Eftirvæntingin fyrir kvikmyndunum Barbie og Oppenheimer ætti ekki að hafa farið framhjá neinum enda
tröllríður svokallað „Barbenheimer æði“ heimsbyggðinni allri.
Íslenskir kvikmyndahúsagestir létu sitt ekki eftir liggja í þeim efnum um helgina og kvikmyndaáhugafólk flykktist á stórmyndirnar tvær.
Útkoman varð stærsta opnunarhelgi í íslenskum kvikmyndahúsum frá upphafi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FRÍSK – Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði – sem heldur utan um aðsóknartölur hérlendis.
Eins og vestanhafs tók kvikmyndin um leikfangadúkkuna heimsfrægu Barbie toppsætið og þénaði hún
alls tæpar 21,5 milljónir króna í miðasölu hérlendis. Oppenheimer, sem fjallar um vísindamanninn J.
Robert Oppenheimer og hlutverk hans á þróun á hættulegasta vopni heims, tók 2. sæti vinsældalistans
eins og annars staðar í heiminum, og þénaði kvikmyndin rúmar 14,2 milljónir króna.
Barbenheimer þénaði því alls hér á landi rúmar 35,7 milljónir króna á þremur dögum.
Alls nam miðasala kvikmyndahúsa hér á landi um helgina tæpum 43 milljónum króna sem gerir helgina að tekjuhæstu kvikmyndahelgi sögunnar hér á landi.