fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Lífsköllun að vera maðurinn sem segir frá – „Þarna bý ég í rústum heimsveldis, og er á sama tíma að kynnast nýrri sýn“

Fókus
Mánudaginn 6. nóvember 2023 22:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Jón Hafstein, rithöfundur og fjölmiðlamaður, lítur á það sem sitt hlutskipti í lífinu að vera maðurinn sem segir frá. Hann starfaði á árum áður bæði í útvarpi og sjónvarpi hérlendis og tók svo virkan þátt í borgarpólitík á fyrsta áratug nýrrar aldar.

Hann skipti svo um gír og sneri sér að þróunarsamvinnu og hefur komið víða að í störfum sínum. Meðal annars í Róm sem hefur haft djúpstæð áhrif á heimsmynd hans.

Stefán er nýjasti gesturinn í Kalda Pottinum og þar ræðir hann við Mumma Tý Þórarinsson um lífshlaup sitt og aðdragandann að nýjustu bók sinni: Heimurinn eins og hann er.

Kokhraustir og sjálfumglaðir Íslendingar

Stefán rekur ævintýralegt lífshlaup. Hann starfaði í fjölmiðlum með mikið af stærstu nöfnum fyrri tíma, svo sem sjálfum Jón Múla. Síðan náði hann að búa í New York í listamannalofti áður en slíkt var aðeins á færi auðmanna. Það sem situr þó mest í honum er vera hans í Róm. Fyrrum vagga menningarinnar. Stærsta heimsveldið og ótrúlegur kafli í mannkynssögunni.  Þar áttaði hann sig á þeirri hættu sem mannkynið er komið í og hversu alvarleg staðan er orðin.

Íslendingar séu svosem ekki ókunnugir hættulegu ástandi. Án þess að endilega átta sig á því búi Íslendingar við hættu. Möguleikinn á eldsumbrotum hangi sífellt yfir okkur og ekki má treysta því að öll gos séu krúttleg ferðamannagos.

„Það er þessi kokhreysti. Hef oft velt þessu fyrir mér. Við erum svo einangruð í okkar sjálfumgleði og lífsnautnum, því við höfum það svo fjandi gott. Í grunninn er þetta mjög ríkt samfélag. Við gætum þó skipt betur, miklu betur. En þetta hér er hættulegt land.“

Þetta geti Íslendingar séð út um allt á ferð sinni um landið okkar. Hvert sem litið er séu merki um óvægi náttúruaflanna.

Næsta heimsveldi að hruni komið

Það var þó ekki á Íslandi heldur í Róm sem raunverulega staðan á alþjóðavísu fór virkilega að sækja á Stefán. Þangað var hann kominn með ákveðna þekkingu sem hann hafði sankað að sér. En þegar hann fór virkilega að skoða það sem hann taldi sig vita sá hann að heimsmynd hans stóðst ekki skoðun. Staðan var önnur og verri en hann reiknaði með, og var hann þó svartsýnn fyrir.

„Það má segja að það sé minn lífsferill og lífsköllun að vera maðurinn sem segir frá,“ segir Stefán. Eftir að góður vinur hans og förunautur í gegnum lífið veiktist að krabbameini fann Stefán þörfin að upplýsa aðra um stöðuna. Til þess að gera slíkt gæti hann ekki hent í stífa og fræðilega umfjöllun heldur varð hann að gera það í gegnum frásögn. Úr varð bókin hans þar sem hann rekur hvernig augu hans opnuðust. Inn í þetta blandast samræður við vininn og svo rústir rómverska heimsveldisins.

„Það er svolítið magnað en Rómarveldi er eitt mesta heimsveldi sem maðurinn hefur reist. Þau hafa verið nokkur, Babýlon, Mesópótamía og Inkarnir og allt það. En Rómarveldi er líklega mesta mannvirki sögunnar. Og það hrundi. Þarna bý ég í rústum heimsveldis, og er á sama tíma að kynnast nýrri sýn.“

Stefán rekur að það séu ekki bara loftlagsmál sem áhyggjur þarf að hafa af. Heilu vistkerfin eru farin að hrynja og svo sé matvælakerfið meingallað, óumhverfisvænt og óheilsusamleg.

Stefán segir að hver og einn Íslendingur sói um 160 kílóum af mat á hverju ári. Þetta sé galin staðreynd og jafngildi því að þriðji hver matarbiti sem framleiddur er fari í raun til spillis.

Vatni sé þar að auki sóað og í raun sé lítið talað um þá alvarlegu og svörtu stöðu sem komin er upp varðandi stöðu drykkjarvatns á jörðinni.

Endurreisn eftir myrkar miðaldir

Þegar allt þetta er svo tekið saman þá sé ljóst að hér er á ferðinni vandamálahnykill. Allt hangi saman og verði ekki leyst nema allar hliðar séu tæklaðar samtímis.

Þá sé áhugavert að líta aftur til Rómarveldis. Þar hafi í raun nútíma pólitík orðið til. Þar hafi hinn fyrsti samfélagssáttmáli verið gerður og grunnur lagður að lýðveldi eins og við þekkjum það í dag.

Þessu reynir Stefán að koma til skila í bók sinni. Eftir fall Rómarveldis hafi hinar myrku miðaldir tekið við þar sem hörmung fylgdi hörmung í mannkynssögunni. Fólk glímdi við plágur, hungur og stríð. Vonleysið algjört. Það sem fólk vissi ekki þá var að endurreisnin var framundan.

Nú sé staðan í heiminum slæm en engu að síður hafi auður aldrei verið meiri og tækniframfarir og mikilvæg skref á sviði mannréttinda geri þó að verkum að við séum ekki beint komin á myrkar síðaldir. Mörgum finnist óþægilegt að horfast í augu við vandann í heiminum þar sem hann er stór, margþættur og mikill. Stefán reynir því í bók sinni að brjóta þetta niður í meltanlegri bita.

Svo má ekki gleyma voninni. Unga fólkið í dag sé meðvitað og hafi viljann til að breyta heiminum. Með nýjum samfélagssáttmála, eða alheimssáttmála geti heimurinn tekið höndum saman og tryggt það að mannkynið taki næsta framfaraskref inn í nýja endurreisn, fremur en að steypa sér í vonleysi miðalda að nýju. Vonin sé til staðar. Endurreisnin átti sér ekki stað út frá verkum eins manns, en margar hendur vinna létt verk.

Hlusta má á viðtalið við Stefán og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.

Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar