Það var við því að búast að æviminningar Britney Spears settu allt á hliðna. Í bókinni sem kom út í vikunni rekur Britney aðdraganda þess að hún var svipt sjálfræði í rúman áratug. Eins gerir hún grein fyrir því hversu mjög frelsi hennar var heft öll þessi ár. Að sjálfsögðu spilar fjölskylda hennar stórt hlutverk í bókinni. Britney hefur oft og ítrekað gagnrýnt bæði foreldra sína og systur fyrir að gera líf hennar að helvíti á jörðu.
Sérstaklega fær faðir hennar, Jamie Spears, að heyra það. Það var hann sem var skipaður lögráðamaður söngkonunnar og hann sem stjórnaði lífi hennar í einu og öllu.
Jamie brást við bókinni með því að ráða sér lögmann sem sendi erindi á söngkonuna. Nú hefur lögmaður Britney svarað fyrir söngkonuna í harðorðu bréfi sem inniheldur ítarlegan lista yfir allt það sem Britney sakar föður sinn um að hafa gert á sinn hlut. Vísar miðillinn TMZ til tveggja heimildarmanna sem segja að lögmaður Britney, Mathew Rosengart, hafi byrjað bréfið með því að viðurkenna þá staðreynd að Jamie væri að glíma við veikindi. Sökum þess væri þetta líklega besti tíminn til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Gangast við brotum sínum og greiða söngkonunni skaðabætur.
Meðal þess sem Jamie er sakaður um að hafa gert er að vakta söngkonuna með ólögmætum hætti. Svo sem með því að njósna um síma hennar.
Þetta útspil er talið tengjast því að Jamie hefur krafist þess að Britney greiði honum lögmannskostnað, en það geti söngkonan ekki hugsað sér að gera. Britney er því að stefna föður sínum, en sagan segir að hann ætli sér að leggja fram gögn fyrir dómi sem kæmu sér illa fyrir dóttur hans. Því hafi lögmaður hennar undanfarið reynt að ná fram sáttum til að forðast opinber réttarhöld.