Vinkonurnar Lína Birgitta Sigurðardóttir, athafnakona og áhrifavaldur, Gurrý Jónsdóttir, snyrtifræðingur og áhrifavaldur, og Sólrún Diego, áhrifavaldur og skipulags- og þrifsérfræðingur, halda úti hlaðvarpinu Spjallið.
Í nýjasta þættinum, 18+, ræða þær um hvaða lærdóm þær drógu af fyrri vina- og ástarsamböndum.
Sólrún lærði að standa með sjálfri sér og ekki taka lygum fyrrverandi vina eða maka um sig nærri sér.
„Ég held að yfirhöfuð þá hafi það verið að standa með sjálfri mér. Mér finnst það oft þegar þú slítur sambandi, hvort sem það er vinasamband eða ástarsamband, þá er oft annar aðilinn óöruggur og fer að segja ljóta hluti um hinn aðilann. Upphefja sjálfan sig eða heldur að hann sé að láta sjálfan sig líta vel út, og það bitnar á hinum aðilanum,“ segir hún og bætir við að hún hafi lært að standa með sjálfri sér og ekki taka það nærri sér.
„Ég hef mjög oft lent í því. Að brenna mig á því að ég sé að rífa mig niður fyrir eitthvað sem er ekki rétt.“
Lína Birgitta lærði að það sé mikilvægt að maki sé ekki bara vinur, heldur að það verði að vera rómantík.
„Ef þú ert bara í vinasambandi í sambandi, það kannski hentar fyrir suma, en ég hef verið þar. Og það er ógeðslega erfitt að slíta því, því þið eruð svo góðir vinir,“ segir hún.
Gurrý lærði að standa með sjálfri sér eftir stormasamt vinkonusamband.
„Ég átti einu sinni vinkonu, sem mér fannst ég ekki vera samkvæm sjálfri mér í því sambandi,“ segir Gurrý.
Hún segir að hún hafi verið meðvirk með vinkonunni sem var að stjórna sambandi þeirra. „En það er ekki endilega henni að kenna,“ segir hún.
„Maður getur ekki álasað aðilann ef maður sagði aldrei neitt við hann.“
„Það þarf líka tvo til að dansa tangó,“ segir Sólrún.
„Það er alltaf svo auðvelt að kenna öðrum um til að fría sig frá ábyrgð. Maður er settur í óþægilega stöðu, „af hverju hættuð þið að vera vinkonur?“ […] eða „af hverju hættuð þið saman?“ „Æi, hún er bara svona, svona og svona.“ Þá ertu búin að slökkva í því, í staðinn fyrir að segja eitthvað annað og þá er hægt að spyrja þig meira út í það. Þetta er svona auðvelda leiðin út, en þá verðurðu líka að standa og falla með því sem þú ert búinn að ljúga upp á einhvern annan. Stundum er betra að segja: „Þetta er bara milli okkar.““
Hlustaðu á þáttinn hér að neðan.