Kanadíski rapparinn Tory Lanez var dæmdur í 10 ára fangelsi í gær fyrir að skjóta rapparann Megan Thee Stallion í fæturna þann 12. júlí árið 2020. Hafði saksóknari farið fram á 13 ára dóm. Fyrir dómsuppsögu fékk dómarinn allt að 70 bréf til stuðnings Lanez, þar á meðal eitt frá söngkonunni Iggy Azalea, sem bað um dóm sem myndi ekki eyðileggja líf Lanez.
Stallion, sem heitir réttu nafni Megan Jovon Ruth Pete, mætti ekki fyrir dóm til að gefa vitnisburð, en þess í stað las héraðssaksóknari Kathy Ta yfirlýsingu fyrir hennar hönd:
„Hann skaut mig ekki bara, hann gerði að athlægi að áfalli mínu. Hann reyndi að gera sig að fórnarlambi og ætlaði að eyðileggja persónu mína og sál mína. Í fyrstu reyndi hann að neita að skotárásin hafi nokkurn tíma átt sér stað. Síðan reyndi hann að kenna fyrrum besta vini mínum um hana. Í lygum sínum hefur hann kennt kerfinu um, kennt fjölmiðlum um og upp á síðkastið notar hann áfall í æsku til að verja sig og forðast sök,“ sagði Stellion, og endaði á að segja að Lanez yrði að „neyðast til að horfast í augu við allar afleiðingar svívirðilegra aðgerða sinna og mæta réttlæti.“
Verjendur Lanez óskuðu eftir skilorðsbundnum dómi og að Lanez yrði látinn gangast undir endurhæfingu til að takast á við áfengisneyslu sína.
Lanez hefur setið inni í tæpa átta mánuði eftir að hafa verið sakfelldur í desember fyrir þrjá ákæruliði: líkamsárás með hálfsjálfvirku skotvopni, að hafa hlaðið óskráð skotvopn í bifreið og að hleypa af skotvopni af stórfelldu gáleysi. Hafði hann óskað eftir nýju réttarhaldi en þeirri beiðni var hafnað í maí.
Skotárásin átti sér stað 12. júlí 2020 eftir að Stallion, fyrrum besti vinur hennar Kelsey Harris, Lanez og öryggisvörður hans yfirgáfu sundlaugapartý á heimili Kylie Jenner. Rifust Stallion og Lanez í bílnum á heimleið og endaði með að bílstjórinn stöðvaði bílinn til að hleypa Stallion út. Segir hún að Lanez hafi skotið nokkrum sinnum að fótum hennar þegar hún var komin úr bílnum og öskrað um leið „Dansaðu tík.“ Gekkst Stallion undir aðgerð þar sem brot af byssukúlum voru fjarlægð.
Lanez hélt alla tíð fram sakleysi sínu og fullyrti verjandi hans að það hefði verið Harris sem skaut Stallion.