fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

„Mér fannst ég vera að gera eitthvað rangt, enda bara níu mánuðir síðan Baldvin lést“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 7. nóvember 2023 20:30

Sigurvin og Kristín Mynd: Úr einkasafni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástríða Kristínar Snorradóttur, markþjálfa með meiru, felst í að hjálpa fólki. Hún segist nokkrum sinnum hafa reynt að breyta um starfsvettvang, en alltaf fundið að ástríðan brennur fyrir að byggja upp fólk sem orðið hefur fyrir áföllum í lífi sínu. Sjálf hefur Kristín fengið sinn skerf af áföllum eða verkefni eins og hún kallar þau sjálf. Hún missti eiginmann sinn haustið 2021, en hann glímdi við krabbamein í 26 ár. Kristín barðist síðan gegn ástinni sem hún fann níu mánuðum seinna, en eftir að hafa leyft sér að elska og vera elskuð, bankaði næsta verkefni upp á, unnustinn er með ristilkrabbamein á fjórða stigi. 

Hvenær má elska að nýju?

 „Ég varð eins og 15 ára stelpa. Þegar maður er búinn að vera 30 ár í sambandi og makinn deyr og svo verður maður skotinn, þá líður manni eins og maður sé að halda framhjá og ég fór öll í flækju, mér fannst ég vera að gera eitthvað rangt, enda bara níu mánuðir síðan Baldvin lést,“ segir Kristín, sem langaði að láta gamlan draum rætast og fara rúnt á mótorhjóli. Vinkona hennar fékk vin sinn til að fara með Kristínu rúnt og til að gera langa sögu stutta fóru þau síðan saman í hjólatúrinn mánudeginum á eftir og smullu svona vel saman.

Þetta er brot úr helgarviðtali DV við Kristínu, lestu viðtalið í heild sinni hér: Kristín missti eiginmanninn eftir 26 ára krabbameinsbaráttu – Unnustinn nú með 4. stigs mein – „Lífið er þessi skóli með plúsum og mínusum“

Á meðan að hún var að reyna að afneita tilfinningum sínum var mótorhjólamaðurinn með ömurlegu prófílmyndina, sem heitir Sigurvin Samúelsson á fæðingarvottorðinu, í þjóðskrá og á öðrum skráningarstöðum orðinn yfir sig ástfanginn af Kristínu. „Og ég að halda öllum tilfinningum frá, ég ætlaði ekki að verða kærasta, heldur mesta lagi vinkona með fríðindum. Ég var bara öll í flækju og ég held að þessi hugsun sé mjög algeng hjá ekkjum og ekklum.“

Kristín segir togstreituna yfir nýrri ást bæði hafa verið innra með henni og út á við, hvenær er það félagslega samþykkt að fara í nýtt samband eftir að hafa missa maka. Hún hafi einnig verið að hugsa um börnin sín þrjú og barnabarn sitt og hvernig þau myndu taka nýju sambandi. Ræddi hún meðal annars við prest og systur sína, og segist hún hafa mætt góðum skilningi hjá þeim sem hún ræddi við og henni bent á að ekkert sorgarferli sé eins.

„Mitt sorgarferli hófst löngu áður en Baldvin dó af því hann var svo langt leiddur svo lengi. Það hjálpaði mér í ferlinu, ég vissi fjórum árum áður en hann lést að ég myndi lifa hann. Ég vissi líka að ég var búin að heiðra minningu hans með að gefa ljóðabókina hans út eftir andlát hans. En þetta voru samt innri átök. Ég var svo lánsöm að kynnast stórum miklum mótorhjólamanni sem lítur ekki út fyrir að vera kærleiksbjörn meira eins og síkópati og hann mætir mér svo vel. Hann sagði mjög heiðarlega að hann bæri virðingu fyrir mér og minni stöðu, hann hefði aldrei verið með ekkju áður og kynni það ekki. Hann vandaði sig mjög mikið og gerir enn,“ segir Kristín sem reyndi að fóta sig í þessum aðstæðum. Hún ákvað að fara ekki með Sigurvin á opinbera viðburði til að opinbera ekki samband þeirra, sem var þó enn ekki orðið samband.

„Það var gaman og mér leið vel, algjörlega í núinu, lífið að segja já og ég tók á móti því. Nema það að ég var alltaf í þessari innri togstreitu, en svo er ég eins og ég er og hef alltaf verið, ég er ekki eins og fólk er flest það er alltaf þessi litla villikerling og eina nóttina dreymdi mig Baldvin. Hann kom til mín, tók utan um mig, brosti breitt og rétti mér stóran gullpening með tölunni 1918 og sagði mér að njóta lífsins. Talan stendur fyrir mótorhjólaklúbbinn sem þessi maður er í sem ég var orðin ástfangin af. Ég vaknaði frá þessum draumi fullviss í hjarta mínu að allt sé eins og það á að vera, ég er ekki að halda framhjá og ég má taka á móti ástinni. Ég segi Sigurvin frá draumnum og samþykki að vera kærastan hans, segi börnunum mínum frá og fékk mismunandi viðbrögð, en ekki slæm, þau þurftu bara sinn tíma til að meðtaka þetta,“ segir Kristín.

Parið fór síðan saman á fjölskylduviðburð klúbbsins sem Sigurvin er í þar sem Kristín hitti félaga hans og fjölskyldur. „Þar eignaðist ég enn einn fjölskylduvæng því mótorhjólaklúbburinn er mjög þéttur og mikið bræðralag í hjólaheiminum.

Lífið er stutt, ef Baldvin og gangan með honum kenndi mér eitthvað þá er það að lífið er ekki sjálfgefið, við eigum að þakka fyrir hvern dag og leyfa okkur að njóta, treysta lífinu og vera. Þarna uppgötvaði ég ástina að nýju, leyfi mér að elska og vera elskuð sem hefur verið magnað ferli fyrir okkur bæði. Til að lýsa þessum manni með þessa prófílmynd, sem hann hefur sem betur fer skipt um, hann er dásamleg persóna, stígur varlega til jarðar gagnvart börnunum mínum og leyfir þeim að koma á sínum tíma, og er alltaf að taka tillit til mín.“

Sigurvin á einnig börn frá fyrra sambandi og segir Kristín dýrmætt hvernig náðst hafi  að lenda vel saman, hann með hennar börnum og barnabarni og hún með tveimur dætrum hans og barnabörnum. „Hann spurði börnin mín hvort hann mætti setja mynd af pabba þeirra á lögreglumótorhjóli inn í skáp með safni sem hann á af litlum mótorhjólum, til að heiðra minningu Baldvins. Þau samþykktu það öll. Hann Sigurvin minn ber svo mikla virðingu fyrir að við börnin eigum þetta líf áður og hann er ofboðslega góður við okkur öll,“ segir Kristín.

„Ég er að upplifa ástarævintýri sem miðaldra kona og það hefur verið ákaflega skemmtilegt og ég held bara að það sé mjög mikilvægt að ekkjur og ekklar viti það að það er allt í lagi að verða ástfangin aftur, þú ert ekki að gera neitt rangt, það er í lagi að fanga bara lífið. Minningarnar eru alltaf til en þú þarft að halda áfram að skapa nýjar. Ég er sannfærð um að hann Baldvin minn hefði ekki viljað að ég klæddi mig í svartan búning og hætti að lifa. Lífið heldur áfram.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Í gær

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa