn hjá Erfðaráðgjöf Landspítalans, og þar kom í ljós að við foreldrar hennar erum ekki berar, en fyrst hún er með genið þá voru 50% líkur á að dóttir hennar fengi það,“ segir Kristbjörg Halla Lleshi Magnúsdóttir móðir Jóhönnu, þar sem við sitjum á heimili hennar í Kópavogi. 

Hjartagalli greindist þegar Halla gekk með Jóhönnu og fóstrið var 20 vikna. „Það voru gerðar alls konar rannsóknir sem kom ekkert út úr, og svo var spurt „eigum við ekki að athuga hjartað líka?“ eins og það væri síðast á tékklistanum. Ég var samt alveg viss um að það væri ekkert að,“ segir Halla sem var 18 ára þegar hún varð ófrísk að Jóhönnu. „Ég varð 19 ára í desember og hún fæddist í apríl. Ég var sett í þessar rannsóknir af því legvatnið var minna en það átti að vera og það voru einhver próf sem komu ekki nógu vel út.“

Mæðgurnar hittu því Gunnlaug Sigfússon hjartalækni Jóhönnu í fyrsta sinn þegar hún var 20 vikna fóstur og hún greind með meðfæddan hjartagalla, e. Tetralogy of Fallot. „Strax þá fór ferli í gang og sex mánaða gömul fór hún til Boston í aðgerð og 21 ári seinna er hún komin í aðgerð í Svíþjóð. Jóhanna var veik og alls konar þegar hún var lítil en rosa skemmtilegur krakki, þessi aðgerð var mjög mikið mál á sínum tíma. Svo liðu árin, og það lengdist alltaf tíminn á milli eftirlits hjá henni af því það var alltaf allt í lagi. Við vorum áður mikið hjá læknum, vorum með heimaþjónustu, ég lærði að setja sondu í Jóhönnu sem er eitt það hræðilegasta sem ég hef gert. Svo þegar hún verður ófrísk í fyrra þá voru liðin nokkur ár síðan hún fór síðast í eftirlit,“ segir Halla. 

Mæðgurnar Jóhanna og Halla
Mynd: DV/KSJ

Tvær stórar aðgerðir á einu ári

Jóhanna flutti til Akureyrar fyrir tveimur árum eftir að hún kynntist kærasta sínum og barnsföður. „Við erum búin að vera saman í tvö ár. Dóttir okkar er 10 mánaða, þetta gerðist svolítið hratt. Dóttir mín fæddist í janúar, tekin með keisara og svo þessi aðgerð, þannig að ég er búin að fara í tvær stórar aðgerðir á einu ári,“ segir Jóhanna, sem var í alls átta daga á spítala þegar kom að fæðingu og var á endanum sett í keisara. 

„Hún var sett í gang á mánudegi og fæddi á föstudeginum. Svo kom litla dúlla sem bjargaði Jóhönnu, ég held alveg að ef hún hefði ekki orðið ólétt þá hefði enginn pælt í hjartanu á henni og maður veit ekki hvernig þetta hefði farið. Ég held ég hafi verið þreyttari eftir hennar fæðingu en mína eigin fyrir tveimur árum. Á þessum föstudegi þá þurfti ég að fara með systur hennar til læknis og segi við lækninn að hún sofi svo illa, og þá var ég nýkomin af fæðingardeildinni, rosalega tætt og þreytt, þannig að hann trúði mér alveg,“ segir Halla og hlær.

Greind með hjartagalla gengin 30 vikur 

Dóttir Jóhönnu var skoðuð vel eftir fæðingu. Mæðgurnar voru hræddar um það að dóttir Jóhönnu hefði erft stökkbreytta genið frá henni. „Það var tekið sýni úr naflastrengnum áður en hann var klipptur og svo fékk ég símtal um að hún hefði ekki erft neitt og ég var mjög fegin. Annars hefðum við mögulega verið í aðgerð saman. Ég fór í margar skoðanir á meðgöngunni af því ég var hrædd um að væri eitthvað að henni, en svo er hún bara fullkomlega eðlilegt lítið barn,“ segir Jóhanna. „‘Ég myndi segja að hún væri ofurbarn, sérstaklega vel gert barn, fyrsta ömmubarnið mitt,“ segir Halla brosandi. Það er greinilegt að samband þeirra mæðgna er náið og það er létt yfir þeim þó erfiðum tíma sé nýlokið. 

„Við létum kíkja á hjartað á dóttur minni þegar ég gekk með hana, en það var enginn að segja okkur að ég þyrfti kannski sjálf að fara til hjartalæknis og láta skoða mig, en ég var með lágan blóðþrýsting alla meðgönguna,“ segir Jóhanna. „Það var svolítið síðan við höfðum hitt Gulla lækni síðast, hann er barnahjartalæknir, en Jóhanna er auðvitað ekki barn lengur. En hann bara hringdi eftir að við höfðum skilið eftir skilaboð til hans og þá var hún stödd hér í heimsókn hjá mér og við förum í skoðun til hans þegar Jóhanna var gengin um 30 vikur. Þar kom í ljós að hjartað í henni var að erfiða meira en það átti að gera, þannig að það var sett af stað ferli þar sem hún var á Landspítalanum, það var rætt við hjartalækni og fæðingarlækni. Eftir fæðinguna var Jóhanna greind með annan hjartagalla, e. Double Chamber Right Ventricle. Hann Gulli hjartalæknir er ótrúlegur, búinn til úr einhverjum töfrum, er bara ótrúlega skilningsríkur og útskýrir allt vel og manni líður eins og hún sé eini skjólstæðingur hans,“ segir Halla.

Jóhanna segir að um leið og hjartalæknir hennar hafi séð þrenginguna í hjartahólfi hennar hafi hann sagt henni að hún yrði að fara í aðgerð innan sex mánaða. Hún var því reglulega að koma til Reykjavíkur í eftirlit og skoðanir.

„Eftir á að hyggja þá voru viðbrögðin og viðbúnaðurinn mjög mikil, ég var á taugum yfir þessu öllu saman og hugsaði alltaf að það væri eitthvað mikið að. Svo fór Jóhanna í skoðun þegar dóttir hennar var fjögurra mánaða og þá kom í ljós að hún þyrfti að fara í hjartaaðgerð til Svíþjóðar. Hjartalæknirinn hringdi til Lundar til að fá dagsetningu á aðgerð og fékk alla pappíra frá Boston. Það var svo mikil þrenging í hægra hjartahólfi að það þurfti að fylgjast með hvort það hjartað yrði verra eða ekki,“ segir Halla.

Mæðgurnar segja biðina eftir aðgerð hafa tekið á, tæpir sex mánuðir liðu frá fréttunum og þar til að aðgerðinni kom, en síðustu 6-7 vikur áður en að aðgerðinni kom voru sérstaklega erfiðar, þá átti dagsetning á aðgerð alltaf að koma eftir nokkra daga. Halla segir jafnframt að horfa verði til þess að það er ekki einungis ein manneskja að fara erlendis í aðgerð, málið snerti einnig aðra fjölskyldumeðlimi. 

„Jóhanna er með lítið barn og ég líka, hvorugar þeirra voru komnar á leikskóla, hvar áttu þær að vera meðan við værum úti, hvernig yrði eftirlit eftir aðgerð? Það voru svo miklar pælingar, svo leystist allt ótrúlega vel. Dóttir Jóhönnu var hjá pabba sínum og föðurömmu, mamma mín kom heim frá Malasíu til að vera með dóttur mína, faðirinn er auðvitað fullfær um að hugsa um hana en við vorum ekki komin með leikskólapláss. Þannig að það voru áhyggjur af alls konar hlutum. Þetta var risastórt verkefni. Og þetta tók á alla, maður var alltaf að bíða eftir símanum i vinnunni og hvar sem er. Þannig að þetta var fyrst hvenær förum við, hvernig verður þetta, lifir hún þetta af? Þetta var það sem ég hafði áhyggjur af. Maður fer út um allt í huganum, líka þegar hún var ófrísk og ég var mikið að velta fyrir mér hvort eitthvað myndi koma upp á. Það reynir mjög á að vera með veikt barn,“ segir Halla, sem vinnur sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ. „Ég vildi ekki bóka á mig of mörg viðtöl í vinnunni fram í tímann, ef ég hefði svo þurft að afbóka allt. Allir í vinnunni hjá mér þekkja Jóhönnu og eiga í henni hvert bein, ég byrjaði að vinna þarna þegar hún var tveggja ára, fermingarveislan hennar var í salnum á göngudeildinni.“

Símtalið um aðgerðardag kom svo loks með viku fyrirvara, sem var meiri fyrirvari en þegar Jóhanna var sex mánaða. Þá fékk móðir hennar símtal á fimmtudegi og þær voru komnar til Boston á sunnudegi.

Mynd: DV/KSJ

Jóhanna sjálf minnst kvíðin 

Að sögn mæðgnanna var sú sem var minnst kvíðin fyrir því sem koma skyldi Jóhanna sjálf, sjúklingurinn sem fara átti í erfiða skurðaðgerð. „Þetta var ekkert raunverulegt fyrir mér fyrr en ég lagðist inn á hjartadeildina í Svíþjóð og var að tala við dóttur mína í símann degi fyrir aðgerð. Það voru allir aðrir með áhyggjur fyrir mig, sérstaklega mamma. Ég bara gat ekki hugsað um þetta, þetta var bara engan veginn raunverulegt að ég væri að fara til Svíþjóðar í hjartaaðgerð. Þetta var rosa mikil afneitun og ég pældi lítið í þessu. Dóttir mín hélt mér frá að hugsa allar þessar vondu hugsanir. Þetta var ekkert raunverulegt fyrir mér fyrr en þarna og þá hugsaði ég hvort ég myndi ná mér nógu vel svo ég gæti farið heim til dóttur minnar, eða hvort ég myndi hreinlega vakna fötluð,“ segir Jóhanna sem hafði þó ítrekað þurft að fara upp á bráðamóttöku vegna hjartagallans sem beið skurðaðgerðar.

„Ég var með svo miklar aukaverkanir, það var svimi, mikil þreyta, og aukaslög í hjartanu. Ég þurfti stundum að setjast á gólfið til að ná andanum. Þetta var líklega einu skiptin sem ég hugsaði að ég þyrfti í þessa aðgerð, annars var ég bara í mikilli afneitun. Þessi veikindi hafa staðið lengi yfir og þróast hægt, en svo þróuðust málin hratt á meðgöngunni og eftir að dóttir mín fæddist og ég varð bara veikari og veikari.“

Halla sem fylgdi Jóhönnu til Svíþjóðar segist muna vel eftir augnablikinu þegar Jóhanna áttaði sig á því sem framundan var. „Þetta var skrítið augnablik þarna daginn fyrir aðgerðina þegar Jóhanna áttaði sig á þessu. Hún var að tala við dóttur sína í myndsímtali og grét, ég grét, svo fékk hún svefntöflu og ég sat þarna og var að reyna að vera voða hljóðlát af því Jóhanna var með herbergisfélaga.“ Systir Kristbjargar fór með mæðgunum út og segjast mæðgurnar mjög þakklátar fyrir að hún hafi verið með þeim. 

Þegar kom að aðgerð þurfti Jóhanna að fara í þrjár sturtur með sýkladrepandi efni, tvær deginum áður og eina klukkan fimm að morgni aðgerðardaginn sjálfan. Síðan var henni rúllað inn á skurðstofu þar sem hún fékk kæruleysislyf, en hún segist mjög hrædd við nálar og hafa talað um það stanslaust við svæfingalækninn. „Svo var mér alveg sama eftir að kæruleysislyfin virkuðu. Ég var um fimm klukkustundir í aðgerð, síðan haldið sofandi í eina klukkustund og um tveimur klukkustundum seinna mátti mamma koma og hitta mig,“ segir Jóhanna sem ætlar að byrja að útskýra aðgerðina sjálfa, þar sem hún var skorin á bringu, en móðir hennar grípur brosandi inn í, þegar Jóhanna hikar í útskýringunum.

„Þú varst á svo miklu morfíni elskan. Það sem truflar hjartað hjá henni er mjög sjaldgæfur galli, ég reyndi að gúggla en fann engin megindleg gögn, bara tilfellarannsóknir, og gallinn er algengastur í ungum börnun og sjaldgæfur í fullorðnum. Hjartað er með fjögur hólf og í einu hólfinu þar sem lungnaslagæðin er þar fór að vaxa vefur sem þrengir að hólfinu, sem getur þá lokast. Þannig að í aðgerðinni var þessi vefur fjarlægður og þar sem skorið hafði verið í hjartað áður þegar hún var sex mánaða tók þessi aðgerð aðeins lengri tíma. Hólfið var semsagt opnað svo blóðflæði væri eðlilegt inn og út úr hjartanu, hjartað var orðin þreytt þar sem það virkaði ekki sem skyldi,“ segir Halla, en þeim var tjáð eftir aðgerðina að þrenging í hjartahólfinu hefði verið orðið mjög alvarleg.

„Hjartagallinn sem hún fæddist með var þannig að það þurfti að setja bót milli hólfa og það voru einhver lítil göt og skurðlæknirinn hélt jafnvel í aðgerðinni núna að hefði verið leki á milli hólfa, sem var svo ekki. Það sem var lagað þegar hún var sex mánaða virtist allt hafa haldið sér og leit bara vel út,“ segir Halla. Jóhanna segir skurðlækninn hafa sagt mjög ólíklegt að hún þyrfti aftur í aðgerð, hjartað væri heilbrigt fyrir utan þrenginguna sem nú hefur verið löguð.

Mynd: DV/KSJ

Tungumálaörðugleikar og skortur á skilningi

Mæðgurnar segja að það sem hafi komið þeim mest á óvart við dvölina í Lundi, þar se Jóhanna var á spítalanum og Halla á sjúkrahóteli í næstu byggingu, hafi verið tungumálaörðugleikar og skortur á skilningi á aðstæðum Jóhönnu. 

„Við vorum upp á spítala allan daginn deginum fyrir aðgerð, töluðum við alla læknana, ég fór í blóðprufu og fleira. Sumt var algjör rugl, eins og ég fór þangað sem átti að taka blóðprufuna, en þau gátu ekki tekið hana af því ég er ekki með sænska kennitölu, þannig að við fórum á hjartadeildina þar sem var tekið blóð. Það voru miklir tungumálaörðugleikar sem kom okkur á óvart þar sem við vorum í Svíþjóð, sumir áttu erfitt með að tala góða ensku, svo voru þau pirruð að ég skildi þau ekki. Þetta voru aðallega hjúkrunarfræðingarnir, skurðlæknirinn og svæfingalæknirinn töluðu fína ensku,“ segir Jóhanna. 

Halla segir að þær hafi átt að hafa aðgengi að túlk í gegnum síma, hún hafi þó ekki alltaf svarað. „Ég talaði við starfsfólkið og mér fannst á öllum vöktum fólk ekki átta sig á stöðunni, hún er 21 árs með lítið barn heima, hún er útlendingur, að fara í rosalega stóra hjartaaðgerð og það þarf aðeins að útskýra fyrir henni; „þetta eru svona töflur, þetta gerist næst og svo framvegis.“ Hún var verkjuð og kvíðin, það var margt sem mér finnst að hefði mátt gera betur. En svo var starfsfólk sem var alveg framúrskarandi. Ég held þetta hafi frekar verið tungumálaörðugleikar, en að fólk nennti ekki að sinna vinnunni sinni. Þetta kom mér mjög á óvart. Ég veit hún er fullorðin, en þegar maður er sjúklingur og með mikla verki, þá er maður ekki alveg í stöðu til að standa á sínu. Hún var langyngst á deildinni, og með þeim yngstu sem höfðu lagst þar inn. Mér fannst allir mun eldri en Jóhanna, gangandi um með göngugrind, og líklega 40 ár milli hennar og næsta sjúklings í aldri.“

Jóhanna segist lítið muna eftir sjálfri sér á gjörgæslunni fyrir utan mikla verki.  „Mér leið eins og ég hefði vaknað á klukkutíma fresti en það var sennilega mun oftar af því ég var að detta inn og út. Þegar ég vaknaði þá lá ég og langaði að sjá á mér bringuna, en gat ekki haldið höfðinu uppi. Ég var mjög verkjuð og alltaf að biðja um verkjastillingu, ég gat ekki andað djúpt og það þurfti að halla mér mikið upp svo ég gæti andað eðlilega. Mér fannst ég vera að kafna ef ég lá út af. Ég man lítið eftir þessu nema að mér leið hræðilega. Þegar ég vaknaði þá var ég með tvær nálar í hálsinum hægra megin og ég upplifði að konan sem tók þær úr hataði mig. Hún var að kenna mér um að það blæddi af því ég hefði hreyft mig svo mikið, en hún setti ekki verkjastillandi áður en hún tók nálarnar og drenið út. En mér leið betur þegar það var farið og gat andað dýpra,“ segir Jóhanna sem var fljótlega flutt yfir á hjartadeildina, þar sem henni leið mun betur.

Halla segir að það hafi einfaldlega ekki verið pláss strax á hjartadeildinni, en hún hafi beðið um að Jóhanna yrði sett í forgang. „Hún var komin með vonda reynslu af gjörgæslunni og þurfti nýtt start til að geta einbeitt sér að batanum. Hún var auðvitað ofsalega verkjuð. Ég var búin að undirbúa mig fyrir að sjá hana eftir aðgerðina, að sjá allar túburnar og tækin. Þegar hún var sex mánaða var hún kæld niður í aðgerðinni og var rosalega köld þegar ég kom við hana. Þannig að ég var aðeins undirbúin, en hún var svo ólík sjálfri sér, rosalega verkjuð, uppfull af lyfjum, maður er svolítið taugaveiklaður, fegin að hún er í lagi en svo er hún samt ekki í lagi, komin með krump gagnvart starfsfólkinu og maður er mjög vanmáttugur í þessum aðstæðum.“

Mynd: DV/KSJ

Fyrst núna að heyra af heimsóknartíma

Halla segist hafa setið hjá dóttur sinni nær allan daginn alla daga og reynt að hafa ofan af fyrir henni. Jóhanna segir að ákveðinn heimsóknartími hafi verið en þær hafi aðeins teygt á honum. „Við systurnar vorum eiginlega frá morgni til kvölds hjá Jóhönnu, fórum auðvitað að fá okkur að borða og hún þurfti svo að hvíla sig. En hún er ung, útlendingur, við á staðnum og það hefði verið svo fáránlegt að vísa okkur frá, hvað áttum við að gera? Fara í útsýnistúr? Við vorum ekki að trufla neinn, vorum bara hjá henni, ég hef ekki heyrt um neinn heimsóknartíma fyrr en núna,“ segir Halla og hlær.

Jóhanna var 11 daga á spítalanum í Svíþjóð og ef ekki væri fyrir stórt örið á bringunni sem er enn að gróa myndi ókunnugur ekki trúa því, svo hress er hún og ekki að sjá að hún sé nýkomin úr erfiðri aðgerð. „Það kom mér mest á óvart þegar ég fékk að fara í sturtu eftir aðgerðina og tók plásturinn af var örið. Það var smá sjokk að sjá hvað það er áberandi. Núna er ég bara að taka inn Paratabs við verkjum, ég las að maður ætti að vera á morfínskyldu lyfi í sex vikur. Það þurfti að stoppa mig aðeins á því af því ég lét verkjastilla mig svo oft, ég var svo verkjuð. En hægt og rólega var ég sett yfir á Paratabs og mér finnst ótrúlegt að það dugi, þar sem ég var bringubrotin, ég er með víra sem halda bringunni saman, með skurð og litlar holur hér á maganum,“ segir Jóhanna sem segist eftir aðgerðina átta sig á hvað hún var alltaf þreytt áður, hún hafi verið lafmóð að ganga upp einn stiga heima hjá móður sinni. Segist hún hafa fundið mikinn mun á þolinu strax eftir að hún mátti ganga um eftir aðgerðina.

„Ég missti 2,5 kíló af því ég borðaði ekki í fimm daga, líka út af lyfjunum, ég gat ekki borðað neitt. Ég svaf ekkert í fjóra daga, en var svona að detta út í miðri setningu. Ég bað um svefnlyf sem virkuðu vel og á 4-5 degi eftir aðgerð þá svaf ég alla nóttina, lífsmörkin eru tekin klukkan fimm en ég vaknaði rosa hress klukkan sex. Það er gangur sem maður á að labba um 2-3 hringi ef maður getur, ég tók fimm hringi fyrir klukkan átta og var rosa stolt af mér. Síðan fór ég að geta gengið án þess að nota göngugrind, en það gekk einn fyrir aftan mig með hjólastól ef ég þurfti að setjast niður.“

Þar sem margir vildu fylgjast með Jóhönnu erlendis gerðu mæðgurnar lokaðan hóp á Facebook, þar sem þær settu inn upplýsingar. Systir Kristbjargar gerði meðal annars myndband þar sem gert er góðlátlegt grín að Jóhönnu keyrandi um í hjólastólnum til að létta öllum lund. „Á gjörgæslunni byrjaði ég að syngja Pump It Up fyrir lyfin mín þegar þau voru ekki að hlusta á mig. Svo þegar ég var sótt í röntgen og sónar þá söng ég They See Me Rolling.“ „Maður missir ekki húmorinn,“ bætir Halla við.

Mynd: DV/KSJ

Átti ekki von á að komast heim svo snemma

Jóhanna var skorin á þriðjudegi og segir móðir hennar að planið hafi verið að hringja myndsímtal til systur hennar á föstudeginum, en þá átti hún tveggja ára afmæli, og  syngja fyrir hana. „Á miðvikudeginum þá hugsaði ég að við gætum það alls ekki, en svo var Jóhanna orðin það hress að við gátum hringt á föstudag. Það er ótrúlegt hvað líkaminn getur gert. En veistu hvað, það eru tvær vikur síðan hún var í aðgerðinni, ég hefði aldrei trúað því þessa fyrstu þrjá daga eftir aðgerðina að við værum að fara heim viku seinna, hún var svo veik. Svo er hún látin fljúga með Icelandair í miðri vél, hvernig fer maður bara í opna hjartaaðgerð og situr við hliðina á kvefuðum manni sem var í djammferð?“ segir Halla. Jóhanna segir flugið hafa verið lítið mál, hún hafi verið með kodda í fanginu til að halda við bringuna við flugtak og lendingu. Mæðgurnar komumst svo að í viðtal og skoðun hjá Gulla hjartalækni deginum eftir heimkomu.

Jóhanna segir allt ganga vel nema hún hafi þurft að fara á læknavaktina seint síðasta sunnudag eftir að sýking kom í eitt sár þar sem drenið var. „Ég fékk sýklalyf og læknirinn skoðaði lungun og skurðinn og allt leit vel út.“ „Hún var með hita og svima og ég panikkaði aðeins út af sögunni hennar. Ég finn það er stutt í rosa hræðslu, en þetta var læknir af gamla skólanum, sem var mjög rólegur, skoðaði hana og tók próf,“ segir Halla sem viðurkennir að hún myndi vilja hafa Jóhönnu og ömmubarnið nær sér til að hugsa um þær. 

„En maður ræður þessu ekki, þau búa fyrir norðan, ég hefði helst viljað eiga hús fyrir norðan. Jóhanna sagði að ef hún ynni í lottó myndi hún kaupa hús handa mér, nálægt en ekki of nálægt, sem maður skilur, þau vilja auðvitað sjálfstæði. Mér fannst eiginlega erfiðast að geta ekki stokkið til og flogið norður,“ segir Halla, en þrátt fyrir að vera nánar eru mæðgurnar ólíkar. Jóhanna segir mikinn gestagang og alltaf fullt hús hjá mömmu sinni, meðan það er rólegra hjá henni og þannig vilji hún hafa það. 

Mynd: DV/KSJ

Spennt að komast heim til dótturinnar

Jóhanna bíður spennt eftir að komast heim til sín, en þangað flýgur hún föstudaginn 17. nóvember, og þá mun hún hitta dóttur sína í fyrsta sinn síðan hún hélt að heiman til Reykjavíkur og síðan til Svíþjóðar í aðgerðina.

„Ég hef bara talað við hana í síma. Hún var mjög mömmusjúk áður en ég fór, en er núna orðin pabbasjúk sem er bara fínt. Ég er bæði spennt og kvíðin að fara heim. Eftir tvær vikur fer ég í eftirlit hjá hjartalækninum og í desember vill hann skoða hvort það er ekki allt að gróa eðlilega,“ segir Jóhanna og framundan er endurhæfing.

„Endurhæfingin mín er að gera handaæfingar daglega, ganga og taka því rólega. Það tekur 4-6 vikur fyrir bringubeinið að gróa almennilega þannig að ég má ekki gera margt, ég má ekki halda á dóttur minni, ekki halda á þungum hlutum og fleira í nokkrar vikur, sem er svolítið erfitt fyrir mig þar sem ég kann ekki að slaka á,“ segir Jóhanna sem gefst mögulega kostur á að fara á endurhæfingu á Kristnesi þegar hún kemur heim til Akureyrar. 

Mæðgurnar dásama félagsráðgjafa Jóhönnu fyrir norðan og segja hana gera allt fyrir hana. „Hún dreif sig í að finna leikskóla og það gengur allt vel þar, svo fæ ég líklega heimaþjónustu,“ segir Jóhanna.  „Hún hefur lagt sig ofboðslega vel fram í að sinna Jóhönnu, Þetta var svo mikið ferli, ekki bara Jóhanna að fara í aðgerð, hún á barn, kærasta, foreldra og fullt af áhyggjufullum ættingjum. Starfsmenn Akureyrarbæjar hafa verið dugleg að halda utan um fjölskylduna og komu litlu inn á leiksskóla, Jóhanna fær stuðning með hana og fær líklega stuðning heima,“ segir Halla. „Mamma mín flaug hingað í ágúst frá Malasíu til að vera standby af því yngri dóttir mín var ekki komin í leikskóla. Svo var ég bara þessi pirrandi týpa og hringdi út um allt þar til hún fékk pláss. Þetta var ekki bara ein manneskja að fara í aðgerð, þetta hafði áhrif á marga í kringum Jóhönnu og það voru allir í startholunum, systir mín sem er til í að gera allt fyrir okkur, við búum á tveimur stöðum á landinu. Vinnan mín vissi að ég þyrfti að fara með stuttum fyrirvara. Það er búið að leggja margt á stelpuna mína síðastliðið ár, en þetta fór eins vel og hægt var.“

Og Jóhanna segir: „Eina sem hefur verið í huga mér síðan aðgerðin var er dóttir mín, það er hún sem bjargar mér í þessu og mamma.“

Mynd: DV/KSJ
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir