Tónlistarkonan Lizzo hefur undanfarin ár sett mark sitt á tónlistarsenu Bandaríkjanna og einnig hefur hún verið ötul talskona líkamsvirðingar og hefur þótt mikil fyrirmynd. Þessari ímynd hennar var þó snúið á haus þegar dansarar hennar stigu fram og sökuðu hana um kynferðislega áreitni.
Um er að ræða þrjár konur sem störfuðu fyrir Lizzo sem dansarar, en þær hafa ákveðið að stefna tónlistarkonunni fyrir að hafa alið á eitraðri vinnustaðamenningu og fyrir að hafa staðið fyrir kynferðislega áreitni. Þær Arianna Davis, Crystal Williams og Noelle Rodriguez, segjast hafa orðið fyrir áreitni sökum kynferðis, trúar, kynþáttar og fötlunar. Þær hafi orðið fyrir ofbeldi, verið frelsissviptar og svona mætti áfram telja. Þetta hafi bæði Lizzo og útgefandi hennar stundað.
Davis heldur því meðal annars fram að Lizzo hafi beitt hana þvingunum, svo sem með því að neyða hana til að snerta nakta dansara á kynlífssýningu í rauða hverfinu í Amsterdam. Lizzo hafi ekki leyft dönsuðum að velja hvort þeir kærðu sig um að mæta á nektarstaði, allir hafi verið skyldugir til að mæta. Þegar Davis hafi þyngst hafi Lizzo sérstaklega vakið athygli á því og gefið til kynna að þyngdaraukning þýddi að Davis væri ekki að helga sig starfi sínu. Hópstjóri á vegum Lizzu hafi einnig verið með kristilegan áróður og verið óþægilega upptekinn af þeirri staðreynd að Davis hafi ekki verið karlmann kennd.
„Var ég þvinguð til að snerta nektardansara? Já. Var ég dregin inn á persónulegan fund þar sem ég var nánast yfirheyrð um málefni sem varða mig persónulega og neyddist við þetta tilefni til að deila mjög persónulegum hlutum um sjálfa mig hvað þyngd mína varðar? Já. Það sem ég meina er að listinn er langur. Við vorum þingaðar til að taka þátt í óbærilega löngum æfingum sem breyttust svo yfir í eins konar próf svo við fengjum að halda starfinu okkar, því við vorum samkvæmt henni ekki að standa okkur. Þetta er satt.“
Lizzo rauf svo þögnina í gær og svaraði fyrir sig og sagði undanfarna daga hafa verið átakanlega og hún sé að upplifa yfirþyrmandi vonbrigði.
„Vinnusiðferði mitt, gildismat og virðing hafa verið dregin í svaðið og vegið hefur verið að persónu minni. Vanalega kýs ég að svara ekki svona fölskum ásökunum en þessar eru jafn ótrúverðugar og þær hljóma, en eru þar að auki of yfirgengilegar til að þeim sé ekki svarað. Þessar æsifréttir eru að koma frá fyrrum starfsmönnum sem hafa nú þegar gengist við því opinberlega að hafa verið ávíttar fyrir óviðeigandi og ófaglega framkomu á tónleikaferðalagi mínu.
Sem listamaður hef ég alltaf haft ástríðu fyrir því sem ég geri. Ég tek tónlistina mína og flutning minn alvarlega því í lok dagsins þá vil ég aðeins senda frá mér bestu listina til að endurspegla bæði mig og aðdáendur mína. Ástríðu fylgir erfiðisvinna og miklar kröfur. Stundum þarf ég að taka erfiðar ákvarðanir en það er aldrei ætlun mín að láta einhverjum líða illa eða eins og þeir séu ekki metnir sem mikilvægur hluti af teyminu.
Ég er ekki hér til að spila mig sem eitthvert fórnarlamb, en ég veit á sama tíma að ég er ekki illmennið sem fólk og fjölmiðlar eru að láta mig líta út fyrir að vera þessa daganna. Ég er mjög opin með kynvitund mína og hvernig ég tjái mig en ég get ekki látið það viðgangast eða leyft fólki að nota það til að láta mig líta út fyrir að vera eitthvað sem ég er ekki. Það er ekkert sem ég tek meira alvarlega en þá virðingu sem við eigum skilið sem konur í heiminum. Ég veit hvernig það er að verða fyrir fitusmánun daglega og myndi aldrei nokkurn tímann gagnrýna eða reka starfsmann út af þyngd hans. Ég er sár en ég mun ekki leyfa þessu að bregða mér brigslum. Ég vil þakka þeim sem hafa send mér stuðning til að stappa í mig stálinu á þessum erfiðu tímum.“
Dansararnir þrír hafa nú brugðist við þessu svari tónlistarkonuna og segja svarið ekkert annað en gaslýsingu.
„Hún gengst ekki beint við nokkru því sem við höfum haldið fram í málinu. Og fyrir mér, að hafa fengið þetta svar, það bara undirstrikar þetta mynstur að í hvert sinn sem við berum eitthvað vandamál á borð, í hvert sinn sem við stöndum upp fyrir okkur sjálfum, þá er okkur mætt með hefndaraðgerðum frekar en að upplifun okkar sé viðurkennd.“
Lizzo hefði getað viðurkennt upplifun þeirra þó hún væri ósammála þeim. Hún hefði getað skýrt út ef um misskilning var að ræða og reynt að skilja hvaðan þær eru að koma. Þetta hafi hún ekki gert.
„Við verðum fyrir stöðugri gaslýsingu og hún er alltaf að drepa málinu á dreif. Þetta sannar bara það sem við erum að segja.“
Lögmaður þremenningana, Ron Zambrano, segir í samtali við ET að í yfirlýsingu Lizzo megi bæði finna opinbera játningu á brotunum sem og misheppnaða málsvörn.
„Hluti af yfirlýsingunni var: Þið vitið að ég er mjög opin með kynvitund mína“ sem mér fannst vera skrítið orðalag þegar maður er að tala um ásakanir sem varða grófa kynferðislega háttsemi. Svo það er eins og hún sé að segja: Hlustið, ég er kynvera og ég sagði ykkur það svo þið verðið bara að sætta ykkur við þetta. Þetta er allt um hana. Og mér finnst þetta misheppnað því hún hafði þarna færi á að segja – Vörumerki mitt snýst um að samþykkja alla og um samkennd, og ég hef samkennd með tilfinningum þessara kvenna jafnvel þó ég hafi upplifað sömu atvik með öðrum hætti.“
Davis segir að þremenningarnir hafi allt sitt líf unnið að því að verða atvinnudansarar. Þær hafi æft líkt og afreksíþróttafólk en á sama tíma hafi þær haft frelsið til að vera skapandi. Svo hafi þær endaði í þessum bransa þar sem stefnan sé að fólk eigi ekki að vera borgað fyrir það sem það gerir.
„Þetta er erfitt. Við berjumst um hnakka og hæl bara til að fá borgað. Þetta er í alvörunni eitthvað sem viðgengst. Svo ímyndaðu þér það og svo til viðbótar að vera settur í þessar aðstæður þar sem fyrirmyndin þín, eða einhver sem þú lítur upp til, er síðan ekki sú sem hún sagðist vera. Engu að síður er litið á hana sem hetju en þú veist að þetta er bara uppgerð.“
Lögmaður Lizzo hefur grafið upp upptöku þar sem Davis mærir tónlistarkonuna af miklum móð. Hún kalli hana drottningu og ausi yfir hana hrósi.
„Þetta hljóma ekki eins og orð manneskju sem hefur orðið fyrir áreitni eða fordómum af hendi manneskju sem hún lýsir sem drottningu. Sagt er að mynd sé meira virði en þúsund orð og hér er myndband sem sýnir að það stendur ekki steinn yfir stein í þessu máli. Við erum örugg um að Lizzo verði hreinsuð af allri sök í þessu máli.“