fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Listin er harður húsbóndi: Margir hafa enn ekki fyrirgefið Ólafi atvik í afmælisveislu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 21. október 2023 09:00

Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Gunnarsson er ástsæll og virtur rithöfundur, talinn einn af okkar fremstu. En skáldskaparbrölt hans hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Listin er harður húsbóndi og sú staðreynd endurspeglast í stóru og smáu, meðal annars í eftirfarandi atviki:

Svo óheppilega vildi til þegar Ólafur og eiginkona hans, Elsa Benjamínsdóttir, buðu fyrir rúmum áratug gestum í afmælisveislu Ólafs að Ólafur var heltekinn af smásöguhugmynd sem hann hafði fengið. Byrjaði hann að skrifa um það leyti sem veislan hófst og er hann leit upp aftur allnokkru síðar var hann búinn með 22 blaðsíðna uppkast að smásögu sem ekki löngu síðar kom út í bók hans, Meistaraverkið og fleiri sögur. En því miður voru allir gestirnir farnir úr veislunni þegar hann leit upp úr verkinu.

Ólafur segir að gestunum hafi mislíkað mjög þessi framkoma hans. En hvað sagði eiginkonan?

„Tja, hún er nú ýmsu vön frá mér. En það eru margir sem komu í þessa veislu sem eru enn ekki búnir að fyrirgefa mér. Fólk tók þessu mjög illa.“

Urðu vinslit út þessu?

„Eigum við ekki frekar að segja að það hafi orðið sambandsslit.“

Tilefni samtals blaðamanns og Ólafs er annað smásagnasafn Ólafs, bók sem er nýkomin út og ber heitið Herörin og fleiri sögur. Bókin, sem Ólafur lauk við í september, inniheldur 12 sögur.

Blaðamaður og ljósmyndari heimsóttu Ólaf að heimili hans að Stóru-Klöpp í Mosfellsbæ. Þetta er einbýlishús með garðskála, töluvert langt utan alfaraleiðar, eiginlega sveit í næsta nágrenni við þéttbýli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Sumar sögurnar í Herrörinni eru mjög samtímalegar og blaðamaður spyr hvernig 75 ára gamall maður sem býr utan alfaraleiðar og vinnur heima hjá sér nái að skynja hjartslátt samtímans og lýsa sálarlífi samtímafólks, sem sumt er af allt öðru tagi en hann.

„Var ekki sagt um bandaríska höfundinn Joyce Carol Oates að hún læsi dagblöðin og fengi sirka tíu smásögur upp úr einum morgunlestri,“ segir Ólafur og jánkar því að hann lesi fréttir mikið og ekki síður æsifréttir en annað fréttaefni. Hann telur að fréttir séu mikill innblástur fyrir marga rithöfunda:

„Ég myndi segja að fréttalestur hjálpaði mér töluvert mikið. Svo er það spursmálið að sjá út hvað hentar í sögur og hvað ekki. Rithöfundar eru oft svo einangraðir, vinna einir og eiga kannski félaga sem eru í sama starfi. Maður leitar ekki langt út yfir starfssviðið, við erum til t.d. miklir vinir, ég og Einar Kárason.“

„Ég verð að láta persónurnar lenda í einhverju dramatísku“

Ólafur er fæddur árið 1948 og gaf út fyrstu bók sína árið 1970 en það var ljóðabók. Fyrsta skáldsaga hans, Milljón prósent menn, kom út árið 1978. Hann hefur sent frá sér fjölmörg verk síðan þá, mest stórar skáldsögur.

Sögurnar einkennast flestar af stórbrotnum örlögum sögupersónanna, miklum breyskleika, afdrifaríkum ákvörðunum, stjórnleysi og ofbeldi. Nýja bókin, sem inniheldur 12 stuttar sögur, er stútfull af dramatík og sumar persónurnar taka hræðilegar ákvarðanir.

Spurður út í allt þetta drama í bókunum hans, segir Ólafur:

„Ég hugsa að það sé einfaldlega bara þannig að ég verð að láta persónurnar lenda í einhverju dramatísku til að ég einfaldlega hafi áhuga á að skrifa um þær. Ég gæti ekki skrifað um einhverja persónu sem lendir ekki í neinu og það gerist ekki neitt.“

En skrifa ekki margir höfundar þannig sögur?

„Jú, vissulega og mér dettur þar Hamsun strax í hug.“

Ólafur er sammála því að mikil dramatík og ofbeldi einkenni verk hans. „Þetta er runnið frá höfundum sem ég hef mest dálæti á. Dostojevski er til dæmis mikil fyrirmynd og það má vel vera að sögur hans séu ekki alltaf trúverðugar hvað þetta varðar. Til dæmis sagan Djöflanir, í restina er þetta bara orðið lík við lík. En ég tek fram að ég líki mér ekki við Dostojevski, sem er einn mesti bókmenntarisi sögunnar.“

Mynd: DV/KSJ

Ákvað að láta slag standa

Ólafur er fæddur og uppalinn miðsvæðis í Reykjavík, sonur atvinnubílstjóra. Töluvert er um athafnamenn í hans ættum og föðurbróðir hans var stórkaupmaðurinn Ásbjörn Ólafsson, sem samnefnd heildsöluverslun er kennd við.

„Pabbi starfaði lengi sem bílstjóri á læknavaktinni. Hann byrjaði 1928 og hætti 1958 þegar hann fór á eftirlaun. Ég tók svo við þessu djobbi í kringum 1970 þegar ég byrjaði að leysa af í sumarfríum og annað slíkt, og vann við þetta fram til 1978. Þetta er í rauninni besta vinna sem ég hef haft, maður gat sofið á daginn og átti svo alltaf vikufrí á milli.“

Ólafur starfaði líka á unga aldri í skólafríum í heildverslun frænda, Ásbjörns. Aðspurður segir hann að heildsalinn, föðurbróðir hans, og bílstjórinn faðir hans, hafi verið gjörólíkir menn:

„Ásbjörn var maður sem fór kannski einu sinni á ári til Evrópu með kádilákinn sinn og keyrði frá Köben til Spánar – réttara sagt þá keyrði einkabílstjórinn hann því hann var alltaf með slíkan – og svo var hann með viðskiptasambönd á leiðinni. Pabbi var allt öðruvísi, hann mætti í sína vinnu og fékk síðan sín eftirlaun.“

Aðspurður segist Ólafur, sem fór í Verslunarskólann á unglingsaldri, einnig hafa sinnt viðskiptum um skamma hríð. Það sem stöðvaði þann feril var skáldagyðjan. Í kringum 1970 ákvað Ólafur að gerast rithöfundur þó að ekkert í umhverfi hans hvetti hann til þess.

„Ég var ekki tilbúinn að gerast rithöfundur fyrr en ég átti enga undankomuleið frá því. Það sem neyddi mig til að taka þá ákvörðun var sú hugsun að ég yrði að gera það í lífinu sem mig langaði mest til. Þetta gerðist hægt og sígandi. Svo hafði það áhrif að þegar ég skrapp út að skemmta mér hitti ég stundum drukkna menn sem sögðu: „Ég hefði getað gert þetta og ég hefði getað gert hitt.“ Mig langaði ekki til að lenda í því síðar á lífsleiðinni að líta um öxl og hugsa að ég hefði getað gert þetta ef ég hefði haft kjark til þess.“

Ákvörðunin var erfið og það var erfitt að hasla sér völl framan af ferlinum. „Það voru engir tengdir mér sem voru rithöfundar nema í mesta lagi Egill Skallagrímsson lengst aftur í ættir.“

En hvernig leist Gunnar Ólafssyni, hinum jarðbundna föður Ólafs, á þá ákvörðun sonarins að gerast atvinnurithöfundur?

„Honum fannst þetta vera tóm þvæla, algjör vitleysa.“ Ólafur hlær við og rifjar upp minnisstætt atvik þessu tengt. „Honum blöskraði þegar ég var orðinn heimavinnandi og tók við eldamennskunni. Hann opnaði einu sinni dyrnar inn í eldhús, leit á mig og sagði: „Hér stendur þú eins og hálfviti og steikir kjötbollur.““

Gengi Ólafs framan af ferlinum var erfitt, afkomulega séð, þó að hann skapaði sér nafn sem áhugaverður höfundur. Fyrstu skáldsögurnar seldust aðeins í nokkur hundruð eintökum og hann fékk ekki starfslaun nema í einn til tvo mánuði á ári. Allt breyttist þetta með útgáfu skáldsögunnar Tröllakirkja, afar harmrænni og örlagaþrunginni sögu, sem kom út árið 1992. Þá var Ólafur 44 ára gamall og hafði haft ritstörf að aðalstarfi í 18 ár. Þetta hafði verið mikið hark.

„Þetta var orðinn lífróður fyrir rest. Ég held að ef mér hefði ekki tekist að skrifa skáldsögu þegar ég var að semja Tröllakirkju þá hefði þetta farið að verða ansi erfitt. En ég braust í gegn með henni, þetta var fyrsta bókin sem gekk verulega vel.“

Velgengni Tröllakirkju var upphafið að meiri velgengni og betri tekjum, bæði hvað varðaði bóksölu og starfslaun. Um tíu árum síðar hlaut Ólafur síðan Íslensku bókmenntaverðlaunin með sögulega stórvirkinu Öxin og jörðin.

Mynd: DV/KSJ

Ævintýri í sjónvarpsbransanum

En fyrst minnst er á tekjur þá segist Ólafur aldrei hafa haft það eins gott í því tilliti og á árunum 2014 til 2018 þegar hann starfaði sem ráðgjafi við gerð hinnar vinsælu sjónvarpsseríu, The Vikings, undir stjórn Michael Hirst. Þættirnir slógu rækilega í gegn og vinna Ólafs við þá hafði í för með sér utanlandsferðir, skemmtilegar upplifanir og há laun.

„Ég hef aldrei fengið eins ríkulega borgað,“ segir hann og ríkidæmið í kringum þetta fyrirtæki kom fram stóru og smáu.

„Ég fór mikið til útlanda út af þessari vinnu og einu sinni var ég eitthvað svangur þegar ég var staddur á hóteli sem framleiðendur The Vikings höfðu greitt fyrir. Ég hringdi í afgreiðsluna og spurði hvort ekki væri hægt að bjarga mér um eina samloku. Stuttu síðar var komið með fat til mín og þegar ég tók lokið af því komu í ljós sirka 15 samlokur.“

The Vikings var á sínum tíma fjórða vinsælasta sjónvarpssería í heiminum. Hlutverk Ólafs var meðal annars að laða fram senur byggðar á þekkingu hans á Íslendingasögunum. Höfundurinn, Michael Hirst, á meðal annars að baki kvikmyndina Elisabeth sem skartaði Kate Blanchett í aðalhluverki. Hann skrifaði einnig hina frægu sjónvarpsseríu, Tutors, sem fjallar um Hinrik 8 og fleira kóngafólk.

Ólafur segir að þetta hafi verið ákaflega skemmtilegt tímabil á ferli hans og honum hafi líkað starfið mjög vel. En svo tók það enda og hann tók aftur til við að skrifa bækur handa Íslendingum.

Veraldarbeygur

Blaðamanni er tíðrætt um að ofbeldi, dramatík og ógn séu fyrirferðarmikil í sögum Ólafs. Stundum eru stríðsátök í fjarlægum löndum undirspil í verkunum, ekki síst í smásögunum, og jafnvel endurspeglast heimsátökin í litlu atburðunum sem verða í sögunum. Sjálfur sér Ólafur dökkar blikur á lofti í heimsmálunum. Aðspurður segist hann hafa meiri áhyggjur af styrjaldarátökum en loftslagsmálum.

„Hvernig er annað hægt þegar Pútín situr með rauða hnappinn í fanginu. Það eru svo geðbilaðir menn sem véla um í heiminum, menn í hverra hendur maður vill ekki leggja örlög mannkynsins. Ég las í einhverju viðtali að Pútín kynni að ýta á hnappinn ekki endilega út af heimsmálunum heldur ef honum fyndist sér vera persónulega ógnað.

Heimurinn er líka hættulegri en áður vegna þess að öll þessi nýja og mikla tækni veitir möguleika á svo svakalegri eyðileggingu. Þess vegna er ég hræddari við rauða hnappinn en loftslagsbreytingar, hann er miklu skuggalegri.“

Mynd: DV/KSJ

Höfundar búnir að vera um sjötugt?

Aðspurður segist Ólafur vera sáttur þegar hann horfir yfir farinn veg og hann er sáttur við þá ákvörðun að gerast rithöfundur og hvika ekki frá því marki þó að ekki hafi alltaf blásið byrlega á þeirri leið.

Hann virðist lifa afar rólegu og friðsælu lífi með eiginkonunni Elsu í útjaðri Mosfellsbæjar. Hann segist samt hafa fengið sinn skammt af illdeilum bæði innan fjölskyldu og í opinbera lífinu. En líklega ekki meira en hver annar.

En hvernig sér 75 ára gamall, farsæll rithöfundur, fyrir sér framtíðina?

„Ég leiði ekki hugann að framtíðinni. Það kemur bara dagur eftir þennan dag. En flestir rithöfundar eru búnir um sjötugt.“

En eldast rithöfundar ekki betur en ýmsir aðrir listamenn og afreksmenn?

„Nei, það eru málarar sem eldast best. Sjáðu til, Picasso málaði fram í rauðan dauðann. En Laxness skrifaði engar skáldsögur eftir sjötugt. Meira að segja Cervantes var stopp sjötugur, eftir Don Kíkóta.“

En gildir þetta þá um Ólaf sjálfan, sem var nýlega að senda frá sér þetta magnaða smásagnasafn, Herörina?

„Já, þetta eru svona stuttir sprettir. Það er öðruvísi með smásögur. Það er hægt að setjast niður og klára gott uppkast að smásögu á tveimur, þremur dögum.“

Ólafur segist telja að það gildi líka um hann, þetta með að höfundar séu búnir með sitt besta um sjötugt. „Nei, ég held ekki að ég sé undantekning frá þessu. Það er líka eitt sem fæstir vita, að stórar skáldsögur geta útheimt gífurlegt líkamlegt erfiði. Já, líkamlegt. Þegar ég var að skrifa Blóðakur, sem var eitt erfiðasta verkið mitt og tók mig fimm ár að klára hana, þá sat ég stundum við í striklotu í 21 klukkustund. Þetta var bara manía.“

Ólafur segir raunar að hann myndi bera sig allt öðruvísi að í dag við slíkt verkefni og hefur þar í huga heilræði frá Ernest Hemingway:

„Þegar þér gengur best að skrifa, þá áttu að hætta þann daginn. Ef maður hættir að skrifa þegar maður er enn í stuði þá er svo auðvelt að fara inn í það aftur daginn eftir. Ef maður tæmir sig þá getur maður verið andlaus og ómögulegur næsta dag.“

Ólafur er ekki að skrifa neitt þessa dagana þar sem hann lauk við nýju bókina í síðasta mánuði.

„Ég er bara í pásu núna. Að byrja strax aftur eftir nýkláraða bók væri eins og að vera nýbúinn að klára 400 metra hlaup og fara svo strax aftur í startholurnar.“

Hann notar dagana í lestur og leyfir söguefnunum að gerjast í sér. Og þó að hann sjálfur telji að bestu verkin hans séu að baki, bendir nýja bókin hans, þetta stórfína smásagnasafn, Herörin og fleiri sögur, til þess að lesendur megi væntra margra góðra verka af hendi Ólafs Gunnarssonar á komandi árum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?
Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“