fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

Örlagasaga Ástu – Misnotkun í æsku, martröðin á Laugalandi og morðtilraun sambýlismanns

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 25. júní 2023 09:00

Ásta Blanca. Mynd/Gunnar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásta Blanca Önnudóttir er 37 ára gömul Eyjamær sem hefur gengið í gegnum mörg erfið áföll í um ævina. Ásta varð fyrir kynferðislegri misnotkun sem barn og unglingur auk þess sem heimilisaðstæður voru erfiðar og segir Ásta að aldrei hafa verið tekið á málunum, hún hafi aldrei fengið hjálp til að vinna úr erfiðleikunum. 

Ásta og systir hennar sem börn.

Týnd og full af reiði

„Það vissi enginn hvað átti að gera við mig, ég var ekki í neyslu að ráði í byrjun, bara alveg brjálaður ærslabelgur sem enginn réði við. Ég var svo full af reiði sem gat gosið upp því ég var svo týnd í lífinu,“ segir Ásta sem í dag er edrú, býr á Spáni og starfar sem snyrtifræðingur og rekstrarstjóri veitingastaða.

Á unglingsárum tók við tímabil neyslu, stofnanavistana, misnotkunar, átröskunar og síðar heróínfíknar, krabbameins og annarra veikinda. Ásta átti í nokkrum samböndum og eignaðist þrjú börn sem hún hefur nú misst forræði yfir.

Sjá viðtal við móður Ástu, Önnu Friðrikku, um baráttu hennar fyrir barnabörnum sínum: Rikka hefur ekki séð barnabarn sitt í fjögur ár og berst enn við barnaverndarnefnd – „Auðvitað fer mann að gruna að um ákveðinn klíkuskap sé að ræða“

RIkka og Ásta eru afar nánar í dag.

Einn sambýlismanna Ástu beitti hana gríðarlegu kynferðislegu, líkamlegu og andlegu ofbeldi og var á endanum dæmdur fyrir morðtilraun gagnvart henni.

Saga Ástu er það mögnuð að eitt viðtal dugar ekki til og verður því seinni hlutinn birtur að viku liðinni.

Handjárnuð á salerni í fangelsi 15 ára 

Ásta segist aldrei hafa verið hamingjusamari en núna, hún er meðal annars í sambúð með Ólafi Jónssyni, sem er hennar stóra ást í lífinu.

En leiðin hefur verið löng og ströng.

„Ég var algjör vandræðaunglingur, stal til dæmis bílnum hennar mömmu og klessukeyrði hann. Ég fór líka í neyslu og var handtekin fyrir innbrot á Akureyri. Ég var þar þar með hópi stráka sem voru á kafi í dópi og ákvað að prófa.

En þetta var aldrei í raun ekki fyrir mig, ég þoli ekki að missa tökin á sjálfri mér, og hef lítinn áhuga á áfengi. Ég er ekki drykkjumanneskja og hef aldrei verið.”

Ásta ásamt bestu vinkonu sinni, Billie

Ásta var aðeins 15 ára þegar hún var látin sitja tvo sólarhringa í fangaklefa og send handjárnuð á salerni undir eftirliti. Hún hafði þá margbeðið um að fá að fara á klósett.

„Það vissi enginn hvað átti að gera við mig. Það hafði aldrei verið tekið á misnotkuninni sem var, ásamt öðrum áföllum, upptök reiðinnar í mér. En það er ekki ég. Ég hef alltaf viljað hugsa um fólk, gefa af mér og dæmi aldrei neinn. En vegna þessa fannst mér ég aldrei passa neins staðar inn, það fylgdi þessu svo mikil skömm að ég reyndi ekki einu sinni að falla inn í hópinn. Fór bara mínar eigin leiðir.”

Alltaf einblínt á föðurinn

Kynferðisbrotin hófust þegar að Ásta var 4 ára og stóð í tvö ár. Var brotamaðurinn vinur föður hennar.

„Þetta var sérstaklega slæmt þegar þeir voru á fylleríi en ég sagði engum frá fyrr en ég talaði við foreldra mína, þá orðin 17 ára. Aftur á móti hafði læknirinn í Eyjum orð á því að það væri ekki eðlilegt hvað ég væri að fá oft þvagfærasýkingar og spurði mömmu hvort að pabbi væri að að koma eitthvað við mig. Mamma varð eðlilega alveg brjáluð, pabbi er ekki svoleiðis maður, hann er bytta en hann hefur aldrei gert neitt slíkt. Hann tók alveg í mig en gerði aldrei neitt kynferðislegt. En það var bara einblínt á föðurinn í kynferðisbrotamálum, alla vega var það gert þá.”

Ásta Blanca.

Ásta segir það hafa verið sérlega sárt að sjá þennan sama mann í fermingarveislu yngri systur hennar. Pabbi hennar hafði boðið honum þrátt fyrir að vita af brotum hans.

Ásta lenti aftur í kynferðisbroti árið 2014 þegar að vinur hennar bauð henni í partý á hótel í miðbæ Reykjavíkur. Það voru 12 menn og ég komst ekki út, vissi ekkert hvar ég var, og einn þeirra réðist á mig. En það hefði getað farið verr því ég barðist eins og ljón á móti honum.”

Hætti að borða 8 ára

Skilnaður foreldra Ástu tók einnig mjög á hana. „Pabbi skildi við okkur systurnar í leiðinni og gifist nýrri konu sem var hreinlega vond við okkur.”

Ásta er fædd í Eyjum en flutti með móður sinni og systur til Reykjavíkur en var send reglulega til föður síns í Eyjum.

„Pabbi var á sjó á þessum tíma og við sáum hann stundum bara í örfáa daga. Þess á milli vorum við neyddar til að vera hjá konu sem þoldi okkur ekki, hvað þá mömmu okkar.

Ásta Blanca. Mynd/Gunnar

Hún kom illa fram við okkur, henti okkur út en bannaði okkur samt að heimsækja uppeldisfélaga okkar og bestu vini, sem bjuggu í sömu götu.”

„Systir mín var í þyngri kantinum, hún er með hægan skjaldkirtil, og þessi kona var alltaf að setja barnið í megrun. Og mig líka, þótt ég væri í kjörþyngd. Ég fékk svo mikla komplexa að ég hætti að borða 8 ára gömul og ef ég borðaði kastaði ég upp. Ég hef þurft að díla við það í mörg ár en dvöl á Hvítabandinu hjálpaði þótt að ég þurfi enn að gæta að mér. Ég var komin niður í 32 kíló þegar ég fór á Hvítabandið.

Sjálf er ég fyrrverandi stjúpmamma og er í afar nánu og góðu sambandi við fyrrverandi stjúpson minn. Ég skil ekki þessa hegðun.”

Átti að fara í lakið

Ásta segir að sem barn hafi hún tilbeðið föður sinn en allt farið á niðurleið með skilnaði foreldra þeirra og hafi faðir hennar farið að drekka illa.

„Ég var 11 ára þegar ég spurði mömmu hvað það þýddi að ég hefði átt að fara í lakið. Mömmu brá auðvitað mjög og spurði hvar ég hefði heyrt þetta og ég sagði eins og var, að pabbi hefði sagt þetta við mig og bætt við að ég hefði eyðilagt líf hans. Hann reyndi samt að vera góður við okkur í laumi því konan hans var svo á móti því.

Ásta Blanca

En ég hef reynt að hafa samband við þennan mann, opnað hurðina upp á gátt og lagt framhaldið í hendur guðs. Aftur á móti gerði þetta mig óskaplega reiða, sú reiði sat í mér í fjölda ára og olli meðal annars þessari hegðun minni.”

Ásta byrjaði að drekka landa aðeins 11 ára gömul auk þess að reykja gras. „En aðallega var ég bara snarofvirk og alltaf niðri í bæ ásamt vinum. Ég á marga góða vini sem hafa lent illa í lífinu.“

Leið vel á Stuðlum

Það var fátt um úrræði fyrir Ástu og var hún send á Vog, aðeins fimmtán ára gömul, og þaðan á Stuðla.

„Ég var bara 15 ár og að berjast við mína djöfla. Ég vissi ekki hver ég var, hvaðan ég var að koma eða hvert ég væri að stefna. Strauk 10-12 sinnum frá Stuðlum en lögreglan skilaði mér yfirleitt þangað aftur.”

En Ástu leið vel á Stuðlum.

Ásta ásamt barni vinkonu. Hún vildi eignast heilt fótboltalið barna.

„Þarna var fólk sem aldrei dæmdi okkur, voru mannleg og komu ekki fram við okkur eins og dýr í búri. Þarna voru margir krakkar sem höfðu upplifað kynferðislega misnotkun eða heimilisofbeldi. Og ef þú sýnir barni áhuga getur barnið misskilið þann áhuga, sérstaklega frá karlmönnum, þannig að flestir starfsmennirnir þurftu að vera stífir út á við þótt þeir væru afar ljúfir.  Ég var, og er, í sambandi við margt þetta fólk í mörg ár enda blómstraði ég á Stuðlum og fékk þar loksins þann skilning sem ég þurfti.”

Dvölin á Stuðlum var í þrjá og hálfan mánuð.

Martröðin á Laugalandi

„En þegar ég kom heim fór ég að hrasa og vera með vesen, að mati barnanefndar. Þá var tekið fram fyrir hendurnar á mömmu og henni sagt að það ætti að senda mig á Laugaland, meðferðarheimili fyrir stúlkur með margþættan vanda. Var heimilinu ætlað að byggja stúlkurnar upp.

Ásta dvaldi á Laugalandi í 18 mánuði.

„Ég fann um leið og ég steig fæti þar inn að það var ekki allt með felldu þar. Og það fyrsta sem forstöðumaðurinn sagði við mig var að spyrja af hverju ég væri komin þangað. Ég var auðvitað í bullandi uppreisn og sagði að það væri af því að allir væri snarfokking bilaðir.

Hans svar var að ég væri vanhæfur einstaklingur í þjóðfélaginu og þangað komin til að hann gæti brotið mig upp og byggt þig upp að nýju. Þetta sagði maðurinn orðrétt við mig. Ég var beitt ofbeldi frá fyrsta degi.

Það var allt bannað og öll lífsgleði soguð úr manni. Við fengum ekki fötin okkar, við fengum ekki málningardót, við fengum ekki þetta og ekki hitt, ekki að hlusta á tónlist. Ég fékk ekki einu sinni föt til skiptanna.”

Ástu var meðal annars hent niður stiga, þar sem hún þótti ekki ryksuga nógu vel. Hún lenti einnig í því að úlnliðsbrotna við að fótbolta starfsfólk sýndi slysinu lítinn áhuga.

„Ég var handleggsbrotin en samt ég var ávítt fyrir leiðindi og fýlu. Höndin á mér var orðin svört á endanum og ég sturluð af sársauka þegar ég loksins var send á sjúkrahús þar sem læknarnir voru brjálaðir yfir að ég hefði ekki verið send fyrr. Þetta endaði með að allt greri rangt saman og ég er enn verkjuð í úlnlið og á stundum erfitt með að beita hendinni.“

Ásta með voffanum sínum.

Kvensjúkdómarannsókn í kjallara heimahúss

„Þetta var allt svona. Það var ekkert jákvætt eða uppbyggjandi vup að vera þarna og margtuggið ofan í mig að ég væri vonlaus einstaklingur.”

Í fyrstu vikunni á Laugalandi var Ásta send til kvensjúkdómalæknis, án þess að móðir hennar væri látin vita.

„Ég hafði aldrei farið til kvensjúkdómalæknis, vissi ekki einu sinni hvað það var, og var send í eitthvert heimahús niður í kjallara. Ég hafði verið misnotuð sem barn svo þetta var mér afar erfitt. Ég man enn hvað þetta var sárt og hvað ég margbað hann um að hætta en hann gerði það ekki.

Tveimur dögum síðar, þegar ég  var ég rétt að jafna mig, kom starfsmaður Laugalands til mín og spyr hvort ég hafi verið að hórast út um allt því ég væri með klamidiu. Ég var steinhissa enda búin að vera með sama kærastann í langan tíma.

Ásta og Óli

Ég veit til þess að aðrar stelpur hafi reynt að hafa samband við þennan mann og krefja svara um hvað gekk á í þessum kjallara en hann hefur aldrei viljað tala við þær.

Ég spurði mömmu seinna út í þetta og hún var mjög ósátt enda væri það hennar verkefni að fara með mig í slíkt, ekki barnaverndarnefndar.”

Eins og vélmenni

Ásta vildi út og fann leið til þess.

„Ég slökkti á eigin persónuleika, bjó til nýjan eftir höfði forstöðumannsins enda lærði ég snemma að lesa í fólk, ekki síst karlmenn, eftir því sem ég lenti í sem barn. Ég vissi nákvæmlega hvað hann vildi og var útskrifuð með sóma með því að vera eins og vélmenni, án nokkurs persónuleika. Sem er alls ekki eðlilegt og fjölskyldan mín þekkti mig ekki þegar ég slapp út.”

„Enginn gerði neitt, ég er ekki hrokafull né tel mig betri en annað fólk. Ég dæmi engan og gef öllum séns enda með hjartað í lófanum, þrátt fyrir að treysta almennt ekki fólki.

Ásta Blanca

Margir segja mig barnalega en ég vil vera þannig, svona er ég. Ég reyndi að fá hjálp en fékk hana ekki. En ég hef lært af reynslunni og veit að það eru engar tilviljanir í lífinu,” segir Ásta Blanca.

Í seinni hluta viðtals við Ástu segir hún frá barneignum sínum, baráttu hennar við krabbamein, ofbeldissambandi sem endaði með morðtilraun, lífi hennar í Svíþjóð þar sem hún varð háð heróíni og hvernig hún tókst á við sjálfa sig til að komast á þann stað í lífinu sem hún er á í dag.

Seinni hluti viðtalsins við Ástu verður birtur um næstu helgi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinder ekki að gefa? – Kannski Bænder sé málið

Tinder ekki að gefa? – Kannski Bænder sé málið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Haukur Már skipti út frönskum og fékk kvörtun nakinn í World Class – „Ég hef svona semi fengið morðhótanir“

Haukur Már skipti út frönskum og fékk kvörtun nakinn í World Class – „Ég hef svona semi fengið morðhótanir“