fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Björn tekst á við tabú með auðmýkt – „Ég held að dauðinn sé afskaplega mikið feimnismál“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 2. október 2023 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég horfði í kringum mig og sá að það vantaði svona bók.  Mörgu tabúinu hefur verið rutt til hliðar seinni ár en enn er verk að vinna. Flestir eru sammála um að það að létta bannhelgi af fyrirbærum sem margir óttast getur hjálpað mörgum og er samfélögum oftast til bóta. Það var einhvern veginn no brainer þegar ég hafði hugsað dálítið út í það að dauðinn væri næstur á dagskrá,“

segir Björn Þorláksson rithöfundur og blaðamaður um hvar og hvernig hugmyndin kviknaði að bók hans, Dauðinn, sem er nýkomin út. 

Eins og nafnið gefur til kynna fjallar bókin í einum drætti um dauðann að sögn Björns. „Efnislegar hliðar aðallega. Með því á ég við að hún eltist ekki mikið við handanheimshugmyndir.“

Aðspurður um hvað hafi kallað á hann að skrifa þess bók, frekar en aðra segir hann það hafa verið „blöndu af persónulegri reynslu og ríkri þörf til að hjálpa fólki og gera samfélaginu gagn. Aðferð blaðamennskunnar var best til að skrifa þessa bók þannig að starfsferill minn og viðtalstækni nýttist mjög vel.“

Bókin Dauðinn byggir á rannsóknavinnu, viðtölum og ályktunum og reynir að kjarna viðkvæm mál sem hingað til hafa legið í þagnargildi.

Bókin var þó ekki skrifuð í einni svipan og tóku skrifin hátt í fjögur ár.  „Hvað varðar yfirleguna, stílinn og vandvirknina,  átti ég mjög erfitt með að sleppa þessum litla lófa í prentun. Efnið er svo viðkvæmt, mér fannst ég alltaf geta gert betur og sennilega eru flestar málsgreinar umritaðar eitt þúsund sinnum. Viðmælendur mínir áttu líka skilið að ég legði mig fram við að halda þeirra röddum sem fögrustum á lofti,“ segir Björn. 

Skrifin tóku sinn toll en voru gefandi á sama tíma

Auk þess að taka sinn tíma tóku skrifin einnig ákveðinn toll af rihöfundinum. „Skrifin tóku sinn toll en voru líka mjög gefandi þess á milli – eða kannski voru þau gefandi af því að þau tóku ákveðinn toll. Er það ekki bara eins með allt lífið? Því bók eins og þessi er aðallega um lífið þótt hún fjalli um dauðann, enda er dauðinn heilbrigður og eðlilegur partur af lífinu. Ef hann ber ekki óvænt að,“ segir Björn.

„Ég kiknaði stundum þegar ég hlustaði á fólkið miðla mér af reynslu sinni, en þótt einn snillingurinn segi í bókinni að ekkert sé ömurlegra en grenjandi prestur í útfararþjónustu, held ég að besta leiðin til að skilja þetta efni og miðla því áfram hafi falist í að berskjalda sig og leyfa sér að vera ein lítil og titrandi manneskja gagnvart þessu volduga fyrirbæri.“

Björn Þorláksson rithöfundur og blaðamaður
Mynd: Kaja Sigvalda

Þekkti fæsta viðmælendur fyrir skrifin

Viðmælendur Björns eru á aldrinum 30 – 90 ára og fæsta þeirra þekkti Björn fyrir bókarskrifin. „Mest er fjallað um ótímabæran dauða þótt öldrunardauða beri líka á góma. Mamma er einn viðmælandinn en fæsta þekkti ég fyrirfram,“ segir Björn. 

Segir hann viðmælendur hafa komið honum á óvart, þrátt fyrir áratugi reynslu í blaðamannastarfinu og samskipti og samtöl við fólk. 

„Það kom mér mest á óvart að fólk vill tala. Jafnvel alveg fram í andlátið. Fólk vill tala. Um eigin dauða og annarra. Jafnvel við ókunnugan blaðamann. Auðvitað eru þeir líka til sem ekki vilja ræða þessi mál en það er sjálfsagt að spyrja. Opna fyrir tjáningu ef fólk sem glímir við hugarangur og einsemd líður fyrir þögn í kringum það. En ég reikna með að mér hafi verið treyst sérstaklega fyrir því að vera góður hlustandi. Kannski hef ég notið fjögurra áratuga í starfi sem blaðamaður í þeim efnum. En ég held við getum flest verið blaðamenn eitt andartak og hlustað ef einhver vill ræða við okkur um dauðann.“

Afstaða fólks almennt til dauðans hefur löngum verið falinn og dauðinn og fyrirkomulag okkar hinstu farar úr þessum heimi eitthvað sem fólk forðast að ræða og skipuleggja, jafnvel við sína nánustu. Hvað finnst rithöfundinum um slíka afstöðu?

„Ég held að dauðinn sé afskaplega mikið feimnismál – nema þá tilteknar hliðar hans sem kannski geta orðið yfirborðskenndar. Gríðarlega margt öflugt og gott fagfólk sinnir dauðanum í dag á landinu og á mikið hrós skilið. En afstaða okkar sem einstaklinga til dauðans er í raun um margt á huldu, því aðeins ef einhver deyr eða lendir í lífshættu er eins og að við höfum leyfi til að ræða hugsanir okkar um dauðann. Bókin er vonandi leiðbeining um að þannig þarf það ekki að vera. Ég er kannski innblásinn af röddunum í bókinni en ég er svo eitt dæmi sé nefnt, farinn að hallast að því að foreldrar eigi að ræða dauðann hispurslaust við börnin sín – hvort sem eitthvað bjátar á eða ekki.“

Aðspurður um hvort Björn sé sjálfur búinn að ákveða eitthvað þegar kemur að eigin jarðarför, til dæmis hvaða uppáhaldslag/lög verði flutt við jarðarförina, hvaða kirkja eigi að jarða hann frá eða annað segir hann:

„Ég sveiflast til og frá og á það sammerkt með yndislegri manneskju sem ég ræddi við og hefur fylgt hundruðum Íslendinga yfir móðuna mikla vegna starfa hennar í heilbrigisstéttinni, að lagalistinn minn er alltaf að breytast! En það er nefnilega ansi gott ef fólk veit hvað það vill að skrifa það niður og koma því áfram, því lífi okkur getur lokið hvenær sem er og án nokkurs fyrirvara. Á að jarða mömmu í grænum kjól eða rauðum? Langbest að spyrja mömmu áður. En heilt yfir veit ég það eitt að ég veit ekki neitt. Og þannig nálgaðist ég efni bókarinnar, af mjög mikilli auðmýkt. Af viðtökum lesenda að dæma reyndist það ágæt aðferð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Perla leitaði sér aðstoðar sex árum eftir að dóttir hennar lést – „Endaði grátandi hjá heimilislækninum og sagði honum að ég gæti ekki meira“

Perla leitaði sér aðstoðar sex árum eftir að dóttir hennar lést – „Endaði grátandi hjá heimilislækninum og sagði honum að ég gæti ekki meira“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Deitið ætlaði að hafa hann að fífli – „Þessar stelpur héldu að ég væri vitlaus, sem ég er ekki“

Deitið ætlaði að hafa hann að fífli – „Þessar stelpur héldu að ég væri vitlaus, sem ég er ekki“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill birtir fyrstu paramyndirnar

Simmi Vill birtir fyrstu paramyndirnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fall norskrar konu á Austurlandi vekur mikla kátínu – „Skóladæmi um hvernig á að detta með mýkt“

Fall norskrar konu á Austurlandi vekur mikla kátínu – „Skóladæmi um hvernig á að detta með mýkt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Níu ára sambandi Alberts og Guðlaugar lokið

Níu ára sambandi Alberts og Guðlaugar lokið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Raunveruleikastjarnan Ingi segir varasamt að fara á stefnumót á Íslandi – „Eins og að taka þátt í rússneskri rúllettu“

Raunveruleikastjarnan Ingi segir varasamt að fara á stefnumót á Íslandi – „Eins og að taka þátt í rússneskri rúllettu“