fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Í dag er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar og dagur íslenskrar tungu

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 16. nóvember 2023 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag er fæðingardagur þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar og dagur íslenskrar tungu.

Á vef stjórnarráðsins segir um dag íslenskar tungu að markmið hans sé að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð.

Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert. Þann dag eru árlega veittar viðurkenningar og verðlaun fyrir störf í þágu íslensks máls og efnt til margvíslegra menningarviðburða víða um land.

Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur síðan árið 1996. Á stjórnarráðsvefnum segir að síðan þá hafi mennta- og menningarmálaráðuneytið að beitt sér árlega fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og að þessi dagur hafi verið helgaður rækt við það. Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur sinnt þessu hlutverki frá árinu 2021. Enn fremur segir að með þessu átaki beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Það var Björn Bjarnason, sem var menntamálaráðherra frá 1995-2002, sem lagði upphaflega fram tillögu í ríkisstjórn um að haldið yrði upp á dag íslenskrar tungu á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Í ávarpi á fyrsta degi íslenskrar tungu 16. nóvember 1996 vitnaði Björn í annað skáld, Tómas Guðmundsson sem sagði um Jónas:

“Hin skamma ævi þessa hugljúfa snillings er bundin svo djúpum rótum tilveru hvers manns, er mælir íslenzka tungu, að naumast verður sá maður, sem ekki kann honum nokkur skil, með öllu talinn góður Íslendingur. Í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar hefur þjóðin fundið þá ættjörð, sem hún ann heitast, og það er veglegra og vandasamara hlutverk að vera Íslendingur fyrir það, að hann hefur ort og lifað.“

Sagði Björn að betri rökstuðning væri ekki að finna fyrir því að tengja dag íslenskrar tungu við Jónas Hallgrímsson.

Nýyrðasmiður, skáld og vísindamaður

Jónas Hallgrímsson fæddist að Hrauni í Öxnadal 16. nóvember 1807 en lést í Kaupmannahöfn 26. maí 1845.

Á vef sem tileinkaður er honum segir um Jónas:

„Jónas var með lærðustu mönnum síns tíma. Hann var með guðfræðipróf, stundaði nám í lögfræði og lauk síðar prófi í náttúruvísindum frá Kaupmannahafnarháskóla. Jónas fór í viðamiklar rannsóknarferðir um Ísland og skrifaði nákvæmar dagbækur og skýrslur um íslenska náttúru. Auk vísindastarfa var Jónas virkur í útgáfu tímaritsins Fjölnis, hann orti fjölmörg kvæði, samdi sögur og þýddi erlend skáldverk á íslenska tungu.“

Jónas Hallgrímsson er þekktastur fyrir ljóð sín sem enn eru víðlesin og oft sungin 182 árum eftir fráfall hans. Guðrún Kvaran, prófessor emerita í íslensku við Háskóla Íslands, segir meðal annars um Jónas á vísindavef Háskóla Íslands:

„Fáir gera sér grein fyrir því hversu góður orðasmiður Jónas var og enn færri minnast þess að Jónas skrifaði fleira en ljóð. Hann var afbragðs þýðandi og skrifaði einnig töluvert um sitt fræðasvið, náttúrufræðina. Virðing hans fyrir tungumálinu, málkennd hans og næmi fyrir blæbrigðum tungunnar gerðu honum kleift að tjá hugsanir sínar og annarra í þannig búning að nýyrði yfir hluti eða hugmyndir, sem áður áttu sér ekki samsvaranir á íslensku, og ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins.“

Jónas smíðaði fjöldamörg nýyrði, ekki síst tengd náttúruvísindum, sem enn lifa góðu lífi í íslenskri tungu.

Á vef menntamálastofnunar er listi yfir nýyrði Jónasar. Þau eru fjölmörg en sem dæmi má nefna eftirfarandi orð:

Aðdráttarafl, baksund, dalalíf, drottnunargirnd, dýralíf, fallhraði, fluggáfaður, haförn, hugsunarleysi lambasteik, meltingarfæri, miðflóttaafl, sálarástand, stuttbuxur, sundkennsla, veðurfræði, þjóðareign og æxlunarfæri.

Eins og áður segir lifa ljóð Jónasar góðu lífi og þykja sum þeirra vera meðal þeirra merkustu sem rituð hafa verið á íslensku.

Meðal þeirra þekktustu af ljóðum hans eru til dæmis: Ég bið að heilsa, Gunnarshólmi, Hulduljóð, Ísland, Íslands minni, Vísur Íslendinga.

Brot úr Hulduljóðum hefur oft verið flutt af hinum ýmsu kórum undir heitinu Smávinir fagrir, við lag Jóns Nordal. Vart er hægt að neita því að ljóðlínurnar eru íðilfagrar:

„Smávinir, fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley! vér mættum margt
muna hvurt öðru’ að segja frá.

Faðir og vinur alls sem er!
annastu þennan græna reit;
blessaðu, faðir! blómin hér,
blessaðu þau í hvurri sveit.
Vesalings sóley! sérðu mig,
sofðu nú vært og byrgðu þig;
hægur er dúr á daggarnótt,
dreymi þig ljósið, sofðu rótt.“

Hér fyrir neðan má sjá og hlýða á flutning Mótettukórs Hallgrímskirkju á Smávinir fagrir, við lag Jóns Nordal, í alþjóðlegri kórakeppni árið 2018.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár

Sjaldséð sjón: Sonur Angelinu Jolie með henni í fyrsta skipti í þrjú ár