Litlu mátti muna þegar leikarinn Bowen Yang var staddur hér á Íslandi nýlega við tökur á þáttunum Awkwafina is Nora From Queens. Leikarinn, sem hefur gert garðinn frægan í skemmtiþáttunum Saturday Night Live, segist hafa horft í augu við manninn með ljáinn og sé heppinn að vera enn á lífi.
Hann opnaði sig um þessa reynslu í hlaðvarpinu sínu Las Culturista. Hann hafði skellt sér, líkt og margir ferðamenn gera hér á landi, á hestbak.
„Það er í rauninni ekkert, alls ekkert, gaman að vera á hestbaki. Ég hef áður setið hest fyrir framan myndavélarnar, en vitið þið hvað? Þetta tökulið, og ég elska tökuliðið, en þetta lið ákvað að hafa dróna, og auðvitað vissi hesturinn ekkert hvað í fjandanum þetta væri, og þá dó ég næstum. Var ég ekki búinn að segja þér frá þessu? Ég dó næstum á Íslandi.“
Yang útskýrði að blessuðu hrossinu hafi hreint ekkert litist á blikuna þegar myndavéladróni fór að svífa nærri honum. „Hestarnir fældust og við það datt ég næstum af baki. Honum tókst næstum að kasta mér af sér og það var einhver partur af mér sem hugsaði – Þetta er fín leið til að deyja.“
Þættirnir Nora From Queens fjalla um konu á þrítugsaldri sem ætlar að lifa lífinu til fulls en þarf þó eins og annað ungt fólk að finna fótanna í hröðum heimi hinna fullorðnu. Aðalpersónan, Nora, ferðast ´þriðju þáttaröð til Íslands með vini sínum Edmund, sem er leikinn af Yang. Þar ætlar Edmund að finna rætur sína, en í þessari leit kynnast Nora og Edmund íslenskri menningu með aðstoð frá leiðsögumanni sem segir þeim allt um álfa og hjálpar þeim að kaupa íslenska lopapeysu.
Yang hélt áfram og sagði að lífsháskinn á hestbaki hafi ekki verið það eina vandræðalega sem hann upplifði á ferðalagi sínu, því hann lenti í þeirri algengu, en neyðarlegu uppákomu, að ganga út af salerni eftir góða heimsókn þangað og uppgötva sér til skelfingar síðar að hann var með notaðan klósettpappír fastan við annan skóinn sinn. Og það sem verra var, hann var seinastur á vettvangi til að taka eftir því.