Meðal hinna ýmsu rása á myndbandaveitunni Youtube er Reactistan. Á rásinni má sjá fólk sem býr í og á uppruna sinn að rekja til lítilla þorpa í dreifbýli Pakistan.
Í enskum skýringatexta með rásinni er fólkið yfirleitt kallað „tribal people“.
Á Reactistan má sjá myndbönd af fólkinu upplifa ýmis vestræn fyrirbrigði í fyrsta sinn, t.d. popplög, kvikmyndir og vestræn matvæli. Fyrir hálfu ári var birt myndband af fólkinu bragða í fyrsta sinn á ýmiss konar sælgæti frá Íslandi. Þótt myndbandið sé orðið þetta gamalt ætti það nú samt sem áður vonandi að vekja áhuga íslenskra lesenda.
Í upphafi myndbandsins er þátttakendum sagt frá að til sé land sem heitir Ísland og verður þá einum þeirra að orði að landið hljóti að vera jafn kalt og ísskápur.
Fram kemur að íslenskur aðdáandi rásarinnar, sem sagður er heita Baldvin Olsen (sem gæti þó verið notandanafn hans), hafi sent ýmis konar sælgæti frá Íslandi og óskað eftir að þátttakendur myndu bragða á því. Ein kona í hópnum vonaðist til þess að Baldvin myndi einhvern tímann koma og hitta þau og spjalla.
Fyrst prófaði fólkið Sambó þrist sem er súkkulaðihúðaður lakkrís sem flestir Íslendingar ættu að kannast við.
Þristurinn vakti mikla ánægju og hann minnti einn mann í hópnum á sælgæti sem hann þekkti betur, það sælgæti væri bragðbætt með broddkúmeni sem hann taldi sig finna bragð af í Þristinum.
Broddkúmen er krydd sem mun vera algengt í matargerð í Pakistan og fleiri löndum Austur-Asíu.
Þátttakendur voru einnig ánægðir með að Þristurinn væri ekki óheyrilega klístraður og festist því síður í tönnum þeirra.
Einn í hópnum sagðist myndu vilja kaupa Þrist fyrir börnin sín en borða hann síðan sjálfur.
Gammeldags Lakrids, sem eins og Þristur er framleitt af sælgætisgerðinni Kólus og er íslensk vara þótt nafnið sé danskt, var næst á dagskrá smökkunarinnar.
Einum manninum í hópnum þótti lakkrísinn minna á víra í útliti.
Annar fann bragð af Broddkúmeni. Konurnar í hópnum fundu líka bragð af því og annarri fannst þess vegna bragðið vera full súrt fyrir sinn smekk.
Skiptari skoðanir voru á Gammeldags Lakrids en Þristi. Einum manni fannst varan ekki góð en annar var ósammála.
Á milli smakkana fékk hópurinn að vita ýmsar staðreyndir um Ísland. Þar á meðal að hér væri mikið af jöklum en ein konan sagðist aldrei hafa séð snjó nema í kvikmyndum.
Þriðja tegundin sem fólkið bragðaði á voru karamellur frá sælgætisgerðinni Góu.
Flest þeirra höfðu án efa bragðað karamellur áður og raunar minntu karamellurnar eina konuna á sælgæti sem hún hafði bragðað áður.
Ein konan í hópnum sagði að hún fyndi brunabragð af karamellunum frá Góu.
Einn maðurinn var hins vegar ánægðari og vildi hafa pakka af þeim með sér heim.
Eftir þessa þriðja smökkun var hópnum tjáð að lakkrís væri mjög vinsæll meðal Íslendinga en einum manni þótti líklegt að lakkrísrót hlyti að vaxa á trjám hér á landi.
Fjórða sælgætið sem hópurinn bragðaði á var Lindubuff en ekki vildi betur til en svo að það var allt klesst eftir flutninginn frá Íslandi. Var þá gripið til þess ráðs að borða það með skeið.
Svona klesst þótti Lindubuff minna á smjör. Einum þátttakandanum líkaði bragðið mjög vel og sagði Lindubuffið það besta af sælgætistegundunum sem hópurinn hafði smakkað og sessunautur hans tók undir það.
Annar sagði að betra hefði verið að fá Lindubuffið í betra ásigkomulagi en það væri samt frábært.
Hópurinn prófaði að lokum íssósuna Ísing, sem harðnar eftir að henni er helt yfir ís, og Hnetutoppskurl frá Emmessís.
Hópurinn borðaði báðar vörurnar með ís.
Einum þátttakanda þótti kurlið full hart til að borða með ís.
Ísing vakti hins vegar mikla lukku í hópnum. Einn maðurinn í hópnum sagði bragðið vera „mind-blowing“ sem samkvæmt Google þýðist sem magnað á íslensku
Ein konan sagði að hún teldi ís góðan fyrir heilsuna þótt að öðru væri haldið fram.
Hópurinn var að lokum mjög þakklátur fyrir sendinguna og að fá tækifæri til að bragða íslenskt sælgæti í fyrsta sinn.
Myndbandið má sjá hér að neðan: