fbpx
Sunnudagur 20.október 2024
Fókus

Segir nikótínpúða vera eitur fyrir svefninn – „Sumir jafnvel sofna með púða upp í sér“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 9. nóvember 2023 19:59

Erla Björnsdóttir er gestur vikunnar í Fókus.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dr. Erla Björnsdóttir hefur um árabil sérhæft sig í rannsóknum á svefni og meðferðum gegn svefnleysi. Hún er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV.

video
play-sharp-fill

Offita, þunglyndi og svefn

Erla er sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum. Hún er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri Svefns og  hefur skrifað nokkrar bækur um svefn, bæði fyrir fullorðna og börn. Það er óhætt að segja að hún hefur lengi brunnið fyrir svefnheilsu og má rekja upphafið til meistaraverkefnis hennar í sálfræði. Hún var að skoða offitu og þunglyndi og hvernig það tengist.

„Þá áttaði ég mig á því að svefn væri mjög stór breyta í þessum tengslum. Þeir sem voru of þungir og voru með þunglyndi, voru líklegri til að þjást af kæfisvefni. Og þá fattaði ég hvað ég vissi lítið um svefn,“ segir hún

„Ég fór að skoða þetta og þetta var svo spennandi. Svefninn er mjög spennandi viðfangsefni fyrir vísindamann, það er svo margt um svefninn sem við vitum ekki. […] Mér fannst svo ótrúlegt að ég væri í raun og veru orðinn útskrifaður sálfræðingur en ég hafði ekki fengið neina fræðslu um svefn, ég vissi ekkert um svefn í rauninni, samt erum við að verja þriðjungi lífsins að sofa. Þetta tengist öllum andlegum veikindum, líkamlegum veikindum líka.“

Hver eru helstu áhrif langvarandi svefnleysis? Hvað er það sem fólk tekur fyrst eftir og hvað kemur fram seinna?

„Við sjáum það strax ef við missum svefn er orkan minni, einbeiting ekki eins góð, hugræn færni, þetta er það sem er fyrst að fara. Skammtímaminnið, við erum viðkvæmari, við þolum streitu verr þegar við erum illa sofin. Við höfum lægri sársaukaþröskuld, þannig ef við erum með einhverja undirliggjandi verki þá aukast þeir,“ segir Erla og heldur áfram:

„Hormónastarfsemin okkar breytist, við förum að leitast í öðruvísi fæðu. Við leitum meira í skyndiorku, sykur, einföld kolvetni og innbyrðum mun fleiri hitaeiningar, því hormónin sem stýra seddu bælast. Þannig að við erum kannski að innbyrða 400 til 500 fleiri hitaeiningar daginn eftir svefnlitla nótt og til lengri tíma sjáum við að allir þessir þættir hafa margvísleg áhrif.  Líkur á ofþyngd aukast verulega. Bólgumyndun verður mikil í líkamanum sem getur aukið líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum. Það er ójafnvægi á sykurbúskap, auknar líkur á sykursýki, háþrýstingi. Svo sjáum við líka andlegu hliðina, kvíði, þunglyndi, sjálfsvígshugsanir. Þetta er allt sem við sjáum hjá þeim sem eru búin að vera að glíma við langvarandi svefnleysi.“

„Eitur fyrir svefninn“

Það er margt sem getur haft áhrif á svefninn og nefnir Erla meðal annars nikótínpúða sem eru mjög vinsælir hér á landi.

„Það er hrikalegt, það er mjög slæmt,“ segir hún þegar talið berst að einstaklingum sem nota nikótínpúða til að sofna.

„Sumir jafnvel sofna með púða upp í sér, sem er mjög slæmt og beinlínis hættulegt. En nikótín er eins og koffín, það er örvandi og það truflar líka svefninn,“ segir hún.

„Fólk segir það að þeim finnst það róast þegar það tekur nikótínpúðana. Ástæðan fyrir því er að þú ert að slökkva á fíkn. Þess vegna finnst þér þú róast, þú ert að deyfa fíknina. En nikótínið sjálft er örvandi og er að trufla svefngæðin þín, það er að trufla djúpsvefninn þinn og það er alls ekki gott að sofna með þetta upp í sér og helst ekki nota þetta stuttu fyrir svefn, og helst auðvitað ekki yfir höfuð […] Þetta eykur líkurnar á að þú vaknir og þegar þú vaknar upp þá kemur fíknin og þú vilt meira. Þetta er mikið eitur fyrir svefninn.“

Töfralyf sem fólk vill en nennir ekki

Mörgum gæti þótt erfitt að heyra þetta með nikótínpúðana, enda stór hluti landsmanna neytir þeirra. Mörg þessara ráða fyrir betri svefn, eins og að borða ekki sykur fyrir svefninn, hætta að drekka kaffi um hádegisbil og sleppa nikótíni upp í rúmi, eru kannski einföld en fólk á það til að fylgja þeim ekki þar sem þau eru ekki „skemmtileg.“

„Ég segi það oft með svefninn, það er engin töfralausn, það er ekkert quick fix. Okkur langar oft í quick fix, við Íslendingar notum mest af svefnlyfjum í heiminum miðað við höfðatölu því við viljum fá eitthvað sem virkar strax og við þurfum ekki að hafa mikið fyrir. En ef við viljum laga svefninn okkar þá verðum við að horfa á lífsstílinn okkar og það er svo margt þar sem að við getum, með smá breytingum þar, náð ótrúlega góðum árangri. Það er svo mikilvægt að minna sig á það að ávinningurinn er svo ótrúlega mikill.

Ef svefninn væri lyf, eins og Matthew Walker talar um í bókinni sinni. Ef þú gætir tekið inn lyf sem að myndi verja þig gegn sjúkdómum, lengja líf þitt, gera þig hamingjusamari, gera þig fallegri, auka framleiðni þína og svona getur maður haldið áfram að telja. Værir þú ekki til í að taka þetta lyf? Flestir myndu svara því játandi. En við höfum öll aðgengi að þessu í gegnum svefninn okkar. Því svefninn er þetta töfralyf, ef við pössum upp á hann. Ávinningurinn af því að sofa vel er svo ótrúlega mikill, þannig það er á sig leggjandi að gera breytingar á lífsstíl, venjum, rútínu og fleiru til að fá betri svefn.“

Erla ræðir nánar um svefnheilsu, svefnlyfjanotkun Íslendinga, melatónín, skjánotkun, hvort hægt sé að vinna upp svefn og hvort fólk ætti að „snúsa“ eða ekki í þættinum sem má horfa á í spilaranum hér að ofan.

Skoðaðu vefsíðu Betri Svefns hér. Þú getur einnig fylgst með þeim á Facebook.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Þess vegna flaug kærasta Liam Payne heim nokkrum dögum áður en hann dó

Þess vegna flaug kærasta Liam Payne heim nokkrum dögum áður en hann dó
Fókus
Fyrir 3 dögum

Varpa ljósi á neyðarlínusímtal áður en Liam Payne hrapaði til bana

Varpa ljósi á neyðarlínusímtal áður en Liam Payne hrapaði til bana
Fókus
Fyrir 3 dögum
Liam Payne látinn
Hide picture