fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Ævar Þór um galdurinn að skrifa bækur – ,,Ég hef stundum líkt þessu við hamar”

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 16. október 2023 18:00

Ævar Þór Benediktsson Mynd: Einar Ingvarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Krakkar eru miklu klárari en við fullorðna fólkið viljum að þau séu. Þau vita hvað þau vilja og þau vita svo sannarlega hvað þau vilja ekki, þannig að þau eru dugleg að láta mann vita – sem eru forréttindi,” segir barnabókahöfundurinn ástsæli Ævar Þór Benediktsson aðspurður um hvernig gagnrýnendur börn séu.

,,Mér finnst mjög mikilvægt að vera í góðu sambandi við lesendahópinn og viðtökurnar hafa alltaf verið góðar,” segir Ævar Þór, en um helgina var fullt hús í útgáfuhófi bókar hans, Skólaslit 2: Dauð viðvörun. Bókin er 33. bók Ævars Þórs. „Skólaslit 2 er sjálfstætt framhald af yndislega ógeðslegu uppvakninga-hrollvekjunni Skólaslit sem kom út í fyrra.“ 

Næstum því sönn saga um strandaglópinn afa Ævars Þórs

Bókin Strandaglópar! er jafnframt nýkomin út en hún var fyrst gefin út í Bandaríkjunum af Barefoot Books en þau báðu Ævar Þór að skrifa bókina til að fræða krakka um Surtsey. Bókin var valin ein besta barnabók ársins samkvæmt The Sunday Times.

,,Strandaglópar! er bók sem ég skrifaði upphaflega á ensku og kom út í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári. Það var virkilega áhugavert að setjast niður og skrifa á ensku, að ég tala nú ekki um að þýða svo sjálfan sig yfir á íslensku. Bókin er (næstum því) sönn saga af því þegar afi minn, Ævar Jóhannesson, heimsótti glænýja Surtsey með vini sínum til að taka ljósmyndir. Einhverra hluta vegna gleymdist að sækja þá félaga aftur í eyjuna og þeir eyddu nærri því þremur dögum á glóðvolgri Surtsey, með nánast engar vistir og í þunnum úlpum. Þeir þurftu að lúra við hraunstrauminn á nóttunni til að halda á sér hita og passa sig auðvitað á því að grillast ekki í leiðinni. Þetta er saga sem ég heillaðist af í ævisögunni hans afa fyrir mörgum árum og hef oft endursagt þegar ég ferðast erlendis og er að segja frá Íslandi og hvað landið okkar getur verið skrítið og skemmtilegt. Ég segi að bókin sé „(næstum því)“ sönn saga, því ég laumaði einu smáatriði inn í þessa ótrúlegu sögu sem er ósatt – og það er lesandans að fatta hvaða smáatriði það er. Þú ert stanslaust að rekast á nýja fáránlega atburði í sögunni sem þú hugsar með þér að hljóti að vera smáatriðið sem er ekki satt, þannig að það að lesa bókina verður leikur.“

Margverðlaunaður fyrir bækur sínar

Það eru ekki aðeins lesendur sem hafa tekið vel á móti bókum Ævars Þórs því gagnrýnendur hafa líka verið hrifnir og er hann margverðlaunaður fyrir bækur sínar. Fyrsta bókin í Þín eigin-bókaflokknum, Þín eigin þjóðsaga, hlaut Bókaverðlaun barnanna og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana sem besta íslenska barnabókin, Þitt eigið ævintýri var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Barnabókaverðlauna Reykjavíkur, og eftir Þinni eigin goðsögu var gerð vinsæl leiksýning. Vélmennaárásin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka og Risaeðlur í Reykjavík komst á blað bandarísku verðlaunanna DeBary‘s Children‘s Science Book Award, sem sérhæfa sig í vísindabókum fyrir börn. Hann hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir störf sín á degi íslenskrar tungu árið 2016 og var heiðraður af samtökum móðurmálskennara 2017 fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu. 

Það má því sannarlega segja að viðtökurnar hafi verið góðar allt frá byrjun, að undanskilinni fyrstu bókinni eins og Ævar Þór segir sjálfur: „Fyrsta bókin mín var smásagnasafn sem ég endaði á að gefa út sjálfur í gegnum bókaútgáfuna Nykur. Enginn vildi gefa hana út, þannig að ég ákvað bara að kýla á það sjálfur og lærði virkilega mikið af því. En það þýddi líka að þegar ég bankaði upp á með næstu hugmynd var ég með bók í höndunum, sem hjálpaði til. Það þýddi líka að einhvers staðar ofan í kjallara eru enn nokkrir óseldir kassar af bókinni góðu, þar sem maður sá um að geyma lagerinn líka. Þín eigin þjóðsaga var fyrsta bókin mín sem sló í gegn, og jú, vann Bókaverðlaun barnanna.“

Ævar Þór Benediktsson
Mynd: Gassi

Pressan á skrifum mest hjá honum sjálfum

Það er viðbúið að hjá jafn vinsælum og afkastamiklum höfundi sé pressa á að skrifa og gefa út bækur, en Ævar Þór segir hana mesta hjá sjálfum sér. „Alls ekki frá ritstjórunum mínum, en ég persónulega set pressu á sjálfan mig að skila helst nokkrum bókum á ári, og þá helst eins fjölbreyttum bókum og ég get mögulega skrifað. Ég geri þetta meðal annars til að búa til nýja lesendur, en líka til að fylgja eftir krökkunum sem byrjuðu að lesa bækurnar mínar þegar þau voru lítil og langar að halda áfram að lesa eitthvað eftir mig nú þegar þau eru orðin eldri. Í ár er ég til dæmis með léttlestrarbók sem kom í vor (Þín eigin saga: Veiðiferðin), myndríka bók byggð á sannri sögu í september (Strandaglópar!) og svo skáldsögu núna í október (Skólaslit 2). 

Ég er samt mjög meðvitaður um það að vera ekki að klína aldursviðmiðum á bækurnar mínar. Ef þú ert 15 ára og fílar stuttu bækurnar mínar er það frábært. Ef þú ert átta ára og elskar löngu ógeðslegu uppvakningasögurnar mínar er það líka æði. Lestu það sem þig langar til að lesa. Þetta er ekkert flóknara en það.“

En hvaðan koma hugmyndirnar að öllum bókunum?

„Hugmyndirnar koma úr öðrum bókum, bíómyndum, þáttum og tónlist. Og svo stundum koma þær bara. Það hefur eiginlega virkað best fyrir mig að setja mér dag sem ég þarf að skila af mér – þá hrekkur allt í gang. Ég set mér ekki markmið með blaðsíðu- eða orðafjölda, því þá mun ég aldrei ná því og eyði deginum í að vera stressaður yfir að vera ekki búinn að ná einhverjum ákveðnum kvóta sem enginn ákvað nema ég sjálfur. Ég hef prófað það og það virkar ekki fyrir mig. Mér finnst langbest að setjast niður á kaffihúsi, setja tónlist í eyrun og sjá hvað kemur. Stundum gerist ekkert og þá verður maður bara að sætta sig við það og láta það ekki lita næsta dag. Besta ráðið við ritstíflu finnst mér vera að fara í bókabúð og skoða hvað er nýtt og spennandi. Eða óspennandi – maður lærir líka helling af því.“

Ævar Þór útskrifaðist af leiklistarbraut Listaháskóla Íslands og segir námið þar nýtast honum vel við ritstörfin.

„Þau verkfæri sem ég fékk í hendurnar í leikaranáminu í LHÍ hafa nýst mér gríðarlega vel þegar kemur að skrifunum. Við eyddum fjórum árum í að stúdera persónur og leikrit og finna, það sem ég kalla, „lyklana“ sem höfundurinn hefur falið hér og þar í textanum. Þegar þú skrifar snýrðu bara hlutverkunum við; þú ert enn að búa til persónur og heiminn í kringum þær, nema núna ert það þú sem felur „lyklana“. Ég hef stundum líkt þessu við hamar; þetta er sama verkfærið – það er bara spurning hvernig þú ætlar að snúa því í dag.“

Það er þó fleira framundan hjá Ævari Þóri en bókaskrif, því sjónvarpsþáttaraðir eru líka í vinnslu. 
„Ég er nýbúinn að skrifa undir samning við Saga Film um skrif á nýrri sjónvarpsþáttaröð sem mun heita Martröð. Hún er ekki byggð á neinni bók, heldur glæný hugmynd sem ég hlakka virkilega til að takast á við. Svo er ég þessa dagana í miðjum tökum á seinni seríunni af glæpaseríunni Svörtu Söndum, sem fara í sýningu einhvern tímann á næsta ári á Stöð 2. Og nákvæmlega núna er nýr kafli af Skólaslitum 3 að birtast á www.skolaslit.is á hverjum virkum morgni fram að hrekkjavöku. Þannig að það er nóg að gera.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“