Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason segir farir sínar ekki sléttar, en eftir að hafa fengið gesti í mat til sín á mánudaginn er hann einn fjölmargra einstaklinga í hópsmiti tengdu Hamborgarafabrikkunni í Kringlunni, þrátt fyrir að hafa ekki borðað á staðnum sjálfur.
„Fengum unga gesti á mánudag sem höfðu setið á Hamborgarafabrikkunni á laugardag og snætt barnaborgara. Gestirnir ældu aðfararnótt þriðjudags og nú sit ég í súpunni,“ segir Hallgrímur í færslu á Facebook. Kann hann veitingastaðnum litlar þakkir fyrir og segir: „nóttin lét mig sjá lífið í nýju ljósi! Í alvöru, þessi ferðaþjónusta á eftir að drepa okkur.“
Hvetur hann fólk til að þvo sér um hendur, ekki spritta og fara varlega.
Húmórinn hefur þó ekki yfirgefið Hallgrím í veikindunum og smellti hann í ljóð:
Á Fabrikkuna fór ég ekki
en fékk þó þaðan gesti.
Nú norpa ég í norðantrekki
Með Nóró þarmabresti.
Yfir 100 tilkynningar um smit
Eins og DV fjallaði um fyrr í vikunni greindu fjölmargir einstaklingar frá því í Facebook-hópnum Matartips að hafa veikst eftir að borða á veitingastaðnum. Fyrirtækið lokaði staðnum og fór í að sótthreinsa staðinn hátt og lágt og henda matvöru. Fyrst var grunur á að um matareitrun væri að ræða, en eftir vettvangsskoðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er vinnutilgáta eftirlitsins að nóróveirusýkingu sé að ræða og því tilfellið flokkað sem hópsýking. Rannsókn er enn í gangi, og hefur ekki verið staðfest að um nóróveirusýkingu sé að ræða, en eftirlitið hefur fengið yfir 100 ábendingar um smit.
Sjá einnig: Loka Fabrikkunni í Kringlunni í dag til að ganga úr skugga um hvort að gestir hafi orðið fyrir matareitrun
Sjá einnig: Grunur um að nóróveira hafi valdið matareitrun á Fabrikkunni – Eigendur lokuðu eftir ábendingar
Í tilkynningu frá Maríu Rún Hafliðadóttur, framkvæmdastjóra Hamborgarafabrikkunnar í dag kom fram að Hamborgarafabrikkunni á Höfðatorgi var lokað í dag svo hægt væri að sótthreinsa þar líka. Var ákvörðunin tekið í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Þar segir að atburðir liðinna daga séu stjórnendum mikið áfall og er viðskiptavinum og starfsmönnum þakkað fyrir skilning og þolinmæði.
Tilkynning Hamborgarafabrikkunnar
„Eins og komið hefur fram í fréttum var Hamborgarafabrikkunni í Kringlunni lokað tímabundið í samstarfi við heilbrigðiseftirlitið. Var það gert til að gæta fyllsta öryggis í kjölfar ábendinga frá viðskiptavinum okkar. Í samstarfi við heilbrigðiseftirlitið var staðurinn skoðaður og sótthreinsaður með öryggi viðskiptavina og starfsmanna í huga. Fabrikkan í Kringlunni hefur verið opnuð á ný. Eigendur Fabrikkunar hafa ákveðið að loka staðnum á Höfðatorgi í dag og ráðast í sömu aðgerðir og var farið í í Kringlunni með öryggi viðskiptavina og starfsmanna í huga.
Hamborgarafabrikkan hefur starfað í rúm 13 ár og ávallt lagt áherslu á vönduð vinnubrögð og gæði matar og þjónustu. Það er okkur því mikið áfall að upplifa atburði af þessum toga. Við þökkum viðskiptavinum okkar og starfsmönnum fyrir skilninginn og þolinmæðina.“