fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Voru hryðjuverkin 11. september árið 2001 innanbúðarverk?

Fókus
Föstudaginn 27. október 2023 14:38

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það efast líklega fáir um að hryðjuverkaárásirnar að morgni 11. september árið 2001 hafi verið einhver umfangsmestu voðaverk seinni tíma. Margir tóku mínútu þögn til að votta fórnarlömbum og aðstandendum virðingu. Heimurinn átti aldrei eftir að verða samur.

Hátt í þrjú þúsund einstaklingar, 2973 auk hryðjuverkamannanna 19, létu lífið í árásunum. Ekki leið á löngu þar til fingrum var bent að Osama Bin Laden og félögum hans í Al-Qaeda. Stríðið gegn hryðjuverkum var hafið. Bandaríkin réðust inn í Afganistan og steyptu ríkisstjórn talíbana af stóli. Tveimur árum síðar var svo ráðist inn í Írak.

Síðan  hafa Bandaríkin verið nánast samfellt í hernaðaraðgerðum sem eignaðar eru þessu stríði gegn hryðjuverkum sem virðist engan enda taka.

Er ekki allt sem sýnist?

Þegar atburðir sem þessir eiga sér stað, stórar stundir mannkynssögunnar sem bergmála á alþjóðavettvangi, þá spyrja margir sig spurninga. Samsæriskenningar verða til, sem gjarnan má rekja til skiljanlegra mannlegra þátta. Lífseig samsæriskenning segir að hryðjuverkin þann 11. september 2001 hafi í raun verið skipulögð af Bandarískum stjórnvöldum. Líklega hafi ekki verið um hryðjuverk að ræða heldur útspil til að réttlæta hernaðaraðgerðir sem í raun og veru höfðu aðeins það markmið að afla fjárhagslegs ávinnings auk aukinna valda í heiminum.

En hvaða ástæðu gætu yfirvöld haft sem réttlættu fyrir þeim að fórna þúsundum þegna sinna? Var þetta kannski allt sjónarspil? Var Osama Bin Laden strengjabrúða bandarísku leyniþjónustunnar og notaður sem blóraböggul til að friðþægja heimsbyggðina? Og hvernig tengist fjölskylda Bin Laden fjölskyldu þáverandi Bandaríkjaforseta, George W. Bush?

Þessum spurningum er velt upp í nýjasta þætti álhattsins, þar sem félagarnir þrír, Haukur Ísbjörn, Guðjón Heiðar og Ómar Þór, kafa ofan í samsæriskenningar og reyna að greina hversu sannfærandi þær í raun eru þegar heildarmyndin er metin.

Álhattar, eða þeir sem trúa eða fylgja samsæriskenningum, furða sig meðal annars á hruni tvíburaturnanna svokölluðu. Efast þeir um að þessar stóru byggingar hafi hrunið við það eitt að farþegaflutvélum var flogið inn í á. Álhattar hafa í rúma tvo áratugi greint myndskeið af turnunum falla og haldi því fram að þarna hafi almenningur verið beittur brögðum. Turnarnir hafi verið sprengdir upp. Sérstaklega benda þeir á seinni turninn byggingu 7,  sem virðist hafa hrunið algjörlega af sjálfdáðum og það mörgum klukkustundum eftir árásirnar, á þess að hafa orðið fyrir hnjaski.

„Það sjást sprengjurákir, svona púff, reykur sem skýst út um gluggann á tvíburaturninnum á reglulegu millibili, eins og það sé verið að sprengja undan því.“

Engar myndavélar í öruggustu byggingu landsins?

Eins er horft til árásarinnar á varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, þennan örlagaríka dag. Álhattar telja engin vegsummerki um að flugvél  hafi nokkru sinni verið þar á vettvangi. Ekkert myndefni sé til af árásinni, en samt er hér um að ræða eitt öruggasta húsnæði Bandaríkjanna. Var ekki ein eftirlitsmyndavél sem náði upptöku af árásinni?

Bent hefur verið á undarleg verðbréfaviðskipti og umfangsmikla skortsölu á hlutabréfum flugfélaga í aðdraganda árásanna. Þýðir þetta að einhver vissi fyrirfram hvað væri að fara að gerast? Tvíburaturnarnir höfðu nýlega verið tryggðir fyrir marga milljarða, en tímasetningin vekur tortryggni álhatta.

Þetta og svo margt margt fleira í þessum nýjasta þætti af Álhattinum, sem er fyrri hluti af tveimur, sem fjalla um árásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001. Umfjöllun er skipt í tvennt enda er hér um eina umfangsmestu samsæriskenningu síðari ára að ræða. Til að gefa lesendum smjörþefinn af þeirri veislu sem bíður þeirra í þættinum má draga fram nokkra punkta sem hafa breytt venjulegu fólki í álhatta.

Ótrúleg tilviljun eða viljaverk?

Þann 11. september árið 2001 var loftvarnarkerfi Norður-Ameríku og Norðurslóða með aðgerð í gangi sem fól í sér að orrustuþotur voru sendar til Alaska og Kanada. Þetta var viðbragð við æfingu rússneskra loftvarna þar sem orrustuvélar voru sendar í norðurhluta landsins. Þennan dag áttu stríðsleikarnir svokölluðu að eiga sér stað, umfangsmikil samhæfingaraðgerð til að æfa viðbrögð við alvarlegum atvikum, svo sem efnavopnaárás eða árás þar sem flugvélum væri flugið á opinberar byggingar. Því hafði verið útbúin stjórnstöð sem eftir að flugvélunum varð rænt var breytt í samhæfingarstöð. Þetta kom sér gífurlega vel og gerði viðbragðið við árásunum mun skilvirkara. Þar sem margar svona æfingar áttu að eiga sér stað á nákvæmlega þessum degi. Álhattar telja að þetta hafi viljandi verið gert svo bandarísk stjórnvöld væru undirbúin til að takast á við eftirmála árásanna, eftir að þær áttu sér stað, eða að stjórnvöld hafi í það minnsta haft rökstuddan grun um hvað væri að fara að eiga sér stað.

Álhattar halda því eins fram að faðir þáverandi Bandaríkjaforseta og fyrrum forsetinn, George Herbert Walker Bush, hafi hitt bróður Bin Laden að deginum fyrir árásirnar sem og um morguninn þann 11. september. Eins hafi leyniþjónustan CIA borið kennsl á tvo flugræningjanna snemma árið 2000 og tengt þá við Al-Qaeda, en létu alríkislögregluna ekki vita svo þessir menn voru ekki á vöktunarlistum flugvalla.

Rétt er að minnast þess að samsæriskenningin hefur ítrekað verið til umfjöllunar hjá bæði fjölmiðlum og bandarískum stjórnvöldum og hefur öllum meintum sönnunum álhatta verið vísað til föðurhúsanna. Margar samsæriskenningar um þennan dag eigi rætur að rekja til fordóma gagnvart gyðingum og öðrum, en það séu einmitt aðilar með öfgafulla fordóma sem kyndi undir kenningunum. Sky History hefur tekið fyrir algengustu rök álhatta og kveðið þau í kútinn og kannski gott að lesa yfir þau áður en álhatturinn er settur upp. En eftir stendur þetta lífseiga : hvað ef?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á
Fókus
Fyrir 5 dögum

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað