Edda Lovísa, 22 ára, er dóttir leikarans Björgvins Franz Gíslasonar og barnabarn ástsælu leikkonunar og leikstjórans Eddu Björgvinsdóttur.
Hún var mjög virk á OnlyFans árið 2021 og kom sama ár fram í viðtölum hjá Eigin Konum, Heimildinni og Ísland í dag til að ræða um starf sitt á miðlinum.
Hún greinir frá því í Einkalífinu á Vísi að hún sé hætt á OnlyFans. Hún segir ástæðuna vera hótanir og að hún hafi farið yfir eigin mörk til að þéna meiri pening á síðunni.
„Þegar ég var nýbyrjuð þá var þetta allt svo spennandi. Það fylgdi þessu peningur og athygli og þetta var allt mjög heillandi. En því lengur sem maður er á þessu því dýpra sekkur maður einhvern veginn og maður fer að hætta að virða sín eigin mörk,“ sagði hún í Einkalífinu.
Hún sagði að framleiðslan á myndefni fyrir OnlyFans hafi verið farin að hafa áhrif á geðheilsu hennar. „Mig langaði ekki að gera þetta, en þurfti samt að borga leigu. Þá var þetta allt í einu orðið allt það sem fólk segir að þetta sé,“ sagði hún.
Edda var hætt að geta farið í miðbæ Reykjavíkur án þess að óttast um eigið öryggi vegna hótana frá karlmönnum um að beita hana ofbeldi. Hún greindi einnig frá því að hún hafi þurft að flytja eftir að áskrifandi hennar komst að því hvar hún ætti heima.
„Það var einn sem fann heimilisfangið mitt og sagði bara: „Ég veit hvar þú átt heima“ Mér fannst það mjög ógnvekjandi,“ sagði hún.