fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Töffarinn Auður kemst við og fær gæsahúð þegar hún ræðir um ástríðuna sem hefur fært henni hina hverfulu hamingju

Fókus
Mánudaginn 24. júlí 2023 18:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Auður Ingibjörg Ottesen er með litríkari og skemmtilegri karakterum landsins. Hún er, að eigin sögn, algjör jaxl, þrjósk, skapandi, drífandi, jafnréttissinni og hefur alltaf farið sínar leiðir í lífinu. Hún hefur til dæmis unnið við bátasmíði, lært húsgagnasmíði og var einu sinni maóisti þangað til hún áttaði sig á því að þetta væri eiginlega allt bara heilaþvottur, en þá hætti hún. Síðustu áratugina hafa grænu málin átt hug hennar allan og hefur Auður einbeitt sér að þeim og garðyrkju. Hún hefur um árabil gefið út tímaritið Sumarhúsið og garðurinn, sem margir kannast við. Hún er nýjasti gesturinn í þættinum Kalda pottinum frá sviðinu á Gömlu Borg í Grímsnesi, en þar spjallar hún við Mumma Þórarinsson um líf sitt og dregur þar ekkert undan.

Til marks um hvað grænu málin eru Auði hugleikin þá lyftist hún öll upp og ástríðan leynir sér ekki þegar rætt er um grenndargarða. Grenndargarðar eru svæði sem gjarnan eru skipulögð af yfirvöldum þar sem fólk getur ræktað sér mat. Oft er um stórt svæði að ræða sem hlutað er niður í fjölda hluta sem einstaklingar geta svo tekið að leigu fyrir rækt sína.

Hún hefur tekið þátt í slíkum görðum í bæði Reykjavík og á Selfossi. Þegar hún flutti á Selfoss fyrir rúmum áratug reyndi hún að leita til sveitarstjórnar eftir því að komið yrði á fót grenndargarð. Ekki mætti hún miklum skilningi þar. Svo styttist í sveitarstjórnarkosningar og ákvað hún að taka málið aftur upp og þá gekk það eftir. Hefur verið grenndargarður á Selfossi síðan fyrir alla íbúa Árborgar gegn vægu gjaldi. Auður hefur umsjón með því í sjálfboðastarfi og eins hefur verið á stað sem kallast Alviðra og er umhverfisfræðslusetur Landverndar.

Hún segir að í kringum þetta hafi myndast yndislegt samfélag þeirra sem brenna fyrir garðrækt. Sjálf gerði hún tilraunir með hvernig þetta gæti gengið fyrir börn og komst að því að eftir 10 ára aldurinn dregur töluvert úr áhuganum. En fyrir börn á aldrinum 6-10 sem og fullorðna er þetta upplagt.

Trúði ekki að hún væri að upplifa þetta

Auður segir það hafa verið mikið gæfuspor í lífinu þegar henni bauðst að fara á ráðstefnu um grenndargarða á Ítalíu.

„Og svo fékk ég tækifæri á að fara til Rómar, á ráðstefnu sem var EINGÖNGU um grenndargarða. Og ég var bara alltaf að klípa mig þarna og hugsaði: Er þetta í alvörunni að gerast, að ég er hérna bara með hinum nördunum?“

Um hafi verið að ræða verkefni sem var styrkt af Evrópusambandinu til fjögurra ára og var töluverðu fjármagni beint í verkefnið. Það féll í hlut Rómar að sjá um framkvæmdina, en grenndargarðar eru algengir þar enda hafi almenningur barist hart fyrir því.

Þar heimsótti Auður um fjögurra til fimm hektara garða þar sem fólk fékk á bilinu 25-50 fermetra skika til að rækta grænmeti á. Þar hjá hafi líka verið önnur aðstaða sem var helguð einstaklingum með einhverfu. Á svæðinu mátti finna frístundaheimili þar sem fullorðnir með einhverfu gátu fengið að dvelja tímabundið til að létta álagi af aðstandendum.

Þessu fólki hafi staðið til boða grenndargarðar, en var þeim haldið aðskildum frá almennu görðunum þar sem fólk með einhverfu þurfi sérstaka nálgun. Þessi nálgun hafi meðal annars falist í því að hver einstaklingur með einhverfu fékk stuðningsfjölskyldu sem ræktaði með þeim. Þessu starfi fékk Auður að kynnast en henni var boðið til matar á frístundaheimilið.

Allt í allt hafi líklega hátt í fjögur hundruð aðilar verið að nýta sér þessa grenndargarða. Ljóst er að Auður brennur fyrir grenndargörðum en hún segist hreinlega tárast og fá gæsahúð að hugsa til baka um þessa lífsreynslu. Eins sé unnið flott starf í Írlandi, á Spáni og hjá Grikklandi en grenndargarðar geta verið allskonar. Svo sem sérstaklega ætlaðir börnum eða ungmennum á menntaskólaaldri og eins til að rækta í lækningaskyni.

Hjartaáfall við að kynna sér hjartansmálið

„Ég fékk náttúrulega hjartaáfall í Róm. Ég var að hlaupa inn í lest… ég kom til baka og bar mig vel og þá tók við svona læknadót. Og svo bara – Takið þið blóðþrýstinginn – var svolítill töffari því það kom ekki til baka að verða þarna eftir.“

Hún var svo lögð inn á sjúkrahús eftir að hún kom heim en segi lífsreynsluna hafa verið þakkarverða og hún hafi lært mikið. Til dæmis hafi hún enduruppgötvað lífið og lært að elska mikið meira. Hún glímir enn við eftirköst í dag og er á lyfjum og þarf að hvíla sig mikið. En hún hefur þó fundið hamingjuna í grenndargörðum og því samfélagi sem hefur myndast í kringum það og leynir það sér ekki þegar hún ræðir um þessi mál.

Hún segir að engu að síður séu Íslendingar mjög aftarlega í þessum málaflokki. Líklega sé það sökum þess að hér eru laun nokkuð há og þjóðfélagið ríkt. Í fátækari löndum þyki ræktun sjálfsögð enda laun þar lægri og fólk þurfi meira að reiða sig á eigin uppskeru. Engin geti þó spáð fyrir um framtíð Íslands og því sé mikilvægt að við getum tilreiknað okkur þetta með auknum hætti til að vera viðbúin því ef illa fer. Eins geti maður betur tryggt, með eigin ræktun, að matvælin séu full af góðum næringarefnum en ekki allskonar aukaefnum.

„Og ég veit nákvæmlega hvað ég er að borða og þetta er stútfullt af góðum efnum og það eru engin aukaefni í neinu. Ef þú kaupi eitthvað í krukku er það bara úps – aukaefni í runu. Þú getur ráðið ferðinni þegar þú ert að rækta sjálfur. Það er þetta mataröryggi og svo er líka ofboðslega stór kostur – og þú getur svolítið valið hvað þú ert að rækta.“

Grenndargarðar eru Auði hjartansmál og hafi fylgt henni í vel rúman áratug. Hún segir að það besta við að rækta sjálfur sé að þetta eykur vellíðan. Þarna myndist svo mikið bróðerni og kærleikur og þarna hefur hún fundið hamingjuna.

Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima allskonar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.
Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi. Þættina má nálgast hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“

Svali lítur til baka á kostina og gallana við að flytja til Tenerife – „Að læra að sigrast á aðstæðum annars staðar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar

Þekktustu „besties“ landsins kynna nýtt verkefni – Frumsýning á háleynilegum stað í hjarta höfuðborgarinnar