Algengt er að hús sem byggt er fyrir ákveðinn rekstur, fyrirtæki eða fjölskyldu fái nýtt hlutverk þegar fram líða stundir og húsið skiptir um eigendur. Borg og bæir breytast, tíðarandinn breytist og þannig breytast þarfir fyrir viðkomandi hús og hlutverk þess breytist.
Hvað verður um Kennarahúsið?
Þann 14. júní urðu þau tímamót að Kennarahúsinu við Laufásveg 81 í Reykjavík var skilað til ríkisins. Lauk þar með nærri 30 ára merkri sögu sambandsins í húsinu, en sambandið flutti starfsemi sína í Borgartún árið 2020. Húsið var byggt árið 1908 og tók Kennaraskóli Íslands til starfa þar um haustið. Árið 1989 gaf ríkið Kennarasambandinu húsið og eftir heilmiklar endurbætur hófst starfsemi kennarasamtakanna þar árið 1991. Er það von sambandsins að húsinu verði fundið verðugt hlutverk í framtíðinni, en enn er ekki ljóst hvaða starfssemi mun taka við í húsinu.
Meðferðarheimili verður að hóteli
Nýlega greindi Morgunblaðið frá því að endurbætur og uppbygging eru í undirbúningi á Staðarfelli í Dölum. Á næsta ári stendur til að opna þar þægindahótel. Elsta húsið, skólahúsið var reist árið 1912, en þar var rekinn húsmæðraskóli þar til um 1980 þegar SÁÁ tók við rekstri og rak þar meðferðarstofnun á vegum SÁÁ.
Fjárfestingafélagið V 69 ehf. keypti í ársbyrjun eignir á staðnum af ríkinu, gamla skólahúsið sem er fjögurra hæða bygging og um 750 fermetrar, auk tveggja íbúðarhúsa sem byggð voru árið 1971 og 1974. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Baldur Ingvarsson, eigandi V69 ehf. Að stæði til að opna 50 herbergja hótel. „Á Staðarfelli og í Dölunum eru miklir möguleikar til sóknar og uppbyggingar. Vesturland og Vestfirðir eiga mikið inni sem ferðamannasvæði með einstakan söguarf og náttúrufegurð.“ Sagði hann húsnæði að Staðarfelli barn síns tíma og að mörgu þurfti að breyta til að uppfylla nútímakröfur og þægingi, en framkvæmdin mun kostar nokkur hundruð milljónir króna.
Margar byggingar í miðbæ Reykjavíkur hafa breytt um hlutverk í áranna rás og er líklega Stjórnarráðshúsið það þekktasta. Saga hússins, sem var reist sem Tugthús,er rakin á vef Stjórnarráðsins en bygging þess hófst árið 1761 og tók tíu ár og unnu danskir og íslenskir iðnaðarmenn að byggingunni auk sakamanna. Tugthúsið var talið geta rúmað 16 stórglæpamenn og 54 venjulega fanga. Svo margir fangar sátu þar þó aldrei, þeir urðu flestir um 40. Bæði karlar og konur voru í fangelsinu og frjálslegur samgangur milli kynja, svo frjálslegur að nokkuð var um barneignir þar innan dyra.
Frá föngum að Forsætisráðuneyti
Árið 1819 var Tugthúsinu sem þá stóð ónotað breytt í íbúðarhúsnæði fyrir stiftamtmanninn Ludvig Moltke, sem þá var æðsta embætti þjóðarinnar, og fjölskyldu hans. Húsið var íbúðarhúsnæði stiftamtmanna og landshöfðingja til ársins 1904. Við stofnun heimastjórnar 1. febrúar 1904 var ákveðið að húsið yrði aðalaðsetur landsstjórnarinnar, síðar ríkisstjórnar Íslands, og hefur það síðan verið kallað Stjórnarráðshús. Ákveðið var að gera húsið alfarið að skrifstofuhúsi og Fálkamerkinu, hinu nýja skjaldarmerki Íslands, var komið fyrir yfir höfuðinnganginum. Þó húsið hafi fljótlega sprengt af sér vegna fjölda starfsmanna og umfangs ráðuneyta var það látið duga þar til 1943 þegar fyrsta ráðuneytið færðist í annað húsnæði. Frá árinu 1973 hefur Forsætisráðuneytið verið þar eitt ráðuneyta, eins og kunnugt er. Árið 2016 samþykkti Alþingi ályktun um samkeppni um hönnun viðbyggingar, um tvö ár eru síðan fyrsta skóflustungan var tekin að nýrri viðbyggingu fyrir ofan Stjórnarráðshússins.
Pissuskálum skipt út fyrir pönkið og listina
Næstu nágrannar Stjórnarráðshússins eru húsnæðin tvö að Bankastræti núll, eða Núllin eins og þau hétu lengi vel. Húsnæðið var upphaflega teiknað af Helga Sigurðssyni arkitekt og tekið í notkun sem klósett í kringum árið 1930. Fyrir karla vinstra megin þegar gengið er upp Bankastræti, og fyrir konur hægra megin Bernhöftstorfumegin. Núllunum var lokað árið 2006 af ýmsum ástæðum, meðal annars óöryggis starfsmanna að nóttu til. Pönksafnið var opnað kvennamegin árið 2016 af Johnny Rotten og hefur til sýnis ljósmyndir, tónlist, veggspjöld, hljóðfæri, föt og ýmis önnur eftirminnileg atriði frá pönktímabilinu á Íslandi. Karlamegin er nú Núllið Gallerý, sem opnaði árið 2019. Rýmið hefur verið vinsælt fyrir sýningar og verkefni og Núllið þéttbókað.
Skóli og sögufrægur skemmtistaður verða að íbúðum
Í ársbyrjun 2022 var Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit breytt að stórum hluta í íbúðir og einstaklingsherbergi. Eigandi hússins er Fastefli ehf, sem er í eigu Óla Vals Steindórssonar. Hann er ekki ókunnugur því að breyta húsnæði í íbúðir, en byggingarfélagið Upprisa, sem er í hans eigu, breytti Brautarholti 18-20 í Reykjavík í 64 íbúðir á bilinu 35-67 fm að stærð. Þar djömmuðu gestir á árum áður í skemmtistaðnum Þórscáfe, sem fyrst opnaði sem veitingastaður árið 1945 en árið 1958 flutti staðurinn í Brautarholt þar sem hann var rekinn á tveimur hæðum, með mismunandi áherslum til vorsins 2003. Síðar gátu konur svo ræktað þar líkama og sál í Baðhúsi Lindu Pé.
Hin síbreytilega Gamla Borg
Gamla Borg í Grímsnesi var byggt árið 1929 af Ungmennafélaginu Hvöt og gengdi mörgum hlutverkum í gegnum tíðina, þar var rekinn skóli, samkomuhús, dansstaður, bílaverkstæði, kaffihús, enn að lokum varð Gamla Borg að heimili hjónanna Mumma Týs Þórarinssonar og Þórunnar Wolfram, sem voru í viðtali við DV í apríl 2021.
„Húsið tók svo vel á móti okkur, það er erfitt að útskýra það en það bara bauð okkur velkomin,“ segir Mummi.
„Svo við bara gerðum tilboð og fluttum,“ segir Þórunn. „Við erum með alls konar hugmyndir um að halda þessu húsi í einhvers konar rekstri. Menningarhús, pop-up-viðburði eða eitthvað. Ímyndaðu þér hvað væri geggjað að vera hér með gaurinn með gítarinn og bara stóla – hvað sem er. En aðallega erum við með þetta sem húsaverndunarverkefni því þetta er hús sem er byggt árið 1929 og hefur gengið í gegnum alls konar og hér eftir verður ekkert sem kemur fyrir það, ekki á meðan við eigum það og við ætlum að eiga það lengi.“
Nýtt hlutverk Hressingarhælis
Í tilkynningu Kópavogsbæjar í október 2020 kom fram að Hressingarhælið í Kópavogi yrði þaðan af nýtt í þágu lýðheilsu og geðræktar. Sagði þar að stefnt verði að því að þar verði haldin námskeið og erindi á sviði geðræktar til að efla andlega heilsu íbúa en í fyrstu verður áhersla lögð á að vinna með börnum og ungmennum.
Húsið stendur við Kópavogsgerði og var reist þar árið 1926 að frumkvæði kvenfélagsins Hringsins sem hæli fyrir útskrifaða berklasjúklinga. Arkitekt hússins var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins. Síðar var húsið notað sem holdsveikraspítali og húsnæði Þroskaþjálfaskólans. Kópavogsbær hefur látið gera húsið upp að miklu leyti á undanförnum árum.
Verbúð tölvufærð til Vestfjarða
Húsið Bakki í Grindavík er forn verbúð, byggð 1933 og er talin vera elsta uppistandandi verbúð á Suðurnesjum. Minja- og sögufélag Grindavíkur eignaðist húsið í maí 2015 og er endurbygging þess langt komin. Eins og er er prjónaverslunin Prjónasystur starfrækt í einu herbergi hússins, en ekki liggur fyrir hvaða starfsemi mun verða þar þegar endurbótum lýkur.
Bakki skipaði veigamikið hlutverk í kvikmyndinni Ég man þig árið 2017, sem gerð er eftir samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttur. Með hjálp tölvutækninnar er húsið fært á Hesteyri á norðanverðum Vestfjörðum.
Mathallirnar
Ekki er hægt að ljúka svona samantekt, sem þó er alls ekki tæmandi, án þess að minnast á mathallirnar sem spretta upp víða um Reykjavíkurborg og þó víðar væri leitað.
Sú fyrsta, Hlemmur mathöll, opnaði haustið 2017. Á heimasíðu mathallarinnar stendur að mathöllin sæki innblástur í hinar rómuðu evrópsku mathallir, þar sem sameinast undir einu þaki átta metnaðarfullir matarkaupmenn og veitingastaðir.
Hlemmur var byggður árið 1978 sem ein af aðalskiptistöðvum Strætó eftir teikningu Gunnars Hanssonar arkitekts. Skiptistöðin var um árabil eins konar afdrep útigangsfólks í Reykjavík, félagsmiðstöð pönkara í upphafi níunda áratugarins og staður fyrir unglinga að hanga á. Verslanir voru á Hlemmi, og skyndibitastaðir, spilasalir og vídeóleigur í næsta nágrenni. Semsagt allt til alls! Heilmiklar framkvæmdir eru í gangi og fyrirhugaðar á Hlemmsvæðinu, þar sem verið er að stækka Hlemmtorg og úthýsa bílaumferð, að strætisvögnunum frátöldum.
Grandi mathöll opnaði í byrjun júní 2018 í Sjávarklasanum á Granda við Reykjavíkurhöfn og státar sig af því að vera fyrsti „götubita“ staðurinn á Íslandi. Húsnæðið var áður fiskverksmiðja, en þar eru nú reknir níu veitingastaðir sem bjóða upp á frumlega rétti með áherslu á íslenskt hráefni. Þar er einnig Bakkaskemman, fjölnota rými, sem hægt er að leigja til ýmissa viðburða.
Pósthús mathöll opnaði í nóvember 2022 í gamla Pósthúsinu að Pósthússtræti 5 í miðbæ Reykjavíkur. Þar eru níu veitingastaðir. Húsið var byggt árið 1914 sem pósthús eins og nafnið gefur til kynna. Hitt Húsið, menningar- og upplýsingamiðstöð fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára, var rekin í húsinu frá árinu 2002, þar til í janúar 2019 þegar starfsemi Hins Hússins flutti alfarið upp á Rafstöðvarveg 7-9.