Birgir Örn Steinarsson gaf í dag út lagið Má ég snúza meir? sem hann lýsir sem dansvænu 80’s skotnu skammdegispoppi, en lag og texti er eftir hann sjálfan auk þess sem hann spilar á gítar.
„Uppáhalds popplögin mín eru af einhverjum ástæðum öll í moll. Lög sem ná að kitla í manni danstaugina en snerta þó á sama tíma á einhverri af skuggahliðum tilverunnar í texta. Þetta lag birtist mér fyrst í formi tveggja hljóma sem ég fann strax að það væri einhver súrsætur galdur í. Það tók mig þó langan tíma, og nokkrar misvelheppnaðar demó tilraunir, að ná að fanga hann. Í dag grunar mig að þetta gæti vel verið eitt besta lag sem ég hef gert,” segir Birgir Örn, en lagið er það fyrsta sem hann vinnur alfarið á Akureyri.
Birgir Örn starfar sem sálfræðingur hjá Sálfræðiþjónustu Norðurlands, en hann er landsþekktur sem Biggi í Maus.
Hlusta má á lagið á Spotify.