Inga Auðbjörg Straumland lýsir eftir bíl sínum. Hann sást seinast á þriðjudaginn í síðustu viku fyrir utan heimili hennar og svo ekki söguna meir. Um er að ræða bíl af gerðinni Hyundai i30. Hann er hvítur á lit og ber númerið SPK-35.
Það má kalla það nokkuð kaldhæðnislegt að degi eftir að bílnum var stolið náði Inga endurkjöri í stjórn Samtaka um bíllausan lífsstíl. Ingu segir að þrátt fyrir stjórnarsetuna sé hún ekki meiri bílhatari en svo að hún saknar einkabílsins og vill gjarnan endurheimta hann.
Hún skrifar á Facebook:
„Í síðustu viku var ég endurkjörin í stjórn Samtaka um bíllausan lífsstíl, og gekk svo langt í kosningabaráttunni að bílnum mínum var stolið daginn áður. Það hefur ekkert til hans sést síðan á þriðjudaginn í síðustu viku, hvar ég hafði geymt hann fyrir utan húsið mitt á horni Barónsstígs/Eiríksgötu. Ég er ekki róttækari bílahatari en svo að ég sakna hans svolítið (og alls sem í honum var, svo sem græns barnahjóls með hjálpardekkjum og fjarstýrðs bíls sem var í miklu uppáhaldi á heimilinu) svo ég bið ykkur endilega um að litast um eftir honum.“
Fyrir þau sem þurfa nánari lýsingu á bílnum vekur Inga athygli á því að framan á bílinn vantar „krómaða frontinn á Hyundai-merkið“ og jafnframt tekur hún fram að bílnum hafi vissulega verið stolið, hún hafi ekki hreinlega gleymt því hvar hún lagði.