Söngkonan er nýjasti gestur Fókuss og fer um víðan völl í þættinum. Hún lét fjarlægja púða sem hún hafði verið með í brjóstunum um nokkura ára skeið í fyrravor en fyrir það hafði hana langað lengi til að minnka brjóstin þar sem hún hafði grennst og fannst brjóstapúðarnir allt of stórir, hlutfallslega, miðað við líkamsgerð hennar.
„Ég lét taka þá út og gat ekki hugsað mér að fá aðra púða,“ segir hún, en lýtalæknir hennar hafði spurt ítrekað hvort hún væri alveg viss um að hún vildi ekki minni púða í staðinn.
Hún var himinlifandi að losna við púðana og leið vel, þar til í byrjun árs 2023.
„Fyrir þremur til fjórum mánuðum fór mér að finnast eitthvað vanta. Ég hef alltaf verið með stór brjóst,“ segir hún.
Saga B fór að hugsa meira og meira um þetta og ákvað að láta til skarar skríða og fara í brjóstastækkun. Hún sér alls ekki eftir því, enda mjög ánægð með nýju brjóstin.
Munurinn á þessum púðum og þeim sem hún var með áður er að þessir eru mun minni, kúlulaga og yfir vöðva. Þeir sem hún var með áður voru mun stærri, breiðari, flatari og undir brjóstvöðva.
„Ég er ánægð, ég hef aldrei verið jafn sátt eins og núna. Þetta er nákvæmlega eins og ég vildi í fyrsta skiptið, en þá var líkaminn minn ekki kominn [á þennan stað],“ segir hún.
Saga B segir frá ákvörðun sinni að leggjast aftur undir hnífinn, bataferlinu og skoðun sinni á öðrum fegrunaraðgerðum í þættinum, sem má horfa á í heild sinni hér.