Jeff Bezos, stofnandi netverslunarrisans Amazon og einn ríkasti maður heims, og fjölmiðlakonan Lauren Sánchez, sátu fyrir tímaritið Vogue á dögunum og er óhætt að segja að myndatakan hafi ekki fallið í kramið hjá netverjum sem hafa gert óspart grín að þeim.
Vogue birti nokkrar myndir af parinu fyrir desember útgáfu tímaritsins á samfélagsmiðlum.
Á einni myndinni má sjá þau í bíl. Bezos situr í ökumannssætinu með kúrekahatt og Sánchez hálfliggur á honum með hendurnar utan um hann.
Netverjar hafa einnig gagnrýnt parið, sem hefur verið saman síðan snemma árs 2019, en mesta gagnrýnin hefur beinst að tímaritinu fyrir að „glamúrvæða“ milljarðamæringinn.
„Ég vildi óska þess að ég hafi ekki séð þessa mynd,“ sagði einn netverji við færslu Vogue á Instagram.
„Mér hefur aldrei liðið jafn óþægilega við að sjá mynd,“ sagði annar.
„Fáránleg mynd, hrekkjavakan er búin,“ sagði einhver ósáttur við myndatökuna.
„Þetta er stórfurðulegt,“ sagði annar.
Mörgum þótti skrýtið að Vogue, sem er eitt virtasta tískutímarit í heimi, hafi ákveðið að taka viðtal við Sánchez og að mynda þau bæði. Aðrir gagnrýna tímaritið harðlega fyrir að gefa ríka parinu vettvang á meðan stríð geisar í heiminum og fólk sveltur.
„Desember útgáfan er svo smekklaus og sorgleg,“ sagði ein kona.
Þú getur séð fleiri athugasemdir í færslunni hér að neðan. Prófaðu að endurhlaða síðuna ef þú sérð ekki myndbandið.
View this post on Instagram