Dreymir þig um að búa í lítilli kósí íbúð í miðbæ Reykjavíkur? Hvað ætli slík eign kosti margar milljónir, er íbúðin gömul og „tilvalin fyrir handlagna„ (lesist: að hruni komin) eða er um splunkunýja eign að ræða í hverfi sem er í uppbyggingu?
Þetta eru fimm minnstu eignirnar í fermetrum talið sem eru í sölu í dag á fasteignavef DV.
Baldursgata 34 – Stærð 49,9 fm.
Verð 52.900.000 kr., byggt 2014
Tveggja herbergja íbúð á tveimur hæðum með tvennum svölum í fjöleignarhúsi með þremur íbúðum. Íbúðin skiptist í hol, eldhús, stofu og svefnherbergi, bæði með útgengi út á suðursvalir, öll framangreind rými eru parketlögð og baðherbergi. Nánari upplýsingar hér.
Lindargata 57 – Stærð 49 fm.
Verð 51.900.000 kr., byggt 1993
Íbúð í fjöleignarhúsi fyrir heldri borgara, 67 ára og eldri. Íbúðin skiptist í anddyri/gang, stofu, eldhús, svefnherbergi, baðherbergi og geymslu. Innangengt er fyrir íbúa hússins úr bílastæðahúsi borgarinnar við Vitatorg en þar eru 223 bílastæði. Hægt er að sækja um langtímastæði í bílahúsinu. Í húsinu er starfrækt félags- og tómstundastarf og hægt er að kaupa hádegismat alla daga og kaffiveitingar virka daga. Heimaþjónusta er veitt samkvæmt einstaklingsbundnu mati. Húsvörður er í húsinu, neyðarkallkerfi er í íbúðinni sem tengist stjórnstöð þjónustumiðstöðvarinnar en þar er sólarhringsvakt. Nánari upplýsingar hér.
Arnarhlíð 6 – 48,2 fm.
Verð 54.900.000 kr., byggt 2022
Splunkuný íbúð í Hlíðarendahverfinu, tilvalin fyrir áhangendur Vals enda örstutt á völlinn. Íbúðin skiptist í forstofu, eldhús, stofa/svefnrými er rúmgott opið rými við eldhús, þaðan er gengið út á suðvestur verönd sem eru timburlagðar og snúa í inngarð. Svefnrýmið er stúkað af með vegg, baðherbergi með tengi fyrir þvottavél og þurrkara. Sérgeymsla er í sameign í kjallara 7,3 fm. Bílastæði í bílageymslu fylgir íbúðinni. Nánari upplýsingar hér.
Hverfisgata 44 – Stærð 44,2 fm.
Verð 49.500.000 kr., byggt 2019
Nýleg íbúð í hjarta miðbæjarins á svokölluðum Brynjureit. Íbúðin skiptist í anddyri, eldhús, stofu/alrými með útgengi út á svalir og baðherbergi. Sérgeymsla 3,6 fm er í kjallara. Sameiginlegt þvottahús með aðgengi að þvottavélum og þurrkurum í eigu húsfélagsins. Aðkoma / inngangur er bæði frá Laugavegi og Hverfisgötu. Nánari upplýsingar hér.
Freyjugata 15 – 42,3 fm.
Verð 44.900.000 kr., byggt 1935
Einstök og mikið endurnýjuð eign. Íbúðin skiptist í anddyri, eldhús, stofu/borðstofu með útgengi, hjónaherbergi með baðkari og baðherbergi. Nánari upplýsingar hér.