fbpx
Mánudagur 13.janúar 2025
Fókus

Þegar að skrattinn hljóp í guðsbörnin – Furðusagan af nunnunum sem mjálmuðu og bitu

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 20. janúar 2023 22:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn góðan veðurdag fyrir um 500 árum byrjaði nunna nokkur í stóru klaustri í Frakklandi að mjálma upp úr þurru.

Ekki leið á löngu þar til önnur tók undir með henni og áður en varði voru flestallar nunnurnar farnar að mjálma.

Nunnurnar mjálmuðu ekki allan sólarhringinn, þær mjálmuðu í nokkra klukkutíma á dag, tóku sér pásu eða borðuðu og fóru svo aftur að mjálma. Þess á milli höguðu þær sér fullkomlega eðlilega og mjálmaði enginn þeirra til dæmis á næturnar. Þá sváfu þær bara.

Mjálmuðu í takt

Það var jafnvel enn fleira furðulegt við þessa hegðun. Eins og fyrr segir var um stórt klaustur að ræða og nunnurnar dreifðar. En þær byrjuðu alltaf að mjálma á sömu sekúndunni, hættu á sömu sekúndunni og mjálmuðu meira að segja í takt.

Þær voru að gera nágranna sína vitlausa eftir nokkurra vikna mjálm og voru klagaðar til yfirvalda. Svo fór að hersveit var send í klaustrið og hýddu hermenn nokkrar nunnur til að koma með afgerandi hætti á framfæri hvað biði þeirra ef þær hættu ekki.

Þá fyrst hætti mjálmið.

Vistin í klaustrunum hefur örugglega verið mörgum nunnunum erfið.

Bitið barst út

Á svipuðum tíma tók nunna í þýsku klaustri upp á því að bíta hina nunnurnar og áður en nokkur vissi voru allar nunnurnar í klaustrinu farnar að bíta hverja aðra.

Ekki nóg með það því að þegar að fréttirnar af bitnunnunum fóru að berast út, byrjaði sama ástand í öðrum klaustrum. Og allt í einu voru nunnur bítandi glefsandi hver í aðra út um allt Þýskaland.

Það þurfti ekki að berja hinar bítandi nunnur til hlýðni því á endanum voru þær orðnar það sárar, blóðugar og þreyttar að þær einfaldlega hættu að bíta og fór að haga sér fullkomlega eðlilega aftur eftir nokkurra daga eða vikna bitveislu.

Líkt og stallsystur sínar í Frakklandi gátu þýsku nunnurnar enga skýringu gefið á athæfinu.

Stjórnlaust kattahatur

Bæði mjálmið og bitin vöktu ugg og talið nokkuð öruggt að nunnurnar hefðu verið andsetnar. Talið var öruggt að skrattinn sjálfur og árar hans komist inn í hin helgu hús og yfirtekið líkama kvennanna.

Mjálmið var talið sérlega skelfilegt þar sem Gregoríus IX páfi hafði gefið út fyrirskipun á þrettándu öld sem kvað á um að kettir væru útsendarar kölska og skyldi þeim útrýmt. Sérstaklega hataði páfi svarta ketti.

Þetta furðulega kattahatur páfans átti reyndar eftir að hafa víðtækar og skelfilega afleiðingar.

Kisum var safnað saman um alla Evrópu og þær pyntaðar og brenndar á báli. Í kjölfarið jókst músa- og rottugangur gríðarlega sem er helsta ástæðan fyrir feiknahraðri útbreiðslu svartadauða sem drap helming íbúa Evrópu.

Þessi hefði ekki átt séns á miðöldum. Reyndar er um að ræða kisu þeirrar er þessa grein ritar og stenst ekki mátið. Ekki sérlega ógnandi blessunin.

Af hverju?

En hver er skýringin á mjálmi og bitum í nunnuklaustrum?

Það eru til það margar heimildir um þessa atburði að sögurnar eru næsta víst sannar

Á miðöldum sendur foreldrar oft dætur sínar í klaustur og gátu ástæðurnar verið af ýmsum toga. Hvort sem um var að ræða fátækt, trúarhita eða eitthvað annað, fóru ekki allar stúlkurnar af frjálsum vilja.

Þær vissu mæta vel hvað þeirra biði ævina á enda; fátækt, erfiðisvinna, einangrun og líf án fjölskyldu, eiginmanns og barna.

Sumar stúlkurnar þurfti að bera, og jafnvel binda, til að koma þeim öskrandi inn í klaustrin.

Í dag hallast flestir, sem kynnt sér hafa málið, að um einhvers konar hópsefjun hafi verið að ræða. Stúlkurnar og konurnar voru fastar innan veggja klaustranna, söknuðu eflaust fjölskyldna sinna og daglegs lífs en sáu enga leið út. Þær gátu ekki einu sinni rætt líðan sína við einn né neinn.

Því hafi mjálmið og bitin verið þeirra leið til að losa um tilfinningar sínar og tjá reiði sína.

Það er í það minnsta líklegri skýring en að skrattinn hafi hlaupið í nunnur sér til skemmtunar. En hver veit?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvernig Helga Jean tókst raunverulega að breyta lífi sínu – „Það var það fyrsta sem ég gerði“

Hvernig Helga Jean tókst raunverulega að breyta lífi sínu – „Það var það fyrsta sem ég gerði“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jón Gnarr ekki sáttur við ættingja og vini – „Mér finnst þetta oft særandi og tillitslaust“

Jón Gnarr ekki sáttur við ættingja og vini – „Mér finnst þetta oft særandi og tillitslaust“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Brooke Shields segir að lýtalæknir hafi framkvæmt „bónus aðgerð“ á kynfærum hennar án samþykkis

Brooke Shields segir að lýtalæknir hafi framkvæmt „bónus aðgerð“ á kynfærum hennar án samþykkis
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stefanía segir það gefandi að syngja í jarðarförum – „Erfitt að sjá fólk sem manni þykir vænt um í sárum“

Stefanía segir það gefandi að syngja í jarðarförum – „Erfitt að sjá fólk sem manni þykir vænt um í sárum“