Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segist, sem ung kona í stjórnmálum, fá spurningar frá fjölmiðlafólki sem karlar í sömu stöðu fengju aldrei. Þetta kemur fram í helgarviðtali Morgunblaðsins við Áslaugu Örnu þar sem ráðherrann fer yfir víðan völl.
„Ég var til dæmis í viðtali um daginn og þegar viðtalinu lauk spurði fréttamaðurinn hvort ég ætlaði ekki að fara að verða ólétt. Ég var svo hissa að ég kom varla upp orði og þá bætti hann því við að tíminn ynni ekki með mér. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að líkamsklukkan tifar en ég biðst undan því að fá ábendingar um það frá öðrum en mínum nánustu,“ segir Áslaug Arna í viðtalinu.
Hún segist hafa fengið ábendingar frá vinkonum sínum, bæði í gamni og alvöru, að möguleiki væri á að nota nýjustu tækni og vísindi til að láta frysta nokkur egg og eiga til góðar þegar rétta tækifærið gefst.
„Auðvitað hef ég hugsað út í að gera það en það hvort og þá hversu mikið ég opinbera slíkt ferli verð ég að fá að gera á mínum forsendum. Það eru spurningar um þessi viðkvæmu einkamál sem karlar fá síður en konur. Þeir fá meira svigrúm til að eiga sitt einkalíf á sama tíma og þeir byggja upp sinn stjórnmálaferil. Mér finnst mikilvægt að ég og aðrar konur fáum að eiga okkar einkalíf samhliða stjórnmálaferlinum því verstu skilaboðin eru þau að konur verði að velja á milli einkalífs og stjórnmála,“ segir ráðherrann.
Hún segist hafa helgað stjórnmálum öll sín fullorðinsár og hafi hvorki eignast maka né börn. „En ég á blessunarlega frábæran pabba og systkini og lítinn bróðurson sem býr í sama stigagangi og ég. Sá litli er það besta sem gerðist í persónulegu lífi mínu síðastliðið ár,“ segir Áslaug Arna einlæg.