Tiktokkarinn Ólafur Jóhann Steinsson hefur vakið nokkra athygli fyrir myndbönd sín þar sem hann ræðir stuttlega við fólk, einkum útlendinga, og spyr þá spjörunum úr. Í gær birti hann myndband sem tekið var upp í Toronto og hefur vakið nokkra athygli.
Ólafur spurði vegfarendur á Nathan Phillips torgi í miðborg Toronto hvort þeir hefðu heyrt um Ísland og hvað þeir vissu um landið. Lenti hann á manni að nafni Aidan Simardone, sem starfar sem innflytjendalögmaður og vissi bókstaflega allt um Ísland.
„Við erum bara komin í Útsvar hérna,“ sagði gáttaður Ólafur Jóhann á meðan Simardone lét töluna ganga.
Aidan birti sjálfur myndbandið á X síðunni sinni. „Loksins eru öll þessi ár af Wikipediu lestri að skila sér,“ sagði hann.
@olafurjohann123Smartest man in Canada
Í spjallþræðinum við myndbandið á Tiktok sagði Simardone að hann hafi verið heillaður af heiminum síðan hann var krakki og hafi lagt margar handahófskenndar staðreyndir um lönd á minnið, þar með talið um Ísland. Það sé ekkert slæmt að heimurinn fái að vita hversu mikill nörd hann sé.