Áhrifavaldurinn Kristján Einar Sigurbjörnsson hefur stofnað einkahlutafélagið Kristján Einar ehf. en segir í samtali við DV að nafnabreyting á félaginu sé í ferli.
Kristján er skráður stofnandi félagsins og annar af tveimur stjórnarmönnum þess. Hinn er faðir hans, Sigurbjörn Kristján Einarsson.
Áður en Kristján Einar skaust fram á sjónarsviðið og sópaði til sín fylgjendum á samfélagsmiðlum var hann sjómaður.
Í skráningu félagsins kemur fram að tilgangur þess sé „útleiga innréttaðra sendla (campera), kaup og sala á skyldum vörum, rekstur fasteigna og lánastarfsemi.“
Svokallaðir camperar eru sendiferðabílar sem er búið að innrétta svo hægt sé að sofa í þeim, eins konar lítill húsbíll. Sumir þeirra eru með eldunar- og setuaðstöðu.
„Já. Við höfum stofnað félag sem stendur undir nafninu Kristján Einar ehf. En er í ferli nafnabreytinga. Þegar allt er komið á sitt ról mun koma yfirlýsing um starfsemina sem félagið hefur upp á að bjóða,“ segir Kristján Einar.
Áhrifavaldurinn hefur verið að gefa vísbendingar um að eitthvað stórt sé í vændum. Hann birti mynd á Instagram fyrir nokkrum vikum, stuttu áður en félagið var skráð, þar sem hann sagði: „Low layin. Big Plans“ eða „Tek því rólega, stórir hlutir í vændum.“