Helgarviðtal DV er að þessu sinni við Magnús Sigurbjörnsson ljósmyndara sem hefur gengið í gegnum erfið áföll í lífi sínu, CP-hreyfihömlun, sviplegan móðurmissi, alkóhólisma og sjálfsvígstilraun. Í lífi Magga er þó líka að finna gleði og von og ljósmyndunin veitir honum mikla lífsfyllingu, en Maggi hefur skapað sér nafn sem ljósmyndari í íslensku tónlistarsenunni.
Það var árið 2009 sem móðir Magga, Elín Snorradóttir, lést í sviplegu slysi í heimahúsi. Gífurlegt og fullkomlega ófyrirsjáanlegt áfall. Næstu tíu ár hneigðist Maggi mjög til drykkju og var mikið á djamminu, gjarnan á popp- og rokktónleikum í miðborginni, oftast undir miklum áhrifum áfengis.
„Ég komst að því seinna að ég var að drekka í sorg. Í tíu ár drekkti ég sorgum mínum og söknuðinum eftir mömmu í áfengi. Mér fannst ég vera öruggari með mig þegar ég var kominn í glas og mér leið betur,“ segir hann, en svo kom vanlíðanin alltaf tvíefld til baka í þynnkunni.
Allt breyttist þetta með því sem kalla mætti þriðja stóra áfallið í lífi Magga, þegar hann reyndi að svipta sig lífi fyrir fjórum árum, en kallaði þó um leið á hjálp og það varð honum til bjargar. Hætti hann að drekka áfengi upp frá því.
Segja má að ljósmyndunin hafi komið í staðinn fyrir áfengið. Eftir tíu ár á djamminu var Maggi skyndilega byrjaður að mæta edrú á tónleika. Þá þurfti hann að hafa eitthvað fyrir stafni og byrjaði að mynda hljómsveitirnar og stemninguna á tónleikunum. Þetta vatt upp á sig. Núna er hann á kafi í tónlistarljósmyndun en myndar auk þess úti í náttúrunni. „Ég er mjög hrifinn af landslagi. En stundum á ég erfitt með að komast á staðina sem ég vil mynda, út af fötluninni.“
Hann segir að mikill munur sé á því að vera edrú á tónleikum en undir áhrifum áfengis. Edrú sé áreitið í umhverfinu miklu meira, en hann höndli það vegna þess að oft sé hann innan um fólk sem hann þekkir vel.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.