fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

90210-leikkona staurblönk í húsnæðishrakningum – Þurfti að flýja heimili sitt með 5 börnum og dvelur í hjólhýsi

Fókus
Fimmtudaginn 3. ágúst 2023 11:48

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikkonan Tori Spelling, sem gerði garðinn frægan í unglingaþáttunum Beverly Hills 90210 skömmu fyrir aldamótin, er á hrakningum þessa daganna eftir að mygla fannst á heimili hennar. DailyMail greinir frá því að leikkonan dvelur sem stendur í hjólhýsi með fimm börnum sínum sem eru á aldrinum 6-16 ára, en fjölskyldan hafði áður dvalið skamma stund á ódýru móteli í nágrenninu.

Sést hefur til fjölskyldunnar sitja fyrir utan hjólhýsið og horfa á sólina setjast. Höfðu þau allt það helsta sem þarf til útilegu, kælitösku, ferðagrill, útileguborð og stórt útiteppi. Höfðu þau komið upp þvottasnúru þar sem þau lögðu föt sín til þerris. Börnin virtust hafa það gott og nýttu tækifærið til að rölta um nágrennið þar til lögregla hafði afskipti af þeim þar sem þau voru að leik á hættulegu svæði. Á meðan eldaði móðir þeirra mat og fóru þau síðar öll saman í gönguferð um ströndina.

Daginn eftir sást til Tori í lágvöruversluninni Walmart að kaupa í matinn.

Ert þú foreldri?

Tori er skilin að borði og sæng, en eiginmaður hennar Dean McDermott tilkynnti í júní að hann væri farinn frá henni. Hann var því eðlilega ekki með fjölskyldu sinni í útilegunni. Mun leikkonan vera í leit að nýju heimili þar sem hús hennar sé óíbúðarhæft sökum mygluvanda. Hefur það vakið athygli fjölmiðla að Tori hafi annars vegar leitað á frekar ódýrt mótel og því næst í hjólhýsi en slíkt sé fátítt hjá hinum ríki og frægu sem í þessum aðstæðum hefðu fundið sér tímabundið leiguhúsnæði eða dvalið á fimm stjörnu hóteli. Áður en þau færðu sig í hjólhýsið vörðu þau nokkrum dögum heima hjá vinafólki. Vék einn paparassa ljósmyndari sér að leikkonunni og spurði hvers vegna hún hefði ákveðið að dvelja á móteli og við það byrsti leikkonan sig og svaraði: „Ert þú foreldri? Þú veist að maður gerir hvað sem er fyrir börnin sín, er það ekki?“

Viku eftir þessi ummæli birti leikkonan samskipti sem hún hafði átt við fasteignasala sem hafi hæðst að húsnæðishrakningum hennar. Hann hafi kallað aðstæður leikkonunnar „skondnar“ og sagt að það væri „furðulegt“ að hún væri í leit að húsnæði sem hún gæti leigt í einn mánuð. Tori sagði ljóst að þessum manni skorti með öllu samkennd og mannúð.

„Börnin mín fimm eru að takast á við eitrun vegna myglu og við þurfum heimili og þú ákveður að koma svona fram við okkur? Hæðast að aðstæðunum?“

Tori opnaði sig fyrst um mygluna í maí og sagði að bæði hún og börnin hefðu glímt við veikindi sökum myglunnar. Húsið hafi hægt og bítandi verið að ganga að þeim dauðum yfir þriggja ára tímabil.

Staurblönk og skuldug

Tori Spelling er ekki bara leikkona heldur er hún einnig raunveruleikastjarna og faðir hennar var gífurlega þekktur framleiðandi í Hollywood sem skildi eftir sig umtalsverðar eignir þegar hann lést. Sökum þess að í Bandaríkjunum hafa einstaklingar meira frelsi til að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá heldur en við þekkjum hér á Íslandi, þá hafði faðir Tori ákveðið að skilja lítið sem ekkert eftir fyrir börn sín og barnabörn, og fékk eiginkona hans nánast allan arfinn, en eins runnu lægri fjárhæðir til ýmissa fjölskyldumeðlima, starfsmanna, kollega og fleiri. Faðir Tori ákvað að tryggja að farið yrði að vilja hans með því að setja sérstakt ákvæði í erfðaskránna, en samkvæmt því þá missir erfingi rétt sinn til arfs ef hann reynir að höfða mál til ógildingar á erfðaskránni eða reynir með öðrum hætti að heimta meira úr dánarbúinu en honum var ætlað.

Tori hefur einnig staðið í stappi við hið opinbera vegna ógreiddra skatta og eins mun hún hafa safnað að sér um 12 milljón króna kreditkortaskuld. Því litla sem Tori erfði eftir föður sinn var hún fljót að eyða. Hún greindi frá því opinberlega árið 2013 að hún væri blönk, hún hefði sólundað hverri krónu sem hún hafði aflað og væri komin í þá stöðu að þurfa að fá lánaðan pening frá móður sinni til að borga leigu og til að eiga fyrir útgjöldum vegna heilsubrests eiginmannsins. Hún hafi ráðist í óskynsamlegar fjárfestingar á fasteignamarkaði þar sem hún tapaði miklu og eins hafi hún fjármagnað íburðarmikinn lífstíl fjölskyldunnar. Hún hefði einhverjar tekjur en þær væru minniháttar.

Árið 2017 var eiginmanni Tori, Dean, stefnt af fyrrverandi eiginkonu sinni eftir að hann hætti að greiða henni makalífeyri. Samkvæmt gögnum í því máli kom fram að Dean héldi því fram að hann væri blankur en á sama tíma hafi hann á aðeins sex vikna tímabili farið í tvær lúxusferðir, annars vegar til Íslands og hins vegar til Punkta Mita. Hann væri búsetur í húsnæði sem tengdamóðir hans borgaði fyrir og hefði engan hvata til að afla sér tekna, en fyrrverandi kona hans taldi það viljaverk svo hann þyrfti ekki borga henni. Á sama tíma væri hann að vanrækja skyldur á borð við að greiða fyrir háskólamenntun sonar þeirra og sálfræðimeðferð, en væri svo á sama tíma að versla sér dýra merkjavöru og halda íburðarmikil partý fyrir hin börnin sín.

Tori hefur undanfarið reynt að gerast áhrifavaldur í von um að fá aftur inn tekjuflæði. Það hefur þó enn ekki borið árangur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 19 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?