Parið, Fanney Ingvarsdóttir stafrænn markaðssérfræðingur hjá Bio Effect og Teitur Páll Reynisson viðskiptafræðingur, hafa sett íbúð sína í Sjálandi í Garðabæ á sölu. Ásett verð fyrir íbúðina er 118 milljónir.
„Í fréttum er þetta helst. Ég er í þessum töluðu með hraðan hjartslátt og hnút í maganum þegar ég segi að elsku besta og fallega íbúðin okkar er komin á sölu, enda með öllu dramatísk og sannkallaður meistari í að tengjast dauðum hlutum tilfinningalega. Ekki hlutlaust mat en Vesturbrúin okkar er dásamleg íbúð, með rúmgóð herbergi og meiriháttar pall í hásuður. Erfitt að finna betri staðsetningu. Alls ekki tilbúin að kveðja en hugsa um tækifærin sem bíða okkar á nýjum stað, ef allt gengur upp,“ skrifar Fanney í færslu á samfélagsmiðlum.
Íbúðin er 126.3 fm endaíbúð á fyrstu hæð í fjölbýlishúsi sem byggt var árið 2008.
Íbúð skiptist í forstofu, hol/alrými, stofu, borðstofu, eldhús, þrjú svefnherbergi, baðherbergi, þvottaherbergi, sérgeymslu og stæði í lokaðri bílgeymslu. Afgirtur sérafnotareitur er um 55 fm sem tilheyrir íbúð.
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.