Tímamót urðu nýlega í lífi bandarísku tónlistarstjörnunnar Taylor Swift. Hún telst nú vera í hópi milljarðamæringa í Bandaríkjunum.
CNN greinir frá og vísar í greiningu Bloomberg fréttaveitunnar.
Samkvæmt þessari greiningu eru eignir Swift nú metnar á 1,1 milljarða dala ( tæplega 154 milljarða íslenskra króna) sem gerir hana að milljarðamæringi.
Bloomberg segir að Swift sé ein af fáum í skemmtanabransanum sem hafi komist í þennan hóp algjörlega á grunni tónlistar sinnar og tónleikahalds.
Yfirstandandi tónleikaferð Swift, „The Eras Tour“, er sögð hafa sett ný viðmið þegar kemur að efnahagslegum grunni skemmtanabransans.
Tónleikamynd hennar „Taylor Swift: The Eras Tour“ hefur rakað inn fjármunum úr miðasölu í Kanada og Bandaríkjunum. Aldrei áður hefur tónleikamynd, í þessum löndum, skilað jafn háum upphæðum úr miðasölu á frumsýningarhelgi.
Það stefnir í að „The Eras Tour“ skili 2,2 milljörðum dala (rúmlega 308 milljörðum íslenskra króna) í miðasölutekjur í Norður-Ameríku einni. Ef það gengur eftir mun þetta vera sú tónleikaferð sem hefur skilað hæstu miðasölutekjum sögunnar.
Tónleikaferðin hefur ekki bara fyllt vasa Swift heldur styrkt efnahagslífið á þeim stöðum þar sem hún hefur haldið tónleika. Til að mynda skiluðu síðustu 6 tónleikar sem hún hélt í Los Angeles, sem hluta af tónleikaferðinni, tæplega 320 milljónum dala (45 milljötðum íslenskra króna) til efnahagslífs borgarinnar.
Í borgum þar sem Swift hefur haldið tónleika hefur aðsókn í almenningssamgöngur stóraukist og gistinóttum á hótelum fjölgað verulega.
Ákafur dans gesta á tónleikum hennar í Seattle er sagður hafa mælst á jarðskjálftamælum.
Fleiri tónlistarmenn í Bandaríkjunum hafa á síðustu árum bæst í hóp milljarðamæringa. Rihanna, Beyonce og maður hennar Jay-Z eru dæmi það. Ólíkt Swift standa þessi þrjú í annars konar viðskiptum meðfram tónlistinni. Rihanna hefur til að mynda sett á markað bæði snyrtivöru- og undirfatalínu en eins og áður segir hefur Taylor Swift auðgast eingöngu á tónleikahaldi og útgáfu tónlistar sinnar.