Lögreglan á Austurlandi greindi frá því á Facebook-síðu sinni fyrir stuttu að fortíð eins lögreglumanns embættisins hefði leitað hann uppi um nýliðna helgi. Þar var þó ekki um að ræða neitt sem kalla mætti slæmt að nokkru leyti, nema fólk hafi ekki smekk fyrir því sem viðkomandi lögreglumaður var að fást við í fortíðinni sem einn meðlima hljómsveitarinnar Gildran. Í færslunni segir svo frá:
„Öll eigum við okkar fortíð. Einnig lögreglumenn. Sú fortíð hefur nú leitað Þórhall Árnason aðalvarðstjóra á Eskifirði uppi og er vel. Þórhallur er sem sé meðlimur í hinni merku hljómsveit Gildrunni úr Mosfellsbæ, fjögurra manna hópi vaskra manna sem fór mikinn í tónleikahaldi um og eftir síðustu aldamót.
Fortíðin vitjaði Þórhalls um helgina þegar blásið var til tónleika í Hlégarði og aðrir tveir að minnsta kosti fyrirhugaðir á næstunni. Þá voru þeir félagar valdir bæjarlistamenn Mosfellsbæjar þetta árið.
Mynd segir meira en þúsund orð og fylgir því ein með hér að neðan. Þórhallur, okkar maður, annar frá hægri.“
Færslu Lögreglunnar á Austurlandi og meðfylgjandi mynd má sjá hér fyrir neðan.