Bandaríski leikarinn Matthew Perry er látinn, 54 ára að aldri. TMZ greindi frá þessu skömmu eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags.
Perry er best þekktur fyrir leik sinn í gamanþáttunum Friends, en um er að ræða eina vinsælustu gamanþætti allra tíma. Í þáttunum fór hann með hlutverk Chandler Bing og kom hann fram í öllum 234 þáttunum sem sýndir voru.
Samkvæmt heimildum TMZ fannst leikarinn látinn í heitum potti á heimili sínu í Los Angeles í dag. Grunur leikur á að hann hafi fengið hjartaáfall, en það hefur ekki fengist staðfest.
Perry opnaði sig um erfiðleika sína í æviminningum sem komu út í fyrra. Hann glímdi lengi vel við fíknivanda og fyrir örfáum árum var honum vart hugað líf eftir að ristill hans rofnaði eftir ofneyslu á ópíóðum. Honum varð tíðrætt um neysluna í viðtölum í tilefni bókarinnar og er óhætt að segja að neyslan hafi litað hans feril töluvert.
Heimildir TMZ herma þó að engin lyf hafi fundist á vettvangi þegar Perry fannst látinn og þá leiki enginn grunur um saknæmt athæfi.
Matthew var ókvæntur og barnlaus en á sínum tíma var hann meðal annars í sambandi með leikkonunni Yasmine Bleeth, Juliu Roberts og Lizzy Caplan. Þá var hann trúlofaður Molly Hurwitz um tíma en þau hættu saman sumarið 2021.