fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fókus

Klikkaði löggan eða var hið fullkomna morð framið? – Hver er sannleikurinn að baki hinni stórfurðulegu sögu tryggingasölumannsins?

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 13. janúar 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1931 bjó Skoti nokkur í Liverpool, maður að nafni William Wallace. Átti sá ekkert sameiginlegt með öllu karlmannlegri nafna sínum og landa sem Mel Gibson túlkaði svo eftirminnilega í kvikmyndinni Braveheart.

Nafni og samlandi Williams Wallace er öllu þekktari en okkar maður.

Nei, okkar William var langtum minna spennandi. Hann seldi tryggingar að atvinnu og hans einu baráttur fóru fram á skákborðinu. William var nefnilega afar áhugasamur skák, sem reyndar var hans eina áhugamál. 

William hafði starfað hjá sama tryggingafyrirtækinu í áratugi en aldrei verið sérlega farsæll sölumaður og hlaut til að mynda aldrei stöðuhækkun á ferli sínum. Hann þótti ekki mjög félagslyndur né áhugverður einstaklingur og voru einu kunningjar Williams skákfélagarnir í klúbbnum. 

Tryggingasölumaðurinn William Wallace á yngri árum.

R.M. Qualtrough

Eitt kvöldið mætti William í skákklúbb sinn eftir vinnu, eins og hans var vani nokkur kvöld í viku. Þar biðu hans skilaboð.

Karlmaður nokkur hafði hringt og kynnt sig sem R.M. Qualtrough og vildi sá hitta hann kvöldið eftir, nánar tiltekið klukkan 19:30, til að kaupa af honum veglega tryggingu.

Hafði hann gefið upp heimilisfang þar sem Qualtrough kvaðst mundu bíða komu Williams. 

Hvort að William okkar Wallace var ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni eða hvort þetta þóttu eðlileg vinnubrögð í tryggingabransanum árið 1931 vitum við ekki, en William steig upp í strætisvagn kvöldið eftir og hélt á fund Qualtrough. 

En heimilisfangið var falskt og hélt William því heim á leið, veltandi vöngum yfir hverjum hefði dottið þessi furðulegi hrekkur í hug. 

Heimili Wallace hjónanna.

Eiginkonan barin til dauða

Julia, eiginkona Williams til 16 ára, hafði lofað að halda matnum heitum á meðan maður hennar færi að landa samningnum.

En það var ekki heitur matur sem beið Williams.

Nei, heima beið hans lík Juliu og hafði hún verið barin til bana.

William hringdi umsvifalaust á lögregluna og sagði það augljóst að R.M. Qualtrough hefði lokkað hann út af heimilinu til að myrða konu hans. 

Lögregla spurði eðlilega hver Qualtrough væri? William vissi það ekki. Hvernig þekkti William fyrrnefndan Qualtrough? William varð að viðurkenna að hann þekkti hann ekki neitt. 

Hvers vegna hafði hann þá farið bæinn á enda að kvöldi til að hitta mann sem hann vissi ekki hver var? William játaði að hugsanlega hefði það ekki verið tiltakanlega skynsamlegt en á það bæri að líta að hann hefði ekki selt neinar tryggingar lengi og væri fjárhagslega illa staddur. 

William Wallace var því snarlega handtekinn og ákærður fyrir morð. 

Augljóst mál

Sagði saksóknari að R.M. Qualtrough væri enginn annar en William sjálfur. Hann hefði hringt í skákklúbbinn kvöldið áður til að búa til fjarvistarsönnun, lamið konu sína til bana kvöldið eftir og hoppað upp í strætó og rúntað um í 45 mínútur eða þar til hann kom heim og „fann“ konu sína myrta.

Julia Wallace.

Málið gat ekki verið einfaldara og það tók kviðdóm svo að segja enga stund að ákvarða William sekan um morð. 

Var hann dæmdur til hengingar fyrir glæp sinn. Aumingja William var miður sín, grét hástöfum og sór að hafa ekki skaðað Juliu sína, hvað þá myrt hana. 

Lögfræðingur Williams áfrýjaði dómnum þegar í stað og sem betur fer var áfrýjunardómstóllinn heldur gagnrýnni á kenningar lögreglu en kviðdómur hafði hafði verið. 

Það var of margt sem ekki gekk upp.

Eða ekki svo augljóst?

Í fyrsta lagi var starfsmaðurinn í skákklúbbnum, sá hinn sá og tók við skilaboðunum frá Qualtrough, alveg handviss um að röddin í símanum hefði ekki verið rödd William Wallace. Hafði William verið fastagestur til margra ára og sagðist starfsmaðurinn þekkja rödd Williams það vel að hann væri viss.

Í öðru lagi var líkið af Juliu Wallace alblóðugt og blóðslettur uppi um alla veggi en ekki einn einasta blóðdropa var að finna á William. 

Í þriðja lagi að hafði Julia tekið á móti sendingu og hafði sendillinn skráð móttöku sendingar fjórum mínútum eftir að strætisvagninn sem William sagðist hafa farið í á fundinn, var lagður af stað. 

Vitni höfðu enn fremur séð William leita að fundarstaðnum og hafði hann spurt þrjá einstaklinga til vegar, meira að segja lögreglumann. 

Lögreglu tókst að rekja símtalið til skákklúbbsins til þessa símaklefa.

William var 52 ára og hafði verið lungnaveikur til fjölda ára.

Ef William var sekur um morðið hafði lungnaveikur karlmaður á sextugsaldri barið konu sína til dauða, þvegið af sér blóðið, skipt um föt, hent morðvopninu og blóðugu fötunum og hlaupið eins og Ólympíumethafi Liverpool á enda og spjallað þar hinn rólegasti við fólk, meðal annars lögreglumann.

Allt á innan við tíu mínútum.

Fjöldi spurninga

Áfrýjunardómstóllinn sagðist ekki hlusta á slíka vitleysu. Dómarinn var harðorður, sagði lögreglu einfaldlega ekki hafa nennt að rannsaka málið og sýknaði William Wallace af öllum ákærum. 

Heilsa Williams hafði aldrei verið góð en hrakaði hratt eftir réttarhöldin og lést William Wallace tveimur árum síðar, aðeins 54 ára að aldri. 

Morðingi Juliu Wallace hefur aldrei fundist en málið heillar enn áhugafólk um glæpi.

Hver var R.M. Qualtrough í raun? Af hverju að gefa sér tíma í að útbúa slíka brellu til að lokka mann hennar að heiman? Og nafnið? Hefði ekki Smith eða Brown verið einfaldara? Hvaðan kom Qualtrough?

Hver hafði lagt í slíka skipulagningu til að myrða miðaldra húsmóður, sem aldrei er vitað til þess að hafi átt sökótt við nokkurn mann? 

Þar að auki var Julia myrt á sérlega grimmilegan hátt sem benti til persónulegs haturs morðingjans á henni. Eða William.Var það kannski ætlun morðingjans frá upphafi að William yrði hengdur fyrir morðið? Var William Wallace hið ætlaða fórnarlamb?

Ekkert fannst sem benti til þess að annaðhvort hjónanna hefði leitað út fyrir hjónasængina og væri afbrýðisemi því ástæða morðsins. 

Og þrátt fyrir að vera tryggingasölumaður hafði William aldrei keypt líftryggingu í nafni Juliu og græddi því ekki krónu á láti hennar. 

Hið fullkomna morð?

Öðru hverju hafa komið fram kenningar um morðið, til að mynda að fyrrverandi samstarfsmaður William hafi verið að verki en mörgum árum síðar viðurkenndi eiginkona hans að hann hefði komið alblóðugur heim þetta kvöld. 

En illa hefur gengið að finna sannanir á hendur samstarfsmanninum fyrrverandi. 

 Sú kenning sem heillar hvað flesta, tæpri öld eftir morðið, er að hinum heilsuveila og óáhugaverða tryggingasölumanni hafi tekist það sem marga dreymir um: 

Að fremja hið fullkomna morð. 

Glæpsagnahöfundurinn heimsþekkti, P.D. James var þess til að mynda fullviss, en hún eyddi fjölda ára í rannsókn á málinu.

Hinn heimsþekkti rithöfundur P.D: James eyddi fjölda ára í rannsókn málsins.

Þeir sem halda þeirri kenningu á lofti vilja meina að að eftir áratugi af leiðindum í vinnu og einkalífi hafi tryggingasölumaðurinn einfaldlega sprungið og tekið uppsafnaðan pirring sinn út aumingja Juliu. 

Hvað með aldur Juliu?

Það er enn eitt afar furðulegt við málið og það er aldur Juliu. Þegar farið var að kanna málið nánar kom í ljós að á hjúskaparvottorði þeirra hjóna frá árinu 1914 er Julia sögð 37 ára en grafsteini hennar er hún sögð 52 ára er hún lést, sem ekki er í samræmi við hjúskaparvottorðið.

Það er rétta er að Julia var 69 ára þegar hún lést en hafði falið sinn rétt aldur vandlega. Julia hafði eftir allt allt haft eitthvað að fela.

Hvort William vissi að kona hans var í raun ekki jafnaldra hans heldur honum 17 árum eldri er ekki vitað þar sem hann var látinn þegar að farið var að rýna í tölurnar.

Málið brennur enn á áhugafólki um sakamál.

En þrátt fyrir að sú kenning að um hið fullkomna morð sé að ræða sé óneitanlega spennandi hefur engum tekist að koma með trúverðugar skýringar á hvernig William fór að við verknaðinn, hver var vitorðsmaður hans og af hverju William Wallace virtist hreinlega deyja úr sorg tveimur árum eftir morðið á Juliu.

Eða dó hann kannski úr samviskubiti? 

Við munum því miður aldrei vita svarið. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað eru Bessastaðakökur?

Hvað eru Bessastaðakökur?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 6 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu