Konan, sem kemur fram í skjóli nafnleyndar og verður hér eftir kölluð X, segir sögu sína í nýjasta þætti af Lífið á biðlista. Gunnar Ingi kom af stað samnefndu átaki fyrr í haust og er þetta sjötta viðtalið í herferð hans gegn löngum biðlistum í meðferð og afvötnun.
Gunnar Ingi segir þetta viðtal sýna virkan fíkil í sinni tærustu mynd. „Þarna er sjúkdómurinn gjörsamlega við stjórn og það er fíkillinn sem er að tala, ekki manneskjan,“ segir hann.
X segir að hún hafi reykt oxycontin, eða oxy eins og það er kallað, og fengið sér kókaín um tuttugu mínútum áður en hún mætti í viðtalið til Gunnars Inga.
„Það var stundum erfitt að skilja hvað hún var að segja,“ viðurkennir Gunnar Ingi.
„Hún sagðist hafa reykt oxy og svo fengið sér kókið eftir á til að „jafna sig út“ svo hún sofni ekki.“
Í sumar tókst X að vera edrú í tvo og hálfan mánuð en hefur verið í dagneyslu síðan hún féll.
Fyrir utan smá „pásu“ – eins og hún kallar tímabilið – á meðan hún fór inn á Vog, þar sem hún fékk sér kókaín og tók suboxone í nefið fjóra eða fimm daga. „Annars var ég edrú,“ segir hún.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem X fór í meðferð. Í fyrra fór hún í meðferð og kynntist í kjölfarið oxy. Að hennar sögn voru allir þar út af oxy neyslu og hún ákvað að hún „þyrfti að prófa þetta líka,“ bara svo hún gæti „verið með.“
Oxy varð efnið hennar. „Ég vissi ekki hvað fíkn var fyrr en ég prófaði oxy,“ segir hún.
X segist ekki vita af hverju hún hafi farið inn á Vog, hún man eiginlega ekki eftir að hafa hringt.
„Ég var greinilega ekki búin með kvótann minn,“ segir hún og bætir við að hún haldi að hún hafi gert það svo henni yrði ekki hent út af heimili foreldra sinna.
„Mig langaði ekki að vera í neyslu, en til að segja sannleikann þá var þetta samt alveg gaman, þar til það var það ekki.“
X segir að hún hafi átt að fara á Hlaðgerðarkot fyrir stuttu en var send heim samdægurs því hún var ekki búin að vera edrú í sjö til tíu daga.
Hún kveðst ekki hafa vitað að hún hafi átt að mæta edrú í eftirmeðferðina, sem fer fram eftir að fólk hefur lokið afeitrun.
„Ég þekki sjálfa mig og ég veit að ef þau hefðu sagt mér það þá hefði ég skrifað það niður og actually gert það,“ segir hún.
Gunnar Ingi segir að hann hafi rannsakað málið sjálfur eftir viðtalið. „Ég komst að því að eftir inntökuviðtalið þá hafi hún farið beint inn á herbergi og reykt oxy þar og þess vegna hafi hún verið send heim,“ segir hann.
X segist vera að reyna að trappa niður neysluna sjálf. Hún var að nota sex til tíu oxy töflur á dag. Hún lýsir slíkum degi að hún vaknar, reykir, dettur út, vaknar, reykir, dettur út, og ferlið endurtekur sig allan daginn.
Nú segist hún nota þrjár töflur á dag og sé aðallega að fá sér til að fara ekki í fráhvörf. „Ég reyni að hafa þetta þannig að ég sé fúnkerandi,“ segir hún en viðurkennir að það komi stundum dagar þar sem hún fær sér aðeins meira.
Móðir X geymir töflurnar og skammtar henni, þegar hún fer í vinnuna þá felur hún töflurnar fyrir dóttur sinni.
Gunnar Ingi segir að X sé mjög ung og hafi byrjað að selja sig um einni og hálfri viku áður en viðtalið var tekið upp.
Á þeim tímapunkti hafði hún verið búin að selja sig þrisvar sinnum. „Það er ógeðslegt,“ segir hún. Hún er nú á biðlista til að komast í meðferð.
Foreldrar hennar eru að verða gjaldþrota vegna neyslu hennar, síðustu mánaðarmót greiddu þau 600 þúsund krónur í fíkniefnaskuldir fyrir hana.
„Pening sem þau eiga ekkert,“ segir hún og bætir við að foreldrar hennar séu við það að gefast upp, en séu meðvirk.
Hún reykir oxy inni í herberginu sínu, heima hjá þeim, og lyktin er ógeðsleg. „Ég á að vera á Konukoti, en eins og ég segi, þau eru svo meðvirk.“
Horfðu á viðtalið hér að neðan.