fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

„Lífið allt er rannsóknarvinna“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 28. október 2023 09:00

Skúli Sigurðsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókin Stóri bróðir kom með látum inn á íslenskan bókamarkað í fyrra og sló rækilega í gegn meðal lesenda og gagnrýnenda. Höfundurinn Skúli Sigurðsson er þó hógvær yfir allri velgengninni og athyglinni sem fyrsta bók hans fékk. 

„Mér að óvörum þá var bókin tilnefnd til Blóðdropans og vann þau verðlaun og ég er ekki alveg búinn að meðtaka það ennþá. Ég er rétt að ná að lenda eftir þá upplifun og að hún er einnig tilnefnd til Glerlykilsins, samnorrænu glæpasagnaverðlaunanna árið 2024.“

Þeir sem kynnt hafa sér Stóra bróður hafa séð að á innkápu bókarinnar segir: „Næsta bók Skúla kemur út haustið 2023“ og sú setning verður að veruleika á næstunni þegar Maðurinn frá São Paulo kemur út.

„Það er skemmtilegt að segja frá því að Ásmundur í Drápu vissi að ég var með kominn langt með aðra bók þegar hann tók að sér útgáfu Stóra bróður og án þess að spyrja mig setti hann þessa setningu á kápuna. Þetta var skemmtilegt sjokk fyrir mig þegar ég opnaði bókina og las þetta. Í ár spurði hann mig hvort hann mætti gera þetta aftur og ég svaraði játandi. Ég ætla að gefa út eina bók á ári þar til ég klára góðu hugmyndirnar, ég veit allavega hvernig þriðja og fjórða bókin eiga að vera, mögulega sú fimmta. Svo eru fleiri hugmyndir sem koma til greina. Þannig að hugmyndaskortur er ekki vandamálið enn sem komið er, en gerist kannski seinna á ferlinum.“

Fann ekki fyrir mikilli pressu vegna velgengninnar

Það er viðbúið að pressa sé á að fylgja verðlaunabók eftir og hvað þá þegar um er að ræða nýjan alveg óþekktan rithöfund. Skúli samsinnir því, en segist sem betur fer hafa verið byrjaður á næstu bók. 

„Fólk hefur spurt mig eftir fyrstu bókina: „Er ekki mikil pressa núna?“ Ég var svo heppinn að þegar Stóri bróðir kom út, þá var fyrsta og gott ef ekki annað uppkast að Maðurinn frá São Paulo tilbúið. Þannig að pressan sem hefði komið var ekki til staðar. Ef ég hefði verið með auða síðu þá hefði þetta ferli verið allt annað með næstu bók. Þetta var óskabyrjun sem ég fékk með Stóra bróður.“

Við veltum fyrir okkur hvort að athyglin sé meiri eða öðruvísi á nýjum og óþekktum höfundum og erum sammála um að svo geti verið.  „Nýr höfundur með nýja sýn og nýjan vinkil, fólk búið að lesa fullt af bókum eftir aðra höfunda, þá held ég að það vinni með nýjum höfundi að koma með eitthvað nýtt. Maður vonar þó að ráði úrslitum að bókin sé góð.“

Með Ásmundi og Elínu í Drápu árið 2022
Mynd: Aðsend

Gömul ljósmynd fyrsta fræið að Maðurinn frá São Paulo

Skúli fer á allt aðrar slóðir í nýju bókinni eins og lesa má á bakhlið bókarinnar:

Maðurinn frá São Paulo er spennusaga um launmorð, njósnir og nasista á flótta.

Þýskur hermaður særist í orrustunni um Rostov í Úkraínu árið 1942. Honum er bjargað við illan leik.

Josef Mengele, dauðaengillinn í Auschwitz, flýr Evrópu fjórum árum eftir stríðslok.

Árið 1960 rænir ísraelska leyniþjónustan Adolf Eichmann í Buenos Aires. Réttað er yfir honum og hann hengdur í Tel Aviv.

Í Reykjavík er leigubílstjóri skotinn í hnakkann árið 1977. Héðinn Vernharðsson rannsakar málið.

Í þessari annarri bók sinni fléttar Skúli Sigurðsson skáldskap saman við sögulega atburði og raunverulegar persónur svo úr verður magnaður hildarleikur – sem heldur lesendum í heljargreipum til síðustu síðu.

Hvaðan kom hugmyndin að Maðurinn frá São Paulo? „Fyrsta fræið að sögunni er 30 ára gamalt. Einn af mínum æskuvinum og bestu vinum er hálfþýskur og ég er svona 6-7 ára gamall þegar ég er heima hjá honum og sé upp á vegg mynd af manni í einkennisbúningi nasista innan um fjölskyldumyndir. Ég spurði út í þessa mynd mynd og fékk að vita að þetta var langafi vinar míns. Hann gegndi herskyldu sem óbreyttur hermaður í seinni heimsstyrjöldinni, og myndin var tekin af honum í síðasta fríinu hans áður en hann féll í orrustu í Belgíu. Og myndin hangir enn upp á vegg þó myndasafnið hafi stækkað. Myndin sáði fræi hjá mér um að það eru ekki allir sem berjast fyrir vondu karlana vondir karlar, eins og maður fær oft á tilfinninguna þegar maður les bækur og horfir á kvikmyndir, þar eru vondir kallar og góðir kallar. Þetta er eitt umfjöllunarefni bókarinnar: „Eru allir vondu kallarnir í raun vondir kallar?“ segir Skúli.

Þeir sem lesa munu bókina taka eftir að hún er undir miklum áhrifum frá klassískum njósnaþrillerum enda segist Skúli mikill aðdáandi þeirra. „Bókin er ólík Stóra bróður, sem er nordic noir, en Maðurinn frá São Paulo er sögulegur njósnaþriller með nordic noir ívafi. Ég sæki mikið í Ian Fleming og Alistair MacLean sem ég las þegar ég var 12-15 ára, drakk í mig þessar njósnarasögur, kaldastríðs- og seinna stríðs sögur, sem var næsta fræ sem fór í pottinn. Svo sá ég fyrir nokkrum árum heimildarmynd um nasista og þá kom hugmyndin raunverulegaog úr öllu þessu verður til sagan af manninum frá São Paulo.

Ég sagði um daginn og veit það hljómar voða klisjulega og uppskrúfað: „Lífið allt er rannsóknarvinna.“ En það er engu að síður rétt, maður er stöðugt að drekka í sig hugmyndir. Ég er þarna 6-7 ára, svo 12-15 ára og svo er ég 30 plús þegar þræðirnir koma til mín og svo tek ég þá og vef saman. Bókin er ólík Stóra bróður en það er sami maður sem heldur á pennanum. Ég held að allir sem höfðu gaman af Stóra bróður muni hafa gaman af Maðurinn frá São Paulo.“

Með Ásmundi við undirritun samnings um Maðurinn frá São Paulo
Mynd: Aðsend

Sér fyrir söguheim frekar en eina aðalpersónu

Ein persóna snýr aftur frá Stóra bróður,  Héðinn Vernharðsson lögreglumaður. „Bókin er ekki framhald af Stóra bróður og gæti ekki verið það, þar sem hún gerist aðallega 1977, en hún gerist í sama söguheimi. Héðinn var kominn undir starfslok í Stóra bróður, en er að hefja ferilinn í nýju bókinni sem 27 ára lögreglumaður, þannig að bækurnar eru tengdar.“

Aðspurður um hvort hann  muni nýta Héðinn áfram sem sögupersónu, eins og algengt er meðal rithöfunda að nota sömu persónuna ítrekað segir Skúli: „Hann mun koma aftur í einhverju formi og fleiri persónur líka. Ég lít svo á að ég er að skrifa inn í ákveðinn söguheim, það má vel vera að fleiri persónur komi aftur. En ég ætla ekki að gera Héðin að mínum Erlendi, ég ætla að forðast það. Ég hef lesið of mikið um að rithöfundar verðir þreyttir á sköpunarverkum sínum, eins og Ian Fleming drap einu sinni James Bond, sem dó í raun í lok einnar bókar, en Fleming skrifar sig svo frá því í næstu bók. Michael Connelly, sem er einn af mínum uppáhalds samtímahöfundum, vinnur vel með þetta. Hann er alltaf að finna nýja vinkla á sinn mann, Harry Bosch, hann lætur hann hætta í lögreglunni, gerir hann að einkaspæjara, hann kemur aftur í lögregluna og fer í Cold Case málin, hann gerir hann að föður, skrifar í fyrstu persónu, Connelly gerir þetta mjög vel. Bosch-bækurnar eru allavega ekki orðnar þreyttar enn og ég er búin að lesa fyrstu þrettán í seríunni. 

Ég sé í raun Héðinn sem Sean Connery, ekki alveg jafn myndarlegur, en þessi sama týpa, sérstaklega þegar hann er orðinn eldri. James Bond svona svífur yfir vötnum. Ég hafði mjög gaman af að skrifa þessa bók.“

Með Kalla bróður í útgáfuhófi Stóra bróður árið 2022
Mynd: Aðsend

Tengir söguheiminn við raunverulega atburði, staði og hluti

Til að hafa söguheiminn trúverðugan og að lesendur tengi við hann, hvort sem þeir muni eftir tímanum sem bókin gerist á eða aðeins ímynda sér sögusviðið tengir Skúli við raunverulega atburði, staði og hluti. „Ég held að margir sem lesa á bakhlið bókarinnar: „Árið 1977 finnst leigubílstjóri skotinn í hnakkann“ muni muna eftir óleystu morðmáli frá 1968. Bókin er ekki um það morð, heldur nota ég morðið sem einskonar stef í bókinni. Ég nota líka Íslending sem skapalón fyrir leigubílstjórann í bókinni en þó að í dag séu líklega fáir sem muna eftir því máli. Það er til að framkalla þessa sögulegu tilfinningu umfram önnur mál sem ég nota,“ segir Skúli.

„Ég komst ekki að því fyrr en eftir að ég kláraði Stóra bróður að tvær af mínum fyrirmyndum Ian Fleming og Hergé, sem skrifaði Tinna, notuðu svipaða taktík til að fá lesandann til að kaupa söguna. Þeir lögðu sterkan grunn í raunveruleikann, þeir jarðtengdu atburðina. Fleming er með vísan í ákveðna atburði, segir frá stöðum sem eru raunverulegir, James Bond reykir ákveðna tegund af sígarettum, talar um ákveðna veitingastaði og víntegundir. Hergé teiknar raunverulega hluti og staði, eins og til dæmis flugvöllinn í Genf, Petru í Jórdaníu og hélt safn af ljósmyndum til að fanga staði og stemningu. Þeir jarðtengdu allt sem þeir skrifuðu, þannig var kominn grundvöllur raunveruleika undir skáldskapinn.

Ofan á þetta bjuggu þeir til allskonar vitleysu, en af því höfundurinn er búinn að jarðtengja atburðina þá er lesandinn tilbúinn til að taka þátt í  vitleysunni. Ég hugsaði svolítið svipað þó ég hafi ekki gert það meðvitað í Stóra bróður, ég reyni að láta söguna skjóta rótum í raunveruleikanum og það gerir sagnfræðin mjög vel. Þannig er  orrustan sem Maðurinn frá São Paulo byrjar á, er raunveruleg orrusta og atburðirnir sem lýst áttu sér stað í aðalatriðum. Morðið sem Mossad framdi í Noregi og nefnt er í byrjun átti sér raunverulega stað.  Að auki eru þarna nokkrar sögulega persónur, meðal annars Adolf Eichmann og Josef Mengele,“ segir Skúli. 

Hann segist ekki búinn að ákveða hvort þriðja bókin verði byggð á sögulegum atburðum. „Það fer eftir hvort verður jafn gaman að skrifa hana. Ég hef mjög gaman af því sem ég kalla Wikipediu-fyllirí, þar sem maður skoðar eina grein, og svo aðra og svo aðra, síðan eftir klukkutíma veit maður alls konar. Ég hakka í mig True Crime hlaðvörp, heimildarmyndir og þætti. Ég er reyndar búinn að borða yfir mig af heimildarþáttum þannig að ég er kominn í hlé. Ég er með 1-2 hugmyndir sem eru sögulegar og gætu orðið að sögum seinna meir. Í Stóra bróður var ég meira að vinna með siðferðilegar spurningar, rétt og rangt, hvað er hefnd og hvað er réttlæti, í Maðurinn frá São Paulo er ég meira að nota söguna. 

Um leið og þú byggir á einhverju raunverulegu og lesandinn kannast við það þá dregurðu hann inn og hann á líka auðveldara með að samþykkja atburðarásina, það á líka við með staðhætti og tímasetninguna hvernig hlutir voru á þessum tíma. Ég er örugglega yngsti maðurinn á landinu sem veit hvað Asni er. Yngri lesendur munu lesa og hugsa: „Já þetta er eitthvað gamalt.“”“ segir Skúli og hlær.

Eftir skrifin veit Skúli hvað Asni er, ekki dýrið, heldur drykkurinn, en við skrifin þurfti hann að leita aðstoðar foreldra sinna til að hafa drykkinn rétt blandaðan og nefndan.

„Foreldrar mínir hafa bæði verið ómissandi uppspretta upplýsinga, ég spurði mömmu „hvað var aftur vodki í Ginger ale kallaður?“ „Asni!“ Í bókinni hellir ein persónan upp á Asna, og pabbi bætti við að það yrði að vera Canada Dry. Pabba spurði ég hvaða sígarettur hefðu verið algengastar á þessum tíma, Héðinn reykir Viceroy, pabbi reykti þær áður en hann skipti í vindla. Lögreglustöðin er í Auðbrekku í Kópavogi, þar sem hún var raunverulega og það var fjallað um það í fréttum hvað var mikil óánægja með þessa staðsetningu, í iðnaðarhverfi utan alfaraleiðar meðan aðalstöðin er á Hverfisgötu. Það er þetta með fræin, sá ákveðnum fræjum svo lesandinn fái á tilfinninguna að hann sé staddur á þessum tíma, sérstaklega af því ég var ekki fæddur á þessum tíma.“

Faðirinn skuggaritstjóri

Það er einn sem fær að lesa skrif Skúla á undan öllum öðrum, faðir hans Sigurður Karlsson leikari og þýðandi. „Áður en nokkur annar les þá les hann yfir og kemur með athugasemdir. Honum fannst ég endurtaka og útskýra of mikið í Stóra bróður, hann sagði lesandinn veit þetta, þú þarft ekki að endurtaka. Hann aðstoðaði líka með orðalag og stíl í báðum sögunum og þær urðu betri fyrir vikið.”

Hann bætir við að það sé leiðinlegt að lesa bækur þar sem höfundur finnur sig knúinn til að segja lesendum frá öllum sínum rannsóknum, hverju smáatriði, sjálfur skissi hann eitthvað upp og láti lesandann um að fylla í eyðurnar. Skúli hefur þó alveg lagst í rannsóknarvinnu við skrifin.

„Í Maðurinn frá São Paulo þá er minnst á bílastæði, sem um árabil hefur bara verið hægt að keyra inn á öðru megin, en áður fyrr var það opið í báða enda og hægt að keyra í gegn. Ég lagði mikla vinnu í að staðfesta þetta. Foreldrar mínir bjuggu þarna í grennd á sínum sokkabandsárum og ég gat nokkurn veginn fullvissað mig um hvernig þessu var háttað,“ segir Skúli.

„Bókin gerist fyrst og fremst árið 1977, en að hluta á árabilinu 1942-1961, ég gat notað foreldra mína að einhverju marki nema hvað bókin gerist í Úkraínu, Ítalíu, Póllandi, Argentínu og Brasilíu, auk Íslands.  Ég bý svo vel að ég hef komið til Argentínu og Brasilíu, það var ómetanlegt við atriði eins og að lýsa hitanum, ég gat gert það af því ég hafði upplifað það á eigin skinni. Hvað þessi mikli er þrúgandi, sérstaklega í Brasilíu. Kaflarnir sem gerast í Argentínu gerast í Buenos Aires og ég hef verið þar og gat lýst strætunum og gamla bænum. 

Og svo gamlar ljósmyndir, maður ímyndar sér að rithöfundar fyrri tíma hafi setið á bókasafni og grúskað, í dag ertu einu leitarorði frá öllu sem þú vilt vita. Ég nýtti mér líka Facebook, mig vantaði upplýsingar um gamlar ljósmyndir frá fimmta áratugnum og fann hóp um filmuljósmyndun, þar fékk ég nafn á manni og hringdi í viðkomandi og fékk allar upplýsingar sem mig vantaði. Í dag þarftu ekki lengur að fara eftir boðorðinu: „Write What You Know“, þú kemst alveg framhjá því af því það er svo auðvelt að kynna sér allt.“

Skúli Sigurðsson

Valdi sér nám á skjön við nánustu fjölskyldu

Aðspurður um hvað veldur því að menn fá flugu einn daginn komnir á fertugsaldur að verða rithöfundur hlær Skúli og segir mikla sköpunarhneigð í hans nánustu fjölskyldu, einnig hjá honum þó að skrifin hafi blundað værum svefni þar til fyrir nokkrum árum.

„Pabbi er leikari og þýðandi, hefur þýtt yfir 20 bækur, mamma starfaði sem leikkona og leikstjóri og ýmislegt annað líka, bróðir minn er söngvari og önnur systir mín er lágfiðluleikari. Það er sköpunarþörf í familíunni. Ég spila á gítar, lærði söng, get bjargað mér á hljómborði og trommum.“

Og aðspurður um af hverju hann valdi ekki leiklistina eins og foreldrarnir: „Börn leikara fá alltaf sömu ræðuna og inntakið í henni er; „ef þú getur hugsað þér að vera eitthvað annað en leikari þá skaltu vera það.“ Leikarar líta svo á að þú ert ekki að velja starf heldur lífstíl. Ég er mjög feginn að hafa ekki farið í leiklistina, ég valdi lögfræði sem þótti svolítið á skjön við marga í ættinni. Ég held að ég hafi ætlað að verða 9-5 maður með því að fara í lögfræðina, af því ég sá ýmsa ókosti hjá foreldrum mínum, mamma vann mikið í lausavinnu og mikill þeytingur, pabbi mikið að vinna á föstudags- og laugardagskvöldum. Ég man sem krakki eftir að horfa á Spaugstofuna einn með mömmu, svo kom pabbi heim eftir sýningu.“

Skúli segist hafa tekið sér tryggingu í lífinu með því að klára lögfræðina, ef allt annað klikki þá geti hann alltaf snúið sér að henni.  „Og hún borgar reikningana núna, ég sinni talsmennsku fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, og það er búið að vera mitt aðalstarf síðastliðið ár. Ég kem fram fyrir hönd umsækjenda og gæti hagsmuna þeirra, reyni að tryggja að þeim sé veitt vernd hér á landi.“  

Skúli segist þó alltaf hafa haft löngun til að skapa og reynt að finna sköpuninni farveg í tónlistinni og hafði gaman af henni. „Ég bara vissi ekki að ég vildi skrifa, kannski var ég líka fókuseraður á tónlistina hvað varðar sköpun og að fá útrás fyrir hana. Ég var í bílskúrsböndum og ein hljómsveitin tók upp plötu sem var aldrei hljóðblönduð og kom aldrei út, hún er einhvers staðar á hörðum diski og við spiluðum nokkra tónleika. Þetta er svona frá því ég er 15-24 ára. Þegar ég fór að skrifa fann ég fljótlega að þar var eitthvað, en vissi ekki að það væri eitthvað sem ég vildi halda við fyrr en ég var langt kominn með Stóra bróður. En ég tek eftir að ég spila miklu minna á hljóðfærin eftir að ég byrjaði að skrifa, núna fæ ég útrásina annars staðar. Ég hef grínast með að aðalástæðan fyrir að ég gerðist rithöfundur er að ég þarf ekki í buxur. Ég get bara verið á náttbuxunum heima. Bara velti mér fram úr og byrja að skrifa, sem er mjög notalegt,“ segir Skúli og hlær.

„Eins og ég sagði áðan, lífið er rannsóknarvinna, og ég var bara í henni í 35 ár, ég held ég hefði ekki haft neitt fram að færa hefði ég byrjað að skrifa fyrir tíu árum. Ég er búinn að vera í námi, ferðast, starfa sem blaðamaður og lögfræðingur, þannig að ég er með alls konar bakgrunn sem ég get byggt á. Margir rithöfundar byrja ekki fyrr en seint, eins og Michael Connelly sem var blaðamaður  fram á fertugsaldur ára aldurs, Ian Fleming og John Grisham voru báðir var komnir yfir fertugt þegar þeir sneru sér að skrifum.“

Vatnspípa í Jórdaníu, árið 2019
Mynd: Aðsend

Fréttamennska og framandi slóðir

Eftir menntaskóla átti Skúli draum um að verða blaðamaður og fara í fjölmiðlafræði, sá draumur datt þó upp fyrir og hann valdi lögfræðina. Hann starfaði þó sem blaðamaður á Morgunblaðinu meðfram laganámi árin 2008 til 2011. „Ég hafði alltaf áhuga á blaðamennsku og að miðla atburðum til fólks í hvaða formi sem var heillaði mig og gerir enn. Ef ég myndi ákveða að hætta að skrifa bækur þá gæti ég alveg hugsað mér að starfa sem blaðamaður. Það hefur gagnast mér að hafa unnið á blaði, fá litla eindálka og þurfa að troða fréttinni þar inn. Þá reyndi á sköpunargáfuna að koma sögunni til skila í fáum orðum. Eða ef maður var með smá frétt og fékk svo heila síðu, þá þurfti maður að teygja úr. Einn fréttastjórinn minn sagði þá: „Stórar myndir„,“ segir Skúli og hlær. 

„Fréttamennska er ákveðið sagnaform, hún þarf að hafa upphaf og enda, persónur, framvindu og vera skýr, þetta á líka við um framvinduna í skáldsögu sem þarf að vera skýr og greinargóð, persónurnar skilgreindar. Þetta er náskylt og blaðamennskan er góður skóli.“

Lögfræðin hefur svo leitt Skúla á framandi slóðir, og hefur hann lært og búið á stöðum sem Íslendingar sækja alla jafna ekki til, Costa Rica og Jordaníu. „Ég skrifaði meistararitgerðina í lögfræði um tjáningarfrelsi í ljósi fjölmiðlaréttar, en það var fyrir slysni sem ég fór í flóttamannamálin, fyrst vann ég í þeim hér heima, síðan í Jordaníu og svo aftur hér heima. Þetta er eins og Lennon sagði, „Life is What Happens When Your Busy Making Plans“, ég tek í raun ekki stjórn á starfsferlinum fyrr en ég byrja að skrifa bók, ég svona bara álpast með,“ segir Skúli. 

„Ég fór í framhaldsnám í Costa Rica af öllum stöðum árið 2017, Sameinuðu þjóðirnar eru með háskóla þar. Þar tók ég eins árs meistaranám í mannréttindum og þjóðarétti og í framhaldi af því sótti ég um stöðuna í Jordaníu og var þar í tvö ár.“ 

Var þetta ævintýramennska í bland? „Klárlega, staðsetningin hafði mikið að segja og tungumálið, ég hef síðustu tíu ár verið að reyna að læra spænsku og get bjargað mér á henni, mig langaði líka að starfa við eitthvað alþjóðlegt, og í Jordaníu byrjaði ég að skrifa Stóra bróður sem varð svona vendipunktur. Svo kom ég heim, kláraði bókina og kom í útgáfu, og þá var orðið ljóst að kannski langaði mig að verða rithöfundur þegar ég verð stór. Þannig að núna reyni ég að haga seglum eftir vindi, það er ekki hlaupið að því að lifa á því að vera rithöfundur á Íslandi, þess vegna er ég í hinum og þessum verkefnum, en ég lít á það sem forgangsatriði að skrifa eina bók á ári. Ef maður getur komið því við að vinna fulla vinnu og skrifa bækur. Ég er ekki í fullri vinnu akkúrat núna, ég var í mun meira en fullri vinnu bróðurpartinn af þessu ári, ég er sjálfstætt starfandi og ef maður er með fá verkefni þá er lítið að gera, mörg verkefni þá er maður á haus. Það er þó ákveðið öryggi og haldreipi í öllu saman að vera launþegi í föstu starfi. Ef bækurnar hætta að seljast þá hætta tekjurnar að tikka inn.“

Í Argentínu árið 2016
Mynd: Aðsend
Við Laguna de los Tres undir Cerro Fitz Roy í Argentínu, 2016
Mynd: Aðsend

Segir útgefandann svífast einskis

Bókaútgáfa á Íslandi er vegleg á hverju ári og sérstaklega um jólin, enda kallað jólabókaflóðið. Það má því gera ráð fyrir að það sé heljarinnar vinna að vera óþekktur rithöfundur og ætla að fá bók sína útgefna. Skúli játar að hafi verið vinna og bras, en ekki vonlaust.

„Ég sendi handritið að Stóra bróður á nokkuð mörg forlög, Ásmundur í Drápu sá ljósið og gat því borið sig mannalega þegar bókin var komin út og gerði svona lukku. Ég sendi á öll stærri forlögin og mörg þeirra minni, það voru í raun þrjár útgáfur sem höfðu áhuga og ég var í þeirri stöðu að geta valið og það var ekki spurning að Drápa var þar fremst í flokki. Ásmundur, hann svífst einskis, hann fer um eins og eldur í sinu við að koma mér á framfæri og hann væri örugglega óþolandi ef hann væri ekki svona viðkunnanlegur,“ segir Skúli hlæjandi.  „Ég bý mjög vel að því. Ég veit að það er bras fyrir rithöfunda að koma sér á framfæri. Ég held að John Grisham hafi sent Time to Kill á fleiri en 20 forlög, þessa miklu metsölubók.. Þetta var smá bras hjá mér, en frekar sársaukalaust. Ég held að markaðurinn á Íslandi sé ekki eins hrikalega erfiður og víða erlendis, af því það er svo mikil bókaútgáfa hér og sterk hefð og markaður fyrir breiða flóru af bókum.“ 

Eins og áður sagði fékk bókin góðar viðtökur og Blóðdropann sem besta íslenska glæpasagan. „Ég fékk tvo dóma fyrir bókina, sem ég veit ekki hvort er mikið eða lítið, en ég rataði þrisvar í Kiljuna. Fyrst hitti ég Egil við Rauðavatn og við ræddum málin í beljandi roki, svo fékk ég tilnefningu og þá varð að láta lesa bókina og fjalla um hana, svo vinn ég verðlaunin eins og asni og þá varð ég að koma í viðtal. Ég geri mér engar vonir um að fara í Kiljuna í ár, ég er búinn með kvótann í bili.“

Maðurinn frá São Paulo kemur út nokkru fyrir jólabókaflóðið, í byrjun nóvember og Stóri bróðir kom út í lok október í fyrra. Mælir Skúli með því? „Ég held að nýir og minni höfundar ættu að koma út aðeins fyrir jólabókaflóðið, þá er hugmyndin sú að þeir týnist ekki í öllu kraðakinu,“ segir Skúli. 

„En svo er það þannig þegar maður er með útgefanda sem er stór þá hefur hann peninga og  úrræði til að koma þér á framfæri, en fókusinn er kannski meira á stærri rithöfundana. Ef þú ert hjá litlum útgefanda þá hefur hann kannski ekki bolmagn að koma þér á framfæri þrátt fyrir góðan vilja. Þannig að málið er að finna milliveginn, þann sem hefur úrræðin, en um leið fókusinn á þér og það fann ég hjá Drápu.“ 

Þrjár hugmyndir geta orðið þriðja bókin 

Eins og fram kom í upphafi þá skortir Skúla ekki hugmyndir að næstu bókum og mun sú þriðja koma út á næsta ári. En ertu þegar byrjaður á næstu bók? 

Ég er með tvær hugmyndir sem eru að taka á sig mynd en ekki alveg víst hvor verður efniviður þriðju bókarinnar. Ég búinn að rissa nokkrar síður í annarri hugmyndinni og kortleggja hina. Vonandi fæ ég ráðrúm til að hefja skrifin fyrir alvöru þegar líður á veturinn

Þetta eru ólíkar hugmyndir, önnur gerist í nútímanum en hin fyrir hálfum öðrum áratug og á vissan hátt má segja að hún sé söguleg. Í einni er uppleggið mannshvarf á ókunnum slóðum, í hinni er það sekt eða sakleysi dæmds manns. Önnur er eins eins konar karakterstúdía, að mörgu leyti persónuleg og horfir inn á við. Hin tekur víðara sjónarhorn og fjallar um réttlæti og ranglæti, gott og illt. Kannski hljómar þetta háfleygt en þetta eru samt bara spennusögur, það verður nóg af ofbeldi, óhugnaði og ósköpum. Hasar og hamagangi.

Reyndar er ein hugmynd í viðbót sem hefur læðst að mér, hún fjallar um aukapersónu úr Stóra bróður. Samtímasaga úr undirheimum Reykjavíkur, mjög myrk saga. Hún gæti þó þurft að gerjast dálítið lengur.

En burtséð frá því hvaða hugmynd verður fyrir valinu þá kemur þriðja bókin út haustið 2024, eins og segir innan á kápunni á Maðurinn frá São Paulo. Engin pressa, samt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Perla leitaði sér aðstoðar sex árum eftir að dóttir hennar lést – „Endaði grátandi hjá heimilislækninum og sagði honum að ég gæti ekki meira“

Perla leitaði sér aðstoðar sex árum eftir að dóttir hennar lést – „Endaði grátandi hjá heimilislækninum og sagði honum að ég gæti ekki meira“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Deitið ætlaði að hafa hann að fífli – „Þessar stelpur héldu að ég væri vitlaus, sem ég er ekki“

Deitið ætlaði að hafa hann að fífli – „Þessar stelpur héldu að ég væri vitlaus, sem ég er ekki“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill birtir fyrstu paramyndirnar

Simmi Vill birtir fyrstu paramyndirnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fall norskrar konu á Austurlandi vekur mikla kátínu – „Skóladæmi um hvernig á að detta með mýkt“

Fall norskrar konu á Austurlandi vekur mikla kátínu – „Skóladæmi um hvernig á að detta með mýkt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Níu ára sambandi Alberts og Guðlaugar lokið

Níu ára sambandi Alberts og Guðlaugar lokið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Raunveruleikastjarnan Ingi segir varasamt að fara á stefnumót á Íslandi – „Eins og að taka þátt í rússneskri rúllettu“

Raunveruleikastjarnan Ingi segir varasamt að fara á stefnumót á Íslandi – „Eins og að taka þátt í rússneskri rúllettu“