Tónlistarmaðurinn Júlí Heiðar Halldórsson þekkir það betur en flestir hvernig það er að gera eitthvað í æsku sem fylgir manni í mörg ár. Þegar hann var átján ára gaf hann út lagið Blautt dansgólf, hann hvorki samdi lagið né textann en flutti lagið þar sem nafn hans hljómaði í hverju viðlagi.
Textinn var virkilega ögrandi og var lagið tekið úr dreifingu innan við sólarhring síðar. Í mörg ár fylgdi lagið honum. Lögreglan og barnaverndarnefnd mættu á tónleika hjá honum, hann var látinn skrifa undir samninga til að tryggja að hann myndi ekki flytja lagið og þrátt fyrir nýja tónlist og velgengni með önnur verkefni þá varpaði Blautt dansgólf-fíaskóið skugga á allt annað.
Júlí Heiðar ræddi um ævintýrið og uppgjörið í Fókus, spjallþætti DV.
Sjá einnig: Fannst hann þurfa að gera upp fortíðina fyrir framtíðina – „Þetta var farið að elta mig hvert sem ég fór“
Aðspurður hvort hann sé með ráð til ungra drengja segir Júlí:
„Já, þetta náttúrulega fer ekkert. Þetta er bara þarna. Svo eignastu kannski barn, eða börn. Kannski ertu kominn með þrjú börn, hund og kött, svo fer barnið þitt inn á YouTube eða sér þessa hluti á samfélagsmiðlum. Mig langaði ekkert að sonur minn myndi enda á að horfa á YouTube með vini sínum tólf ára gamall og eitthvað: „Oj, hvað er að pabba þínum? Hvað var hann að gera?““ segir hann.
„Tímarnir hafa breyst, það er allt annað í dag. Samfélagið okkar er búið að taka mjög stórt skref fram á við í svo mörgu. Jákvæðar breytingar. Ég held að ungir krakkar séu meira meðvitaðir um þessa hluti. Ég held það, ég vona það allavega. Þegar ég var að gera þetta sautján ára, 2008-2009, þá sá ég ekki fyrir mér að ég myndi vera í viðtali árið 2023 að tala um þetta.“
Hann segir nánar frá þessu í spilaranum hér að ofan. Þú getur horft á þáttinn í heild sinni hér eða hlustað á hann á Spotify.