Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, gerist persónuleg og deilir að eigin sögn alls konar ómerkilegum, en að okkar mati stórskemmtilegum staðreyndum um sjálfa sig í pistli á Facebook.
„Er ekki tími til að vera pínu persónuleg og deila allskonar ómerkilegu sem ekki margir vita ?“ segir Ragga.
*Hitti manninn minn á Kúbu árið 1998. Sótti vatnið yfir bæjarlækinn því hann er Hafnfirðingur í húð og hár.
*Er skíthrædd við gamlar dúkkur. Mamma átti dúkku sem hét Skinnið og ef henni var snúið þá sagði hún „BA, BA“ og fyrir lítið barn var þetta hljóð í bland við gulnaða dúkku í gömlum rauðum kjól stórkoslegt trauma sem 43 árum seinna lúrir enn í sálinni.
*Uppáhalds maturinn er ribeye steik með kartöflum og hvítlauksmæjónesi. Allt undir 350 grömmum er álegg.
*Las inn á útvarpsauglýsingar sem barn. Til dæmis fyrir jólaverslun á Suðurnesjum….. „og þú sparar þér peninga, tíma og fyrirhöfn, ef þú verslar á Suðurneeeeesjum.“
*Ferðaðist um alla Evrópu í rútu með eldri borgurum á hverju sumri með fararstjóranum móður sinni. Mun ALDREI fara inn í kirkju í Evrópu aftur í lífinu.
*Var send í sveit í Þýskalandi sjö ára og fór þangað á hverju sumri til 16 ára aldurs. Þetta var algjör bómullarsveit, og meira eins og að vera í Hans og Grétu ævintýri því dagarnir gengu aðallega út á að borða og leika sér milli máltíða. Morgunmatur var brauð með hunangi og kakó „Willst du KAAAAABA?“ og síðdegiskaffið nýbökuð Apfel strudel.
*Tala þýsku, dönsku, spænsku og ensku. Langar að læra arabísku.
*Fékk alltaf tíu í stafsetningu. Fékk aldrei hærra en sex í stærðfræði.
*Uppáhalds tónlistin er grunge og graðhestarokk úr sjöunni, áttunni og níunni, Pearl Jam, Nirvana, Soundgarden, Bon Jovi, Depeche Mode, Guns n‘ Roses, Pixies, Led Zeppelin.
*Er líka stórkostlegur Tupac aðdáandi og aðhyllist samsæriskenningu um að hann sé ekki dáinn.
*Vann í bíóhúsinu Regnboganum og plötuversluninni Skífunni frá 14 ára til tvítugs.
*Var stórkostlega veruleikafirrt um eigin sönghæfileika sem barn, og söng (gaulaði) Braggablús á sviði í grunnskóla ekki bara einu sinni heldur tvisvar.
*Bauð mig líka fram sem einsöngvara í kórnum í grunnskóla. Þau sögðust myndu hafa samband eftir tónprufuna. Ég bíð enn.
*Uppáhalds liturinn er bleikur og svartur…. allt extra stöffið í ræktinni er bleikt, taskan, ökklastrappar, úlnliðsvafningar, hnéhlífar, þumlateip….
*Reykti pakka á dag og drakk hverja helgi og borðaði Júmbó grillsamlokur og Dominos pizzur allan menntaskóla.
*Bjó í Hæðargarði fyrstu fjögur æviárin og kallaði sjálfa mig „Agga í Garði“ (sjá mynd)
*Get ekki flautað né smellt fingrum.
*Það er tómarúm í heilanum þar sem samhæfing huga og handar fer fram því ég get ekki lært spor í dansi, né klappað í takt við annað fólk. Var eins og belja í pallatímum í gamla daga og þurfti alltaf að vera aftast og horfa á manneskjuna fyrir framan.
*Er með engan sens fyrir áttum. Veit aldrei hvað er norður, suður, austur…. segðu mér bara að fara til hægri eða áfram eða niður.
*Er með mínus 1.75 á báðum en hef aldrei getað notað gleraugu og ALLTAF með linsur nema yfir imbanum á kvöldin.
*Er með bullandi ADHD og loka aldrei skápum og skúffum, er með fimmtán glugga opna í Google, sautján Word skjöl í gangi, er algjör draslari, get sökkt mér í verkefni í marga tíma eða frestað fram í hið óendanlega þar til daginn fyrir skilafrest.
*Finnst ekkert eins leiðinlegt og að gera skattframtalið.
*Var í hestamennsku með pabba í nokkur ár þar til gelgjan tók öll völd.
*Finnst bíómyndir sem gætu ekki gerst í alvörunni mjög leiðinlegar og forðast þær eins og pláguna: Hobbit. Lord of The Rings. Harry Potter. Star Wars. Avatar.
Takk fyrir að lesa til enda….. kær kveðja Agga í Garði.
Hvað er eitthvað sem ekki margir vita um þig?