Reykjavík er í fimmta sæti á lista yfir þá ferðamannastaði í Evrópu sem eru yfirfullir af ferðamönnum. Það er vefsíðan Holidu.com sem tók saman lista tíu ferðamannastaða, en Holidu er leitarsíða yfir gististaði víðs vegar um heimsálfuna.
Segir um listann að ferðamenn hafi mismunandi forsendur þegar þeir leiti að besta áfangastaðnum fyrir frí sitt, mikill fjöldi ferðamanna á ákveðnum stöðum geti hins vegar gert það að verkum að ferðamenn hreinlega missi af ákveðinni upplifun og skemmtun.
Reykjavík er í fimmta sæti listans og segir um valið að Ísland sé þekktast fyrir einstakt landslag. Höfuðborgin laði frekar að sér gesti sem sækja í líflegt næturlíf og litríkar tónlistarhátíðir. Komið er inn á að borgin sé þrátt fyrir að vera búsett aðeins um 122 þúsund íbúum sé hún yfirfull af ferðamönnum á háannatíma sumarsins frá júní til ágúst. Megi það meðal annars rekja til milts loftslags og góðra birtuskilyrða á þessum árstíma. Vilji ferðamenn forðast mikinn mannfjölda sé betra að heimsækja borgina í maí og september.
Í fjórða sæti á listanum er gríska eyjan Rhodos þar sem búa um 115 þúsund manns. Fornar rústir eyjunnar og fallegar strendur valdi því að hlutfall ferðamanna er 20,9 á hvern íbúa. Hentugra sé að koma snemma að vori, apríl til maí, vilji menn mæta á fámennari ferðamannatíma. Síðastliðna viku hafa skógareldar geisað á Rhodos, og fjölmörg flugfélög aflýst ferðum þangað, en tómum flugvélum hefur verið flogið til eyjunnar til að ferja ferðamenn og íbúa þaðan.
Belgíska borgin Brugge er í þriðja sæti. Íbúar eru um 118 þúsund, en ferðamenn eru 21,1 ferðamaður á hvern íbúa. Borgin er sérstaklega fjölmenn frá lok maí og það er miðaldaarkitektúrinn og falleg síki sem heilli ferðamenn á öllum aldri. Borgin er einnig á heimsminjaskrá UNESCO. Ferðamenn eru færri í byrjun maí og í september.
Ítalska borgin Feneyjar nýtur mikilla vinsælda, en hún er í öðru sæti. Þröngar göturnar og kláfar í gegnum síkin gera borgina að töfrandi stað. Hlutfall ferðamanna er 21,3 á hvern íbúa. Í ágúst 2021 voru ferðir stórra skemmtiferðaskipa til borgarinnar bannaðar, en Cruise Line Industry Association (CLIA) hafði í áratug óskað eftir að færa komustað skemmtiferðaskipa frá Feneyjarlóninu. Bannið er því fyrst og fremst sett til að vernda ásýnd borgarinnar og lónið sjálft. Í síðasta lagi á næsta ári munu ferðamenn sem heimsækja borgina aðeins einn dag þurfa að greiða sérstakt komugjald. Holidu mælir með að heimsækja borgina á tímabilinu september til nóvember vilji ferðamenn forðast mesta mannfjöldann, að auki eigi heimsóknin að taka lágmark 2-3 nætur.
Króatíska borgin Dubrovnik situr í fyrsta sæti listans. Sögusvið borgarinnar í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones jók á vinsældir hennar sem ferðamannastaðar. Þar búa aðeins um 41 þúsund manns og er hlutfallið 36 ferðamenn á hvern íbúa. Borgin er yfirfull af ferðamönnum í júlí og ágúst, og er boðið upp á sérstakar Game of Thrones borgarferðir. Holidu mælir með heimsókn í maíbyrjun eða frá miðjum september fram í miðjan október, á þeim tíma sé minna um ferðamenn.