Íbúð hjónanna Frosta Logasonar, fjölmiðlamanns, og Helgu Gabríelu Sigurðardóttur, matreiðslumanns, er komin á sölu. Um er að ræða 158,9 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi á Háaleitisbraut en ásett verð á íbúðina er 79.900.000 krónur. Mikið hefur verið í gangi hjá hjónunum síðustu misseri en í gær settu þau á fót nýja efnisveitu, Brotkast, sem vakið hefur töluverða athygli.
„Björt og vel skipulögð 4 herbergja íbúð á frábærum stað miðsvæðis í Reykjavík,“ segir í lýsingunni á íbúðinni en auk þess er vakin athygli á því að tveir bílskúrar fylgja eigninni. Þá eru þrjú svefnherbergi í íbúðinni og möguleiki á að bæta því fjórða við. Þar að auki er útsýnið úr íbúðinni sagt vera glæsilegt.
Myndir af íbúðinni má sjá hér fyrir neðan en fleiri myndir og nánari upplýsingar er að finna á Fasteignaleitinni, fasteignavef DV.