Linda Pétursdóttir lífsþjálfi og fyrrum Ungfrú Ísland og Ungfrú Heimur er komin með nýjan mann í líf sitt. Vísir greindi frá.
Sá heppni heitir Jaime og er spænskur, en parið kynntist í heimalandi hans.
Parið er nú statt á hóteli á spænsku eyjunni Formentera og hefur Linda deilt dvölinni með fylgjendum sínum á Instagram. Óhætt er að fullyrða að parið er yfirmáta ástfangið, enda svífur rómantíkin yfir færslunum með hjörtum og rómantískri tónlist.
Linda var búin að vera einhleyp í þrjú ár þegar hún sagði frá því í hlaðvarpsþætti sínum Lífið með Lindu Pé í desember í fyrra að hún hefði tekið meðvitaða ákvörðun um að opna fyrir ástina að nýju.
„Ég hef aldrei verið týpan sem er að flýta mér úr einu sambandi í annað. Ég tek mér yfirleitt langan tíma á milli sambanda og mér hefur alltaf þótt gott að vera ein með sjálfri mér. Ég er sjálfstæð og ég þarf ekki á karlmanni að halda fjárhagslega til að sjá fyrir mér á neinn hátt.“