Texti og myndir: Svava Jónsdóttir
Þegar gönguferð í nágrenni Sarajevo var auglýst fyrr á árinu þá þurfti ekki langan tíma að ákveða sig að fara í ferðina. Ferðaáhuginn til staðar og eitthvað ævintýralegt við Sarajevo, höfuðborg Bosníu.
Dagar liðu. Vikur. Mánuðir. Og í september var komið að því að setja í ferðatösku og auðvitað fóru nýju skrautlegu Scarpa-gönguskórnir í töskuna og göngustafirnir.
Það var að kvöldi til sem staðið var við innritunarborð í Leifsstöð.
„All the way to Sarajevo,“ sagði starfsmaður þar og setti spjald á töskuna en það átti eftir að millilenda í Vín þar sem þurfti svo að bíða í um sex klukkutíma eftir næturflugið. Og þar kom íslenski hópurinn sér fyrir á veitingastað á flugvellinum. Sumir fengu sér blund sitjandi. Svo var hægt að kaupa Mozart-súkkulaðikúlur á vellinum og bjóða.
Það var svo upp úr hádegi sem farið var upp í hvíta og rauða vél á vegum Austrian Airlines þar sem flugfreyjur, sem voru rauðklæddar frá toppi til táar, buðu upp á súkkulaði í rauðum umbúðum. Og í um klukkutíma var flogið í átt að ævintýraborginni. Þegar lent var blasti svo við það sem fram undan var. Út um glugga flugstöðvarbyggingarinnar blöstu við fjöllin sem skörtuðu sínu fegursta þennan sólríka haustdag og var hitinn í kringum 20 gráður. Eða meira.
Rúta flutti svo syfjaða Íslendingana að hóteli í miðbænum, Hotel Central Sarajevo.
Um kvöldið var svo rölt á frægan veitingastað í borginni, Inat Kuća, sem stendur við ána Miljacka sem rennur í gegnum borgina eins og tíminn sjálfur. Það var eins og að stíga langt aftur í tímann að koma þar inn: Stíllinn innanhúss kannski svolítið eins og híbýli í 1001 nótt og maturinn; já, maturinn – eins og maður sæti fyrir 123 árum síðan að borða bosnískan mat.
Húsið þar sem veitingastaðurinn er staðsettur er frægt en það stóð einu sinni hinum megin við ána og átti að rífa það en húseigandinn var ekki sáttur við það og eftir mikið japl, jamm og fuður fékk hann sínu framgengt og var húsið flutt – steinn eftir stein – hinum megin við ána og byggt aftur og þar var svo veitingastaðurinn opnaður árið 1997 og býður upp á dæmigerðan bosnískan mat. Og þetta fyrsta kvöld sat hópur Íslendinga að snæðingi með dæmigerða bosníska tónlist úr hátölurum undir borðhaldi sem jók enn á þennan fortíðarfíling.
Tveir fararstjórar leiddu hópinn þessa viku. Íslenski fararstjórinn Einar Skúlason og heimamaðurinn Fikret Kahrovic.
Trebević-fjallið
Það var svo að morgni fyrsta göngudagsins sem hópurinn lagði gangandi af stað í sumarhita og sólskini í átt að kláfnum sem flytur fólk upp á Trebević-fjallið; þetta er ekki löng ganga frá hótelinu og á leiðinni var auðvitað komið við í lítilli verslun og nesti keypt fyrir daginn. Og upp fórum við og á leiðinni í kláfnum blasti við stórkostlegt útsýni yfir Sarajevo og fjöllin í kring. Og auðvitað er kaffihús / veitingastaður í byggingunni þar sem við stigum út úr kláfnum þar sem sama stórkostlega útsýnis er hægt að njóta inni eða úti.
Þvílík fegurð!
Já, þvílík fegurð! Íslenski hópurinn upplifði kyrrð og frið þarna uppi en svo hefur það ekki alltaf verið en kláfur á sama stað var eyðilagður í Bosníustríðinu en síðan endurbyggður og tekinn í notkun árið 2018.
Það var ekkert stoppað í þessari byggingu til að fá sér kaffi eða köku heldur var um fimm klukkutíma ganga fram undan og hækkun um 700 metrar. Gengið var upp skógivaxna hlíð og fylgdi okkur hluta leiðarinnar stór og ritjulegur hundur sem var eins og lukkudýrið okkar en hann hætti þessari göngu þegar hann kom að föllnu tré sem lá yfir göngustíginn á fjallinu. Það heyrðist ekkert í honum allan tímann sem hann fylgdi okkur. Ekki eitt gelt!
Hundslaus héldum við þaðan áfram. Upp. Upp. Upp.
Og þegar á toppinn var komið blasti við himnesk fegurð: Auðvitað sjálfur himinninn og svo Sarajevo og fjöllin í kring. Þetta minnti svolítið á Sviss. Ævintýralegt að líta í norður, suður, austur og vestur.
Vert er að minna á fjögurra stjörnu hótelið Pino Nature Hotel sem gengið er fram hjá við upphaf – og lok – ferðarinnar upp á Trebević-fjallið en þar er til dæmis hægt að sitja inni eða úti og njóta náttúrunnar allt í kring en það tekur um korter að aka þangað frá gamla bænum í Sarajevo.
Svona voru næstu dagar. Alls sex göngudagar upp á fjöll og fell þar sem stórkostleg fegurð blasti við. Á meðal fjalla sem hópnum var boðið upp á að fara á má nefna Visočica og tindinn Kom.
Í einni göngunni var byrjað á að skoða bauta- og minningarsteina frá miðöldum og síðan var haldið áfram. Skref fyrir skref og upp hæð og þar var stoppað við Rakitnica-gljúfrið þar sem risastór rammi býður upp á að fólk stilli sér upp með gljúfrið í baksýn; tilvalið að stækka myndina og setja í ramma ef vel tekst til. Í lok þeirrar göngu var endað í fjallaþorpinu Umoljani þar sem einungis um 40 manns eru skráðir íbúar. Par stóð fyrir framan lítið hús og seldi heimagert saft og ullarsokka og neðar á svæðinu settist hópurinn inn á veitingastað og fengu margir sér það sem íbúar sérhæfa sig í: Pæjum; burek. Í þeim var spínat, ostur, kartöflur eða kjöt.
Og þjóðarblómið, bosníska liljan, hefur án efa orðið einhvers staðar á vegi Íslendinganna.
„Bosníufjöllin eru falleg eins og flest fjöll á Balkanskaga,“ segir Fikret og talar um gróðurinn og ríkulegt dýralífið. Aðstæður eru kjörnar fyrir hvers kyns útivist og nefnir hann að þarna eru ekki of margir þannig að göngufólk getur notið kyrrðarinnar ef það vill. Og hver og einn á að geta fundið göngu við hæfi hvort sem um er að ræða gönguferðir í grænum fjallshlíðum eða erfiðari klifur jafnvel að vetri til.
Gamli bærinn
Jú, hótelið er miðsvæðis og þar má finna fleiri ágæt hótel. Það tók örfáar mínútur að ganga að torgi þar sem Dómkirkja hins heilaga hjarta – eða einfaldlega kaþólska dómkirkjan í Sarajevo – gnæfir yfir og er hún stærsta dómkirkja í Bosníu og er jafnframt oft litið á hana sem tákn borgarinnar. Þar inni passaði nunna upp á að enginn tæki myndir.
Við torgið stendur meðal annars veitingastaðurinn Metropolis sem er nútímalegur og flottur og er á góðviðrisdögum hægt að sitja úti og skreyta hvítir standlampar svæðið. Þar í kring er hægt að versla og má nefna Hugo Boss-verslun í göngugötunni frá hótelinu að torginu þar sem kirkjan stendur. Og svo tekur það ekki langan tíma að aka eða fara með sporvagni í nútímalegar verslunarmiðstöðvar; Michael Kors, Karl Lagerfeld…
Aftur í gamla bæinn rétt við dómkirkjuna sem er án efa eitt mest spennandi svæðið í borginni. Þetta var eins og að vera í ævintýri. Kirkjur og moskur hér og þar enda er jú sagt að vestrið mæti þarna austrinu.
Þarna í hjarta gamla bæjarins er meðal annars Gazi Husrev Beg-moskan sem þykir vera stórkostlegasta moska Ottoman-tímabilsins og eitt besta dæmið um íslamskan arkitektúr í Bosníu og Herzegóvínu. Þar sátu karlar á rauðu teppi fyrir utan og báðu. Farið var inn í aðra mosku og þurftu konur að vera með slæður. Okkur var sagt að halda okkur aftarlega sem við gerðum. Grindverk stúkaði af lítið svæði aftast og þar sátu múslímskar konur. Bænastund stóð yfir og fremst stóð hópur karla og hreyfði sig í takt. Báðu. Það var ró yfir öllu.
Fjöldi lítilla verslana í gamla bænum býður upp á sannkölluð listaverk meðal annars úr kopar og auðvitað var eitthvað keypt. Eldri karlar stóðu þar gjarnan eða sátu og voru jafnvel að vinna við slík listaverk.
Sorgin og hörmungarnar fylgja borginni ævintýralegu en þau eru mörg sárin í hjörtum íbúa í tengslum við Bosníustríðið. Hægt er að kynnast þeim hörmungum á sýningum og svo eru í borginni um 200 „rósir“ en það eru minnismerki á gangstéttum þar sem rautt efni minnir á rós en á þeim stöðum voru að minnsta kosti þrír drepnir.
Fortíð og nútíð
Fikret hefur í áratugi leitt hópa frá hinum ýmsu löndum. Af hverju ættu að mati heimamanns Íslendingar að heimsækja Sarajevo og Bosníu almennt? Það er augljóst eftir að hafa heimsótt þessa mögnuðu borg en orð heimamannsins skipta líka máli.
„Það er enginn vafi á því að Sarajevo er ein af sögulega mikilvægustu borgum Evrópu og jafnvel heimsins,“ segir hann, „og það er ástæða fyrir því. Í gegnum tíðina hefur borgin, og öll Bosnía, verið á landamærum austurs og vesturs og þess vegna er þar að finna marga menningarheima, trúarbrögð, ríkisskipulag og byggingarlist. Það er ástæðan fyrir því að saga okkar er enn lifandi. Í Sarajevo er hægt að sjá ummerki frá forsögunni; frá tímum Illýra, rómverskum tímum til forna, tímum Bosníuríkis, tímabilum tyrkneskrar menningar, frá austurrísk-ungverska tímanum, tíma kommúnisma og svo tímabili vetrarólympíuleikanna,“ segir Fikret en þeir voru haldnir þar árið 1984.
Jú, það virðist einhver dulúð vera yfir Sarajevo þar sem kirkjur og moskur eru áberandi. Fikret bendir á að kaþólsk trú hafi komið til Bosníu í byrjun 13. aldar, Ottomanar komu með íslam á 15. öld og sefardískir gyðingar voru reknir frá Spáni á 16. öld og fengu að búa í Sarajevo og byggðu sitt eigið musteri. Seinna kom annar hópur gyðinga, Ashkenazi-gyðingar, frá Austurríki-Ungverjalandi og byggði sínagógu. „Það eru tvær evangelískar kirkjur í Sarajevo og þetta er eina borgin í Evrópu þar sem er að finna rétttrúnaðarkirkju, kaþólska dómkirkju, evangelíska kirkju, margar moskur sem voru byggðar frá 15. til 18. aldar og samkunduhús gyðinga. Og ofan á þetta nokkur samtök trúleysingja og leifar kommúnisma.“
Og auðvitað er Fikret spurður út í gamla bæinn í Sarajevo sem gerir það að verkum að maður hugsar um 1001 nótt.
„Lífsstíll fortíðar og nútíðar mætist í hjarta gamla bæjarins, Bascarsija. „Baš“ á tyrknesku þýðir „aðal“ og „Čarsija“ er persneskt orð sem þýðir „viðskiptamiðstöð“. Ottomanar stofnuðu eina af stærstu verslunar- og handverksmiðstöðvum á Balkanskaga og nefndu hana Baš Caršija. Bascarsija hefur verið byggt að fyrirmynd arabísks „suk“ en þar eru markaðstorg og þröngar götur inn á milli. Verslanirnar voru ekki frábrugðnar hver annarri; timburbyggingar með einu herbergi.“
Og inn í þessar byggingar gat maður ekki annað en farið og verslað svolítið.
Hvernig myndi Fikret lýsa borginni sinni? „Fjölmenningarleg og fallegust.“
Fikret nefnir líka hetjudáðina og djörfungina sem er samofin sögu borgarinnar og talar um Bosníustríðið 1992 – 1995; þess má geta að Frans Ferdínand, ríkisarfi Austurríkis-Ungverjalands, var myrtur í borginni árið 1914 og er morðið talið marka upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar fyrri.
„Sarajevo varð fræg í tengslum við umsátrið um höfuðborg Bosníu. „Umsátrið stóð yfir í 1.425 daga og það var þrisvar sinnum lengra heldur en orrustan við Stalíngrad (fólk var án vatns, rafmagns, gass og matar. ..). Þetta var hryðjuverk gagnvart íbúm borgarinnar sem höfðu engin viðeigandi vopn til að verjast vegna viðskiptabanns. Í umsátrinu létu meira en 11.500 almennir borgarar lífið (1.601 voru börn) en meira en 50.000 særðust. Þrátt fyrir kraftmikla öfl (upphaflega var um að ræða umsátur sveita júgóslavneska hersins) tókst borgurum að bjarga borginni sinni og fjölmenningunni þar.“ Þess má geta að síðasta myndin er af minnismerki um umsátur um borgina.
Á þessum tíma hetjudáðar og djörfungar kallaði blaðamaður nokkur Sarajevo „miðju alheimsins“. „Margir heimspekingar, listamenn, blaðamenn og tónlistarmenn heimsóttu borgina á meðan á umsátrinu stóð svo sem Bruce Dickinson með Skunkworks (Iron Maiden), Sussan Sontag og Cristiane Amanpour.“
Sarajevo er borg sögunnar. Borg gleði og sorgar. Borg minninganna.