Ólína Jóhanna Gísladóttir, Olla, og Jóhannes Ásbjörnsson, Jói, hafa fest kaup á glæsilegu einbýlishúsi við Aflakór í Kópavogi. Húsið, sem er 396 fermetrar að stærð, keyptu þau um miðjan október.
Hjónin, sem hafa látið til sín taka í veitingarekstri svo um munar, una sér greinilega vel í hverfinu því hús þeirra við Drangakór var nýlega auglýst til sölu á 209 milljónir króna. Það hús er 239 fermetrar að stærð og því eru hjónin að stækka við sig um rúma 150 fermetra. Það verður því nóg pláss fyrir fimm manna fjölskylduna.
Ásett verð á húsinu við Aflakór var 269 milljónir króna en endanlegt kaupverð liggur ekki fyrir. Húsið er afar glæsilegt og hlaut meðal annars Hönnunarverðlaun Kópavogs árið 2014.
Byggingaár hússins var 2008 en í sölulýsingu eignarinnar kemur fram að það hafi verið endurnýjað gríðarlega árið 2020.